Sporlétt og fín Í splunkunýjum búningum sem Sigríður Sunna hannaði sérstaklega á Óð og Flexu áður en þau héldu sporlétt á vit nýrra ævintýra.
Sporlétt og fín Í splunkunýjum búningum sem Sigríður Sunna hannaði sérstaklega á Óð og Flexu áður en þau héldu sporlétt á vit nýrra ævintýra. — Ljósmynd/Jónatan Grétarsson
Valgerður Þ. Jónsdóttir vjon@mbl.is Óður og Flexa eru aftur komin á kreik eftir ævintýralegt afmælispartý sem Íslenski dansflokkurinn setti upp árið 2016. Dansverkið nefndist einfaldlega Óður og Flexa eiga afmæli .

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

Óður og Flexa eru aftur komin á kreik eftir ævintýralegt afmælispartý sem Íslenski dansflokkurinn setti upp árið 2016. Dansverkið nefndist einfaldlega Óður og Flexa eiga afmæli . Þessir sporléttu grallarar koma nú fram á Listahátíð í Reykjavík þar sem þau lenda í rafmögnuðu ævintýri á Stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu á laugardaginn og sunnudaginn, kl. 13 og 15 báða dagana.

Dansararnir Þyri Huld Árnadóttir og Hannes Þór Egilsson eru allt í öllu í uppfærslunni, eða a.m.k. flestu, því þau eru hugmyndasmiðir verksins og danshöfundar. Þau skrifuðu einnig handritið ásamt leikstjóranum Pétri Ármannssyni og Sigríði Sunnu Reynisdóttur, sem hafði búninga og sviðsmynd á sinni könnu. „Nýja verkið, Óður og Flexa: Rafmagnað ævintýri , er sjálfstætt framhald Óður og Flexa eiga afmæli . Við snúum aftur á svið til að taka til eftir afmælið, sem fór svolítið úr böndunum. Síðan hefur allt verið á rúi og stúi heima hjá okkur. Tvö prumpuskrímsli mættu í veisluna og gerðu smá usla, en einnig töframaður sem hjálpaði okkur að ná aftur ímyndunaraflinu,“ rifjar Þyri Huld upp og er strax farin að lifa sig inn í hlutverk Flexu.

Raf Max kemur til sögunnar

Auk þeirra Þyri Huldar og Hannesar Þórs tekur þriðji dansarinn, Ernesto Camilo, þátt í uppfærslunni. Hann leikur vélmennið Raf Max, sem dansar sig inn á sviðið um miðbik verksins og kynnir rafmagnsheiminn fyrir þeim Óð og Flexu. „Okkur langaði að gera framhald af fyrri sýningunni til sjá hvað gerðist ef þau lentu í nýjum ævintýrum og svo vorum við bara með ýmsar pælingar um krakka og hugmyndaflug þeirra, sem okkur finnst mjög mikilvægt að virkja. Við fundum vel hvað krakkarnir skemmtu sér vel í afmælisveislunni. Sýningin hlaut enda mikið lof áhorfenda og gagnrýnenda og var tilnefnd til Grímuverðlauna 2016 í flokknum Barnasýning ársins og Danshöfundar ársins,“ segir Þyri.

Henni finnst svolítið öðruvísi að dansa fyrir börn en fullorðna, en þó ekki síður skemmtilegt. „Krakkarnir eru alveg ófeimnir. Þeir láta mann alveg vita hvað þeim finnst, kalla fram í ef þeir sjá ástæðu til og þess háttar. Ég geri ekki ráð fyrir að smáfólkið eigi eftir að hlaupa fram á sviðið, en við ætlum að búa til minna svið á Stóra sviðinu til þess að vera í meira návígi við áhorfendur.“

Að nota ímyndunaraflið

Þyri Huld og Hannes Þór hafa búið sig vel undir að takast á við næsta ofurhetjuverkefni með þeim Óð og Flexu. Nefnilega að taka til með stæl. Slíkt er ekki öllu smáfólki gefið eins og flestir foreldrar vita. Þá munu þau eins og í fyrri sýningunni leggja áherslu á að kenna krökkunum að nota ímyndunaraflið.

„Og benda þeim á að tiltekt þarf alls ekki að vera leiðinleg, heldur þvert á móti skapandi og skemmtileg. Söguþráðurinn er í stórum dráttum á þá leið að þegar Óður og Flexa eru að taka til sulla þau óvart niður vatni á raftæki. Klaufskan verður til þess að þau fá rafstraum og fara inn í annan heim; rafmagnaðan heim,“ segir Þyri Huld en gefur ekkert frekar upp um framvindu sögunnar.

Dansverkið, sem samanstendur af ballett og nútímadansi, er 40 til 50 mínútna langt og tónlistin er á klassísku nótunum. „Í klassíkina blandast líka önnur tegund af tónlist, sem Raf Max kynnir okkur fyrir,“ segir hún. Grunur leikur á að sú sé rafmögnuð.

Þyri Huld upplýsir að Íslenski dansflokkurinn hyggist setja upp fleiri sýningar á rafmögnuðu ævintýri þeirra Óðs og Flexu úti á landi í sumar og aftur í Borgarleikhúsinu með haustinu.