Heitt Á kyrrahafinu var fór hitinn oft yfir 40 gráður. Þá var tíminn nýttur í að sóla sig en þeir sem áttu ekki skýlur notuðu skó til að hylja viðkvæmustu svæðin.
Heitt Á kyrrahafinu var fór hitinn oft yfir 40 gráður. Þá var tíminn nýttur í að sóla sig en þeir sem áttu ekki skýlur notuðu skó til að hylja viðkvæmustu svæðin. — Ljósmynd/Úr einkasafni
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
45 ár eru frá komu Japanstogaranna til Íslands. Kyrrahafið og Atlantshafið voru bæði tekin í einni og sömu ferðinni.

Teitur Gissurarson

teitur@mbl.is

Reynir Sigurðsson hóf sjómennsku fimmtán ára. Hann fór í Vélskólann átján ára og starfaði sem vélstjóri um árabil. Reynir er einn af þeim sem sigldu Arnari HU1 frá Japan til Skagastrandar árið 1973 en í ár eru liðin 45 ár síðan „Japanstogararnir“ tíu komu til landsins. Ferðalagið tók um tvo mánuði en siglt var frá Japan til Íslands með viðkomu á mörgum framandi stöðum. Arnar HU1 var síðasti Japanstogarinn sem kom til landsins en 1973 keyptu íslenskir útgerðarmenn tíu skuttogara frá skipasmíðastöð í ríki sólarinnar. Reynir settist niður með blaðamanni og sagði frá ferðalaginu, siglingunni og áhrifunum sem kaupin höfðu á heimabæinn Skagaströnd.

Frá Skagaströnd til Muroran

Hinn 11. ágúst 1973 lögðu sjö sjóarar frá Skagaströnd upp í ferðalag til Japans til að sækja skuttogara fyrir heimabæinn. „Margir hverjir voru að fara í flugvél í fyrsta skipti og höfðu aldrei farið til útlanda,“ segir Reynir Sigurðsson, fyrrverandi vélstjóri, og bendir á að sumir hafi verið örlítið órólegir í sinni fyrstu flugferð.

Eftir tveggja daga ferðalag með viðkomu í New York og Fairbanks í Alaska lentu sjóararnir í Tókýó þar sem ýmislegt forvitnilegt beið þeirra. „Við vorum í nokkra daga í Tókýó. Á hótelinu voru litasjónvörp og útvörp í öllum herbergjum og svo skoðuðum við nokkur búddamusteri,“ segir Reynir en þess má geta að Sjónvarpið á Íslandi hóf ekki litaútsendingar úr upptökusal fyrr en árið 1977. Eftir nokkra daga í Tókýó lögðu sjómennirnir sjö af stað til Muroran, en Muroran er á Hokkaido-eyju í Norður-Japan. „Ferðin þangað tók tvo sólarhringa,“ segir Reynir en í Muroran var skipasmíðastöðin þar sem togarinn Arnar var smíðaður. Þar biðu þeirra þrír Íslendingar og var þá áhöfnin fullmönnuð, tíu manns. „Við vorum þar í nokkra daga. Þar fórum við í prufusiglingu og lærðum á bátinn,“ segir Reynir en auk þess að venjast skipinu þurftu sjóararnir að venjast menningu innfæddra. „Það var þannig að við þurftum alltaf að þvo okkur með handsturtu áður en við fórum ofan í baðkarið. Þá kom hótelstýran, sem við kölluðum Mömmu San, og skoðaði hvort við værum nógu hreinir til að fara ofan í,“ segir Reynir hlæjandi.

Hinn 22. ágúst var skipið formlega afhent og íslenskur fáni dreginn að húni. „Það var smáveisla og Bolli Magnússon skipatæknifræðingur hélt ræðu,“ segir Reynir, en Bolli hafði séð um smíði allra Japanstogaranna. „Við reyndar græddum svakalega á því að hafa fengið síðasta togarann,“ segir Reynir sposkur á svip. Spurður nánar út í þetta svarar hann: „Sagan segir að í fyrsta togaranum hafi allar kojur verið 160 sentímetrar á lengd og vaskarnir í sextíu sentímetra hæð! Það var sem betur fer búið að laga þetta allt í síðasta togaranum,“ segir Reynir en undirstrikar þó brosandi að hann hafi aldrei fengið þessa sögu staðfesta.

Vikulegar kvöldvökur

Reynir og félagar leystu festar í Japan seint í ágúst og héldu af stað heim á leið. Við tók 52 daga sigling en fyrsti áfangastaður var Havaíeyjar í miðju Kyrrahafinu. „Það voru oft fjörutíu gráður á daginn,“ segir Reynir en á löngum heitum dögum lágu skipverjarnir gjarnan í sólbaði á dekkinu. „Þess á milli fylgdumst við með fuglum og fiskum en mönnum leiddist stundum,“ segir Reynir og bætir við að oft hafi verið haldnar kvöldvökur á skipinu til að stytta stundirnar. „Við vorum með kvöldvökur allavega vikulega. Það voru margir fínir söngvarar og gítarleikarar um borð og svo urðu til ansi fínir sögumenn og hagyrðingar á leiðinni.“

