Baksvið
Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Verði frumvarp meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis að lögum er áætlað að veiðigjald fyrir almanaksárið 2018 muni skila ríkissjóði um 8,3 milljörðum króna. Áður hafði verið áætlað að veiðigjald þessa fiskveiðiárs myndi nema um 10,8 milljörðum.
Þetta kemur fram í greinargerð með frumvarpi meirihluta atvinnuveganefndar sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Þar segir að nauðsynlegt sé að endurákvarða álagningu gjaldsins fyrir almanaksárið 2018 og er m.a. vísað til „þeirra skaðlegu áhrifa sem óbreytt veiðigjald getur haft á íslenskan sjávarútveg og samfélög um allt land.“ Í samantekt í greinargerðinni segir að engar vísbendingar séu um markverðar breytingar til batnaðar á rekstrarumhverfi sjávarútvegsins á þessu ári.
Allt að fjórföld hækkun
Í greinargerðinni kemur fram að álagt veiðigjald næstliðins fiskveiðiárs, 2016/2017, hafi verið 4,5 milljarðar. Hækkunin hafi lagst misjafnlega þungt á sjávarútvegsfyrirtæki en dæmi séu um að hækkun veiðigjalds milli fiskveiðiára hafi verið allt að fjórföld.Veiðigjald á einstakar tegundir breytist með nýju lögunum og lækkar gjald á bolfisk mun meira en á uppsjávartegundir, en breytingin er misjöfn eftir tegundum. Sem dæmi má nefna að veiðigjald á kíló af þorski verður 16,45 krónur, en er núna 22.98 kr. og nemur lækkunin 28%. Á kíló af makríl verður gjaldið þrjár krónur á kíló, en var 3,27 kr. og nemur lækkunin 8,3%. Lagt er til að afsláttur verði aukinn og komi það minni útgerðum einkum til góða.
Í greinargerðinni er rifjað upp að í mars 2018 hafi endurskoðunarskrifstofan Deloitte gefið út skýrslu um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja samkvæmt sameiginlegri beiðni vorið 2017 frá þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og þáverandi formanni atvinnuveganefndar Páli Magnússyni. Í skýrslunni komi fram að tekjur í sjávarútvegi hafi dregist saman um 25 milljarða árið 2016 eða um 9%. Því tekjutapi hafi verið mætt að hluta með lækkun kostnaðar, einkum hjá stærri félögum, og hafi EBITDA lækkað um 15 milljarða eða 22%. Vegna óhagstæðrar þróunar ytri hagstærða geti EBITDA-afkoma ársins 2017 síðan hafa lækkað um 20-37% frá fyrra ári.
Mikil lækkun framlegðar
Sjávarútvegsráðuneytið fór þess á leit við veiðigjaldanefnd 8. mars að hún legði mat á upplýsingar um breytingar í rekstrarafkomu sjávarútvegs í ljósi veiðigjalds yfirstandandi fiskveiðiárs. Í svarbréfi nefndarinnar segir að sé gert ráð fyrir að samdráttur í framlegð veiða samkvæmt spálíkani veiðigjaldsnefndar milli 2016 og 2017 skili sér að fullu sem lækkun á gjaldstofni veiðigjalds megi ætla að hann hafi lækkað um 35% í botnfiski og 15% í uppsjávarfiski. Ætla megi að framlegð 2017 í botnfiski hafi lækkað um 31% og framlegð í uppsjávarfiski um 15% frá árinu 2015.„Ef veiðigjald almanaksársins 2018 yrði endurreiknað á grundvelli niðurstöðu spálíkans veiðigjaldsnefndar um 35% lækkun á reiknistofni í botnfiski og 15% í uppsjávarfiski mundi gjaldið nema um 7,2 milljörðum kr. að teknu tilliti til áhrifa svonefnds persónuafsláttar. Ekki eru hins vegar forsendur til að láta fyrrgreinda þróun leiða til þess að gjaldið verði að öllu leyti endurákvarðað til samræmis við þann útreikning enda hækkun gjaldsins að nokkru leyti fyrirséð. Því er eðlilegt að greiðendur veiðigjalds taki á sig nokkurn hluta áhrifa þessara breytinga ásamt ríkissjóði,“ segir í greinargerð meirihlutans.