Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, á margar ánægjulegar minningar tengdar sjómannadeginum. Hún fæddist inn í sjómannafjölskyldu á Akranesi og þótti mikið til þess koma, sem lítil hnáta, hvað bærinn lifnaði við á þessari hátíð. „Faðir minn var skipstjóri og afi líka skipstjóri og útgerðarmaður. Þetta var því alltaf mikill hátíðisdagur og hefur eðli málsins samkvæmt alveg sérstakan sess í hjartanu,“ segir hún. „Afi var heiðraður fyrir störf sín á þessum degi árið 1988 og árið 1996 var amma heiðruð. Hún var þó ekki heiðruð fyrir að hafa sótt sjóinn, heldur fyrir að hafa alið upp, fætt og klætt fjóra syni sem allir voru afburðagóðir sjómenn.“
Sterkari króna veldur vandræðum
Heiðrún segir bæði sjávarútvegsfyrirtæki og sjómenn glíma í dag við neikvæðar afleiðingar sterkari krónu. Eftir því sem gjaldmiðillinn verður dýrari lækka tekjur sjávarútvegsins og laun sjómanna í hlutaskiptakerfi lækka að sama skapi. Gengisþróunin undanfarin ár hafi m.a. valdið því að hafa þarf meira fyrir því en oft áður að manna skip. „Laun á sjó hafa almennt þurft að vera töluvert umfram það sem gengur og gerist í landi, en á sama tíma og laun sjómanna hafa goldið fyrir sterkari krónu hefur verið einstaklega gott árferði í landi og uppgangur í greinum á borð við byggingariðnað og ferðaþjónustu, og einhverjir sjómenn því ákveðið að fara í land,“ útskýrir hún. „Ég myndi ekki segja að það hafi skapast ófremdarástand, en vissulega er orðið meiri áskorun að manna sumar tegundir skipa.“En hvernig má snúa þróuninni við? Heiðrún telur að fjárfesting í nýjum skipum og tækjum geti lagt grunninn að enn betri kjörum sjómanna. „Við sjáum það að endurnýjun flotans leiðir meðal annars í mörgum tilvikum til þess að eitt skip getur komið í stað tveggja eldri skipa. Aflaverðmæti á hvert skip eykst og laun sjómanna um leið,“ segir hún og bætir við að íslenskur sjávarútvegur eigi ennþá inni töluverða fjárfestingu og endurnýjun. „Einnig eru dýrmæt tækifæri fólgin í því að auka virði íslenskra sjávarafurða á erlendum mörkuðum. Það eru sameiginlegir hagsmunir útgerða og sjómanna að það takist með aukinni tæknivæðingu, sem skilar enn betri afurð, og með markvissri sameiginlegri og neytendamiðaðri markaðssetningu á erlendum mörkuðum.“
Unnið úr bókunum síðustu kjarasamninga
Skrifað var undir nýja kjarasamninga við sjómenn í fyrra eftir langt og kostnaðarsamt verkfall. Samningarnir renna út í lok næsta árs og hafa fulltrúar útgerða og sjómanna fundað með reglulegu millibili um þær bókanir sem gerðar voru í síðustu samningum og þarf að reyna að útkljá áður en næsta ár er á enda. „Samningsaðilar beggja vegna borðsins eru að vinna af miklum heilindum og dugnaði að því að koma þessum bókunum í höfn,“ segir Heiðrún. „Við erum komin vel af stað með fyrstu bókunina sem kveður á um að gera úttekt á hvíldartíma skipverja.“Samgöngustofa annast framkvæmd úttektarinnar og miðar hún m.a. að því að varpa ljósi á hvort lögbundinn hvíldartími sé virtur á ákveðnum tegundum skipa. „Með nýjum skipum hefur gefist tækifæri til að hagræða og fækka í áhöfn, en sjómannafélögin hafa haft áhyggjur af því að vinnuálagið sé í sumum tilvikum of mikið og hvíldartími ekki virtur sem skyldi. Allir sem að málinu koma eru sammála um að hér sé um mikilvægt öryggismál að ræða og ganga þurfi úr skugga um að sjómenn fái þá hvíld sem lög kveða á um. Við höfum því einhent okkur í það verkefni, með aðstoð Samgöngustofu, að koma þessari könnun af stað.“
Önnur bókun sem unnið hefur verið að fjallar um slys á sjó. Það er til mikils að vinna fyrir alla ef tekst að draga enn frekar úr slysum um borð. Þrátt fyrir að starf sjómanns í dag sé orðið nokkuð öruggt má enn gera getur. „Blessunarlega hefur þróunin í sjóslysum verið í rétta átt, og árið 2017 var fjórða árið í sögunni þar sem enginn lét lífið á sjó. Spilar þar inn í bætt öryggisþjálfun, fullkomnari og öruggari skip og betra skipulag við veiðar. Það er keppikefli allra að koma í veg fyrir banaslys, og auðvitað fækka annars konar slysum enn frekar. Það verkefni er viðvarandi.“
Geri einfaldari og skýrari samning
Einnig er vinna hafin við að endurskoða kjarasamninga sjómanna í heild sinni með það fyrir augum að gera þá einfaldari og skýrari. „Kjarasamningarnir eru að mörgu leyti flóknir efnislega, og á köflum er orðalag þeirra komið verulega til ára sinna.“Heiðrún undirstrikar að skýrari og einfaldari samningar þýði ekki að megininntaki kjarasamninganna verði breytt, og segir hún að reynslan af síðustu samningum hafi verið góð. „Eins og yfirleitt vill verða í samningum af þessu tagi má segja að báðir aðilar hafi gengið jafnsáttir eða jafnósáttir frá borði, enda þurftu báðir að gefa eitthvað eftir. Það tókst hins vegar að semja um mjög stór atriði eins og fiskverðsmálin og hefur úrskurðarnefnd gengið vel að vinna eftir nýju og gagnsærra fiskverðsmódeli. Samningarnir fólu því sannarlega í sér jákvætt skref fram á við.“