Flotadeild Kínverskur herskipafloti, undir forystu Liaoning, við heræfingar á Austur-Kínahafi í apríl síðastliðnum.
Flotadeild Kínverskur herskipafloti, undir forystu Liaoning, við heræfingar á Austur-Kínahafi í apríl síðastliðnum. — AFP
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Kínverskur herskipafloti undir forystu flugmóðurskipsins Liaoning er nú sagður hafa náð „frumstigi“ þess að vera klár undir stríðsátök.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Kínverskur herskipafloti undir forystu flugmóðurskipsins Liaoning er nú sagður hafa náð „frumstigi“ þess að vera klár undir stríðsátök. Þetta segir varnarmálaráðuneyti Kína en lítið er í raun vitað um þróun og prófanir á flugmóðurskipum landsins.

Xi Jinping, forseti Kína, hefur lagt mikla áherslu á endurnýjun og eflingu hersins. Hafa Kínverjar meðal annars þróað nýjar tegundir torséðra flugvéla sem ekki eiga að sjást á ratsjám óvinarins, flugskeyti sem grandað geta gervihnöttum og flugmóðurskip, þ.e. Liaoning og annað skip sem smíðað er frá grunni í Kína.

Liaoning var smíðað í Úkraínu fyrir sjóher Sovétríkjanna. Smíð skipsins, sem upphaflega bar heitið Varyag, lauk hins vegar aldrei og keyptu Kínverjar skipsskrokkinn vélarvana árið 1998. Var það svo formlega tekið í notkun 2012 eftir miklar breytingar og endurhönnun.

Hafa Kínverjar nú nýtt skipið til að sýna mátt sinn á Austur-Kínahafi og meðal annars siglt því við strendur Taívans. „Æfingar herskipaflotans eru meiri nú en áður og hernaðarlegar,“ hefur Reuters eftir varnarmálaráðuneyti Kína.

Sérfræðingar sem fréttastofa CNN ræddi við segja Liaoning hins vegar „úrelt“ og ekki standast neinn samanburð við þau skip sem sjóher Bandaríkjanna hefur í sinni þjónustu, svokallaða Nimitz-gerð.

Fer í notkun árið 2020

Hitt flugmóðurskip Kína, sem enn er í smíðum og hefur ekki fengið nafn, er nú í sjóprófunum. Stendur til að taka það í notkun árið 2020. Bæði flugmóðurskipin eru byggð á svonefndri Kuznetsov-gerð flugmóðurskipa Sovétríkjanna. Flugbrautin vísar upp á við í stefninu og virkar þannig sem eins konar stökkpallur fyrir herþotur í flugtaki. Kínverjar áætla að þörf sé fyrir minnst sex flugmóðurskip á næstu áratugum.
Liaoning
» Flugmóðurskipið er 304 metrar á lengd og vegur um 66.000 tonn.
» Í áhöfn eru 1.900 manns auk um 600 manna flugáhafnar.
» Pláss er fyrir um 40 mismunandi orrustuþotur og þyrlur auk dróna ýmiss konar.