Við Goðafoss Meirihluti þingnefndarinnar telur að gjaldtaka á ferðamannastöðum geti orðið mikilvægt tæki til aðgangsstýringar.
Við Goðafoss Meirihluti þingnefndarinnar telur að gjaldtaka á ferðamannastöðum geti orðið mikilvægt tæki til aðgangsstýringar.
Ómar Friðriksson omfr@mbl.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar telur að áður en ráðist er í breytingar á skattkerfinu sem boðaðar eru í fjármálaáætlun fjármála- og efnahagsráðherra verði að liggja fyrir nákvæmar greiningar á hvaða áhrif þær hafa á hag heimila og fyrirtækja og samkeppnishæfni atvinnulífsins til lengri tíma.

Nefndarmeirihlutinn hefur skilað ítarlegri umsögn við áætlunina og sendir ýmsar ábendingar um breytingar til fjárlaganefndar.

Þak á fjölda ferðamanna á viðkvæmustu svæðunum?

„Meirihlutinn telur nauðsynlegt að huga að breytingum á persónuafslætti þannig að hann nýtist fyrst og fremst þeim sem eru á lægstu laununum og fari lækkandi eftir því sem laun hækka og falli niður hjá þeim sem njóta hæstu launa. Breytingum af þessu tagi verður ekki hrundið í framkvæmd án víðtæks samráðs og stuðnings aðila vinnumarkaðarins,“ segir m.a. um endurskoðun skattkerfisins.

Í umfjöllun um gjaldtöku í ferðaþjónustunni og áform um að kanna möguleika á komu- eða brottfarargjaldi sem taka hefjist á árið 2020 bendir meirihlutinn á að huga þurfi sérstaklega að stöðu innanlandsflugs, ef til gjaldtöku af þessu tagi kemur. „Til greina kemur að gjaldið sé mishátt eftir lengd flugs líkt og þekkist í sumum ríkjum Evrópu,“ segir þar.

Meirihlutinn telur brýnt að settur verði skýr lagarammi um gjaldtöku á helstu ferðamannastöðum sem eru í opinberri eigu. ,,Meirihlutinn telur skynsamlegt að verð geti verið breytilegt í samræmi við aðsókn og hve mikið viðkomandi staðir þola. Þá beinir meiri hlutinn því til umhverfis- og auðlindaráðherra og ferðamálaráðherra að huga að því hvort rétt sé að innleiða ítölu (þak á fjölda) fyrir viðkvæmustu svæðin.“

Þá er varað við því að gangi þjóðhagspá ekki eftir muni það hafa veruleg áhrif, ekki síst á tekjur ríkissjóðs, afkomu og þróun skulda. Er sérstaklega vakin athygli á óvissu um þróun ferðaþjónustunnar. Óli Björn Kárason, formaður nefndarinnar, segir í samtali að hér sé síst of sterkt til orða tekið. Komið hafi fram neikvæð merki um þróun mála í ferðaþjónustunni sem menn verði að huga að og geta haft gríðarleg áhrif.

Komið verði á fót sjálfstæðu hagsýslusviði á Alþingi

Bent er á í umsögninni að ýmsir hnökrar hafi komið fram við þinglega meðferð fjármálaáætlunarinnar líkt og í fyrra. Er bent á ýmsar úrbætur og þung áhersla lögð á að styrkja þurfi starfsemi nefndasviðs Alþingis ,,og telur [meirihlutinn] nauðsynlegt að koma á fót sjálfstæðu hagsýslusviði með sérfræðiþekkingu á efnahagsmálum, skattamálum og reikningsuppgjöri ríkissjóðs og ríkisstofnana.“