Kristján Baldursson
Kristján Baldursson
Eftir Kristján Baldursson: "Heimamenn ættu að standa saman sem einn maður á móti þessum aðgerðum og vernda sínar náttúruperlur gegn yfirgangi peningavaldsins."

Það eru nú 48 ár síðan heimamenn í Þingeyjarsýslu stöðvuðu virkjunarframkvæmdir í Laxá II með því að sprengja stíflu þar sem sökkva átti blómlegum dal. Þarna stóðu heimamenn saman um að stöðva framkvæmd sem þeim var í óþökk og þvinga átti í gegn með offorsi. En sveitungar tóku til sinna ráða og hrundu framkvæmdum af höndum sér. En þeir stóðu ekki einir því að náttúruverndarsinnar landsins stóðu með þeim. Meðal annars var haldinn gríðarlega fjölmennur og heitur fundur í Háskólabíói til stuðnings heimamönnum og virkjun mótmælt. Skemmst er frá því að segja að heimamenn og náttúruverndarsinnar höfðu betur í það skiptið og fallið var frá framkvæmdum í Laxá.

Óþörf virkjun

En nú, 48 árum síðar, er annað sveitarfélag á landinu í þeirri stöðu að leggja ofurkapp á að fá til sín raforkuver sem kemur til með að eyðileggja stóran hluta af náttúruperlum svæðisins. Með því fórna þeir gríðarlegu víðerni og eyðileggja ósnortna náttúru með virkjunarframkvæmdum til að framleiða snefil af raforku sem engin þörf er á. Ekki einu sinni fyrir heimabyggð og kosta mun gríðarlegar fjárhæðir. Það er staðreynd að í pípunum eru tvær virkjanir sem þokkaleg sátt er um og eykur orkuframleiðslu landsins um hátt í 300 MW, Búrfellsvirkjun og Þeistareykjavirkjun.

Erlendir eignaraðilar

Nú þurfa náttúruverndarsinnar allir sem einn að koma heimamönnum til aðstoðar með upplýsingum og vísindalegum rökum því þarna er verið að fremja algerlega óþarfan hernað gegn landinu fyrir skammtímaágóða. Í þessu tilfelli er ekki metið til verðmæta fagurt landslag og víðerni sem eyðilögð verða. Þarna er að frumkvæði erlendra eignaraðila verið að ráðast í óafturkræfar aðgerðir sem valda munu mikilli röskun og gífurlegum kostnaði. Eingöngu til að pressa peninga út úr landeignum sínum en er greinilega nákvæmlega sama um náttúru Íslands.

Náttúruperlur

Mér finnst að Vestfirðingar og heimamenn ættu að standa saman sem einn maður á móti þessum aðgerðum og vernda sínar náttúruperlur gegn yfirgangi peningavaldsins. Stór hópur landsmanna myndi styðja það dyggilega. Það væri fróðlegt að fá skoðanakönnun á landsvísu um hvort þjóðin er með eða á móti þessari virkjun.

Ég fagna því að þungavigtarmenn eins og Tómas Guðbjartsson, Snorri Baldursson og Pétur Húni Björnsson og fleiri standi vaktina og bendi á að þetta er allt of mikil fórn fyrir lítinn ávinning.

Höfundur er tæknifræðingur og náttúruverndarsinni.