Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Norðmenn, sem eru næstsíðustu mótherjar Íslendinga fyrir HM í Rússlandi, eru sú þjóð sem íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur oftast mætt í 72 ára sögu sinni.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Norðmenn, sem eru næstsíðustu mótherjar Íslendinga fyrir HM í Rússlandi, eru sú þjóð sem íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur oftast mætt í 72 ára sögu sinni.

Annar landsleikur Íslands frá upphafi var gegn Noregi á Melavellinum árið 1947 þegar Albert Guðmundsson skoraði bæði mörk Ísland í 2:4 ósigri, og gerði þá jafnframt fyrstu landsliðsmörk Íslands. Í dag er langafabarn Alberts og alnafni í íslenska landsliðshópnum.

Frá þeim tíma eru leikirnir milli þjóðanna orðnir 33 og þar af fjórtán í undankeppni stórmóta. Þetta er því 20. vináttulandsleikurinn þeirra á milli.

Norðmenn hafa vinninginn og vel það en þeir hafa sigrað 19 sinnum, Íslendingar 8 sinnum og 6 sinnum hafa liðin skilið jöfn.

Tólf af þessum 19 sigrum Norðmanna komu í fyrstu fimmtán viðureignum þjóðanna, frá 1947 til 1973, en eftir það hefur mikið jafnræði verið þeirra á milli.

Kári og Alfreð skoruðu

Á þessari öld hefur Ísland þó aðeins unnið einn af níu leikjum þjóðanna, vann 2:0 á Laugardalsvelli í undankeppni HM haustið 2012 þar sem Kári Árnason og Alfreð Finnbogason skoruðu mörkin. Liðin hafa gert fimm jafntefli frá aldamótum en Norðmenn hafa unnið þrísvegis, síðast 3:2 í vináttulandsleik í Ósló, rétt fyrir EM í Frakklandi 2016.

Tvívegis fagnað vel í Ósló

Einhver besti sigur Íslands var í Ósló 1987, í undankeppni EM, þar sem Atli Eðvaldsson gerði sigurmarkið, 1:0. Þá var jafntefli liðanna haustið 2013 fagnað sem sigri, en 1:1 jafntefli í Ósló tryggði þá Íslandi sæti í umspili fyrir HM 2014.