Hefur einhver lesið undursamlegt ljóð um virkjanir eða stóriðju? Séð dýrlega fallegt málverk af raflínum eða stíflum? Fallið í stafi yfir háspennuturnum? Það hefur Víkverji ekki.

Hefur einhver lesið undursamlegt ljóð um virkjanir eða stóriðju? Séð dýrlega fallegt málverk af raflínum eða stíflum? Fallið í stafi yfir háspennuturnum?

Það hefur Víkverji ekki. Aftur á móti hefur hann lesið fjölmörg ljóð um þau undur sem náttúran hefur skapað og dáðst að dýrlegum málverkum af fossum, fjöllum og öðru landslagi. Víkverji hefur líka ótal sinnum orðið bergnuminn af fegurð íslenskrar náttúru.

Flest virðist nú benda til þess að Hvalárvirkjun verði reist í Ófeigsfirði á Ströndum. Verði hún að veruleika munu framkvæmdirnar skerða það óbyggða svæði á Vestfjörðum sem er víðáttumest. Víkverji er ekkert sérlega sleipur í stærðfræði en reiknast svo til að þetta svæði sé um 14% íslenskra víðerna sem samtals eru rúmlega 1.600 ferkílómetrar. Lagðir verða a.m.k. 25 kílómetrar af vegum og rennsli nokkurra fagurra fossa stöðvast að mestu.

Ímyndum okkur eitt augnablik að náttúruvísindamaðurinn og listaskáldið góða, Jónas okkar Hallgrímsson, kæmist yfir tímavél hjá snarbrjálaða vísindamanninum Jeppe Sørensen í Kaupmannahöfn árið 1835 og myndi ferðast fram um 200 ár, til ársins 2035.

Um hvað myndi Jónas yrkja ef hann kæmi við í Ófeigsfirði og Hvalárvirkjun hefði verið reist þar? Myndi skáldið fyllast andagift?

Kannski myndi Jónas yrkja tilbrigði við ljóð Hannesar Hafstein: Þar sem háar stíflur hálfan dalinn fylla?

Víkverji heyrir stundum talað í hæðni um „lattélepjandi 101-lýð“ sem er að derra sig vegna virkjanaframkvæmda á landsbyggðinni. Þetta skilur Víkverji ekki. Finnst einhverjum í alvörunni að fólk megi bara hafa skoðun á þeim stöðum sem það býr sjálft á?