Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Það er mjög ángæjulegt að skoða hve miklar framfarir hafa orðið í öryggismálum sjómanna á aðeins nokkrum áratugum. Ekki aðeins hefur banaslysum fækkað heldur eru alvarleg meiðsli og örkuml orðin fátíð. „Hér áður fyrr voru slysin mjög tíð, banaslysin algeng og mikið um útlimamissi. Allt er þetta orðið sjaldgæft í dag,“ segir Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna.
Margir samverkandi þættir skýra þann árangur sem náðst hefur. Hilmar nefnir fyrst af öllu það starf sem unnið var hjá rannsóknarnefnd sjóslysa sem síðar varð hluti af rannsóknarnefnd samgönguslysa. „Allt frá árinu 1970 hafa rannsóknir og mælingar nefndarinnar skipt miklu máli í öllum forvörnum og hjálpað stofnunum eins og Slysavarnaskólanum að sjá hvar brýnast væri að reyna að koma í veg fyrir slysin. Öll slysaskráning er svo mikilvæg því hún hjálpar okkur að læra af slysunum og sjá til þess að þau endurtaki sig ekki.“
Betri skip og vandaðri búnaður hafa líka haft mikið að segja. „Greiningar leiddu það í ljós að sum af þeim slysum sem voru algeng fyrr á dögum mátti skrifa á hönnun og gæði þess búnaðar sem notaður var um borð. Með betri hönnun og betri búnaði tókst að eyða ákveðnum tegundum slysa. Hönnuðir nýrra skipa hafa núna við mjög greinargóð gögn að styðjast til að gera skipin að enn öruggari vinnustað.“
Læra að gæta sín
Loks nefnir Hilmar mannlega þáttinn. Frá stofnun Slysavarnaskólans hefur þar verið unnið markvisst að öryggisþjálfun sjómanna svo þeir sýni aðgát við störf sín og setji sig ekki óvart í hættulegar aðstæður. „Alveg sama hversu splunkuný skip og góðan búnað við höfum, þá er það mannlegi þátturinn sem ræður úrslitum. Sjómenn þurfa að fara varlega og láta ekki eins og naut í flagi. Það var vel þekkt hér áður fyrr að hugsunarhátturinn var iðulega sá að redda málunum og sjómanninum tamt að stökkva til ef hann sá að eitthvað var að fara úrskeiðis, en í Slysavarnaskólanum er brýnt fyrir mönnum að það er ekkert sem heitir að grípa inn í þegar þung veiðarfæri eða öflugur búnaður eiga í hlut,“ útskýrir Hilmar. „Sjómenn verða líka að gæta sín á því að þó að tekjur geti verið góðar þegar vel fiskast, og öllum sé umhugað um að veiðarnar gangi sem best, þá þýða slysin að bæði skipið og sjómaðurinn tapa tekjum. Mestur er þó skaðinn fyrir sjómanninn sem verður fyrir slysinu, því hætt er við að hann komist aldrei aftur í þessa vinnu sína og þrátt fyrir að hann fái mögulega ágæta eingreiðslu frá tryggingafélagi þá reiknast það sem lélegt kaup til frambúðar.“
Fimm daga grunnur
Frá árinu 1993 hafa allir sjómenn verið skyldaðir til að fara í öryggisfræðslu og eru tvenns konar námskeið í boði fyrir byrjendur. „Annars vegar er námskeið fyrir þá sem vinna á smábátum og varir í einn dag, en hins vegar fimm daga námskeið fyrir áhafnir stærri skipa. Síðan er gerð um það krafa að allir sæki endurmenntun ekki sjaldnar en á fimm ára fresti,“ segir Hilmar.Þeir sem eru að hefja sjómennsku fá þó undanþágu og geta frestað námskeiðinu í allt að 180 lögskráningardaga til sjós. „Má líta á það sem hálfgerðan reynslutíma þar sem menn geta áttað sig á því hvort sjómennskan á vel við þá eða ekki,“ segir Hilmar og upplýsir blaðamann um að það skapi ekki aukna hættu þó að óreyndasta fólkið um borð hafi ekki setið öryggisnámskeið. „Slysagögnin sýna að reyndari áhafnarmeðlimir eru í meiri hættu en nýliðinn. Þeir sem eru að hefja sjómennsku eru gjarnan undir verndarvæng hinna og undir vökulu auga þeirra á meðan þeir kunna ennþá lítið til verka.“
Ástæðan fyrir því að námskeið smábátasjómanna er miklu styttra er að þar er ekki eins mikill búnaður um borð og í stóru skipunum. „Það er mikill munur á lítilli trillu með einu handslökkvitæki og togara með tveimur reykköfunartækjum og slöngubúnaði. Öryggismálin eru talsvert öðruvísi á stærri skipum,“ segir Hilmar en bætir við að áhöfn farþegabáta þurfi líka að sitja fimm daga námskeið.
Spennandi skóladagur
Þeir sem sitja námskeið Slysavarnaskólans eru nær undantekningarlaust ánægðir með og þakklátir fyrir fræðsluna. Hilmar segir þess gætt að koma efni námskeiðana til skila á skýran hátt og að þátttakendur þurfi ekki að stunda strembna heimavinnu eða lesa sig í gegnum þykka doðranta. Mörgum þykja námskeiðin mjög skemmtileg enda fá þeir m.a. að æfa rétt viðbrögð við alls kyns kringumstæðum og gera sjóæfingar í flotbúningum. Sjálfur hefur Hilmar mikið yndi af starfinu. „Ég er búinn að vera hérna í 27 ár og finnst hver dagur skemmtilegri en dagurinn á undan.“Ákveðin störf um borð kalla á að sjómenn bæti við sig sérhæfðum námskeiðum sem geta tekið nokkra daga. „Sumir einstaklingar þurfa að sitja allt að fimm námskeið, þar af fjögur sem verður að halda við á fimm ára fresti. Þetta eru t.a.m. sérnámskeið í eldvörnum, sem tekur fjóra daga; sérnámskeið í meðferð björgunarfara sem tekur tvo daga til viðbótar; og lyf- og læknishjálp sem skipstjórnarmenn þurfa að sitja til að læra á lyf og læknisáhöld svo þeir geti sinnt því betur ef slys og veikindi verða um borð. Einnig höldum við sérstakt námskeið í mannauðsstjórnun og námskeið fyrir þá sem þurfa að sigla á svæðum þar sem hætta getur verið á sjóránum eða annars konar vágestum. Allt eru þetta námskeið sem veita alþjóðleg réttindi og eru bæði gjaldgeng og nauðsynleg fyrir þá sem vilja vinna á erlendum skipum.“