[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stundum getur það gerst að allir heimsins fiskar virðast forðast skipin eins og heitan eldinn. Þá er líkt og veiðarfærin verði að skrautbúnaði á skipinu og tíminn varla líður.

Stundum getur það gerst að allir heimsins fiskar virðast forðast skipin eins og heitan eldinn. Þá er líkt og veiðarfærin verði að skrautbúnaði á skipinu og tíminn varla líður. Ef svo ber undir er gott að hafa eitthvað að gera til að stytta stundirnar á meðan beðið er eftir næstu torfu. Hér eru nokkrir hlutir sem eru ómissandi í langan túr.

Spjaldtölva

Góð spjald- eða fartölva er staðalbúnaður fyrir hvern mann og konu nú á gervihnattaöld. Gott er að hafa nokkrar góðar kvikmyndir eða þáttaseríur til reiðu þegar maður hefur stund aflögu.

Melódíka

Ef listamaðurinn vill láta ljós sitt skína er sniðugt að hafa hljóðfæri til staðar til að svala þörfinni. Þá er gaman að geta slegið gítarleikurunum við með góðu melódíkuspili í matsalnum.

Pípa

Það er fyrir löngu vitað að allir sjómenn reykja pípu eins og strompur. Gott er að mæta klyfjaður af hágæða tóbaki svo birgðirnar klárist ekki á leiðinni.

Útvegsspilið

Ef öll áhöfnin er í pásu er tilvalið að taka spil. Gamla góða útvegsspilið hefur aldrei klikkað enda tímalaus klassík.

Prjónar og garn

Það er upplagt að nota langar stundir til að prjóna flíkur á vini og vandamenn. Bestur er íslenski plötulopinn ætli maður að prjóna peysu.

Ritsafn Þorsteins frá Hamri

Ef bíómyndagláp, tónlist eða reykingar vekja ekki áhugann er lestur eina leiðin. Ritsafn Þorsteins frá Hamri er úrvals lesning en safnið inniheldur þrettán ljóðabækur, þrjár skáldsögur og þjóðlegan sagnahátt.

teitur@mbl.is