Reynir, sem hefur alla tíð verið mikill söngvari og gítarleikari, lék sér einnig við að taka upp tónlist á leiðinni. „Við vorum með nokkur segulbandstæki,“ segir Reynir en ásamt því að hafa keypt segulbandstæki fyrir vini og vandamenn voru keyptir gítarar og annað dót til að flytja heim til Íslands. „Svo spilaði ég og söng „Bláu augun þín“ inn á segulbandið og söng svo raddir inn á næsta tæki,“ segir Reynir og bætir við: „Þá var ég bara kominn með stúdíó í miðju Kyrrahafi.“

Einungis tveimur dögum var eytt í höfuðborg Havaí, Honolulu, en þar var eldsneyti og vatni bætt á skipið. Skipverjarnir eyddu dögunum á baðströndum og í sjónum við þær en Reynir minnist þess að í Honolulu hafi verið mikið líf og fjör.

„Gat ekki séð hænu á vappi í mörg ár á eftir“

Frá Havaí var haldið í átt að Mið-Ameríku, en siglingin til Panama tók um sautján sólarhringa. Reynir segir að þrátt fyrir að siglingin hafi gengið mjög vel sé honum og öðrum skipverjum gjarnan minnisstætt hversu lítil fjölbreytni hafi verið í matseld um borð í skipinu. „Kokkurinn sem átti að koma með okkur komst einhverra hluta vegna ekki með og því þurfti Gylfi bróðir að elda,“ segir Reynir en um borð voru tveir bræður hans, Gylfi og Árni Sigurðssynir. „Við Árni vissum náttúrlega að Gylfi kunni ekki einu sinni að sjóða kartöflur,“ segir Reynir og hlær. „Svo stóð hann í eldhúsinu með sleifina í annarri hendinni og Ungu stúlkuna og eldhússtörfin í hinni,“ segir Reynir en bendir á að Gylfi bróðir hans hafi þrátt fyrir allt staðið sig nokkuð vel. „Hann gerði þetta ágætlega, en það voru bara þrjár tegundir; kjúklingur, svínakjöt og nautakjöt. Allt í potti,“ segir Reynir og bætir við: „Ég gat ekki séð hænu á vappi í mörg ár á eftir án þess að fá fiðring í magann.“

Eins og áður segir sigldu Reynir og félagar til Panama og í gegnum hinn fræga skurð sem gjarnan er kenndur við landið. „Það var náttúrlega svakalegt mannvirki og mikil upplifun,“ segir Reynir en áhöfnin eyddi tæpum tveimur sólarhringum í borginni Cristobal á meðan olíu og vatni var bætt á skipið. Þetta átti eftir að verða síðasta stopp skipsins en eftir að hafa siglt í gegnum sundið milli Dóminíska lýðveldisins og Púertó Ríkó var stefnan sett á Ísland.

Hinn 15. október kom Arnar HU1 í höfn á Skagaströnd en við komuna var mikil viðhöfn í bænum. „Við vorum komnir um miðnætti kvöldið áður,“ segir Reynir en skipverjarnir þurftu að bíða nóttina vegna hátíðarinnar morguninn eftir. „Þeir voru nú nokkrir orðnir svolítið pirraðir. Margir voru með fjölskyldur í landi en við þurftum að bíða yfir nóttina,“ segir Reynir og bætir við: „Það var búið að skipuleggja að fólkið myndi fylgjast með okkur sigla inn Húnaflóann.“ Reynir segir þó að menn hafi fljótt jafnað sig á biðinni og segist ennþá muna eftir mannfjöldanum og borðunum í höfninni sem buðu togarann og áhöfnina velkomna heim.

Með aflamestu skipum landsins

Reynir segir að útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki Skagstrendinga, Skagstrendingur hf., hafi verið sannkallaður bjargvættur þorpsins. „Íbúafjöldi var á miklu undanhaldi á þessum tíma enda lítið um atvinnu,“ segir Reynir en félagið var stofnað 1968. Þá segir hann að mikið hafi breyst enda hafi staðurinn í kjölfarið orðið mun vænlegri kostur til búsetu. „Íbúarnir áttu flestir hluta í félaginu. Þar á meðal ég,“ segir Reynir en upphaflegir hluthafar voru 112 talsins. Reynir segir að hinn nýi japanski togari hafi sannarlega staðið sig með prýði í íslenskum sjó en Arnar HU1 var um langa hríð með aflamestu skipum landsins. „Reksturinn á þessu skipi gekk mjög vel,“ segir Reynir en hann hélt áfram sem vélstjóri á skipinu eftir að það kom til landsins.

Þó að Reynir sé fyrir löngu hættur sjómennsku heldur hann alltaf sjómannadaginn hátíðlegan. Þá ætlar hann að syngja með Karlakór sjómanna um daginn en um kvöldið syngur hann með hljómsveitinni Tíglum, sem stofnuð var fyrir 45 árum. „Ég fer alltaf heim ef ég get,“ segir Reynir en þrátt fyrir að búa í Kópavogi ætlar hann að halda upp á daginn í sínum gamla heimabæ, Skagaströnd.