Fréttaskýring
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is Frakkinn Zinedine Zidane hefur lag á að koma heimsbyggðinni á óvart. Hann lauk sín um glæsilega ferli sem knattspyrnumaður á einstaklega dramatískan hátt í úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar árið 2006 og í gær kom hann flestum í opna skjöldu með því að tilkynna að hann væri hættur störfum sem knattspyrnustjóri Real Madrid.
Aðeins fimm dögum eftir að hann hafði unnið Meistaradeild Evrópu með félaginu þriðja árið í röð, þrátt fyrir að vera einungis í tæplega hálft þriðja ár við stjórnvölinn hjá stórveldinu frá Madríd.
Stundum er sagt að best sé að hætta á toppnum. Zidane fór nálægt því árið 2006. Hann náði reyndar ekki að hampa heimsmeistaratitlinum sem Frakkar misstu af í vítaspyrnukeppni eftir framlengdan úrslitaleik gegn Ítölum. En hann hvarf sjálfur af velli á eigin forsendum. Zidane setti undir sig höfuðið og stangaði Ítalann Marco Materazzi undir bringspalirnar. Fékk rauða spjaldið og lauk þannig ferlinum. Með silfurverðlaun um hálsinn.
Zidane boðaði til blaðamannafundar um hádegið í gær, með 90 mínútna fyrirvara. Tilkynnti þar að hann væri hættur og væri þegar búinn að ræða við leikmennina.
„Þegar á móti blæs hugsar maður málin vandlega og mín niðurstaða er sú að leikmennirnir þurfi á breytingum að halda. Þeir vita allir af þessu og ég ræddi málið sérstaklega við Sergio Ramos.
Við gerum alltaf meiri kröfur til leikmannanna og að því kemur að maður getur ekki beðið um meira. Þeir þurfa á annarri rödd og annarri aðferðafræði að halda til að halda áfram á sigurbraut. Allt er breytingum háð og þess vegna komst ég að þessari niðurstöðu. Ég er ekki að svipast um eftir öðru liði. Ég veit að þetta lítur einkennilega út en ég tel að ákvörðun mín sé sú rétta,“ sagði Zidane á fundinum.
Zidane þekkir sitt heimafólk. Hann var sjálfur leikmaður Real Madrid fimm síðustu árin á sínum ferli og hefur hvergi annars staðar þjálfað. Var fyrst með varalið félagsins í tvö ár og tók síðan við aðalliðinu í ársbyrjun 2016 þegar Rafael Benítez var sparkað.
Saga Real Madrid er þannig að félagið er ekki lengi með sama knattspyrnustjórann. Arsene Wenger er vinsæll í samanburðarfræðum en á meðan hann einn stýrði Arsenal í 22 ár hafa 19 stjórar komið og farið í Madríd. Kröfurnar eru gríðarlegar og ef slakað er á hikar stjórn félagsins ekki við að skipta um karlinn í brúnni.
Þótt ótrúlegt megi virðast var Zidane talinn valtur í sessi, enda þótt þriðji Evrópumeistaratitillinn í röð hafi verið innbyrtur á laugardaginn. Gengi liðsins á heimaslóðum í vetur var langt undir væntingum, liðið endaði 17 stigum á eftir Barcelona og þremur á eftir Atlético Madrid, ásamt því að vera slegið út af Leganés í spænsku bikarkeppninni.
Viðbúið er að allt annað en 100 prósenta byrjun á næsta tímabili hefði kostað Zidane starfið. Þetta vissi hann og tók hárrétta ákvörðun. Hann gengur því hnarreistur út af Santiago Bernabéu með þrjá Meistaradeildarpeninga um hálsinn og setur næsta stjóra félagsins undir enn meiri pressu.