Áhöfn geimskipsins Rocinante úr The Expanse.
Áhöfn geimskipsins Rocinante úr The Expanse. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Streymisveiturnar Netflix og Amazon Prime hafa veitt þáttaröðum á borð við The Expanse og Arrested Development, sem héldu ekki fótfestu í sjónvarpi, annað tækifæri á skjánum. Arnar Tómas Valgeirsson arnart@mbl.is

Þáttaröðin The Expanse var nýlega endurnýjuð á streymisveitu Amazon Prime, eftir að sjónvarpsstöðin SyFy hætti framleiðslu þáttanna. Jeff Bezos, forstjóri Amazon, tilkynnti fréttirnar sjálfur en hann er að eigin sögn mikill aðdáandi þáttanna. Þættirnir eru vísindaskáldskapur, byggðir á samnefndri bókaröð og segja frá átökum og togstreitu innan sólkerfisins eftir að mannkynið kemst í kynni við óþekkt lífsform.

Rödd aðdáenda

Í kjölfar þess að þáttunum var aflýst tóku dyggir áhorfendur höndum saman til að reyna að bjarga þeim. Yfir hundrað þúsund undirskriftum var safnað auk þess sem þeir hópfjármögnuðu flugvél til að fljúga yfir kvikmyndaver Amazon með áletruðum borða myllumerkis herferðarinnar #savetheexpanse. Þetta framtak hefur líklega hjálpað Amazon að komast að ákvörðun sinni, en þetta er ekki í fyrsta skipti sem aflýstri þáttaröð er bjargað af streymisveitu.

Bananabásnum lokað

Hin truflaða Bluth-fjölskylda naut mikilla vinsælda í Arrested Development , en eftir þriðju seríu þáttanna tilkynnti höfundur þeirra, Mitchell Hurwitz, að þættirnir myndu ekki halda áfram í sjónvarpi. Það var þó ekki vegna skorts á fjármagni heldur hélt Hurwitz að gæðum þáttanna myndi hnigna ef þeir héldu áfram á sömu braut. Hann sagði að ef það yrði mögulegt að gefa þættina út á formi þar sem þeim væri ekki sjónvarpað í hverri viku væri hann tilbúinn að halda áfram.

Nýtt húsnæði Bluth-fjölskyldunnar

Árið 2012 kom fjórða sería Arrested Development út á ört vaxandi streymisveitu Netflix. Þótt nýju þættirnir hafi ekki hlotið jafn góðar viðtökur og fyrri seríur þá fengu þættirnir þó nýtt líf og var fimmta serían gefin út fyrr í vikunni. Á sama tíma og fjórða serían var gefin út var Netflix nýbyrjað að gefa út sitt eigið efni á borð við House of Cards og Orange is the New Black , en með endurvakningu Arrested Development opnaði fyrirtækið nýjar dyr til að blása lífi í þætti sem ekki héldu fótfestu innan ramma dagskrárgerðar sjónvarps.

Valkostur er kostur

Stærsti kostur streymisveitnanna fram yfir sjónvarpsstöðvar þegar kemur að framboði efnis er að notendur geta ákveðið hvað þeir vilja horfa á og hvenær. Þegar áhorfendur ákveða hvað þeir vilja horfa á í staðinn fyrir að horfa á það sem er í gangi hverju sinni, þá geta streymisveitur byggt upp fjölbreytilegt safn efnis á meðan sjónvarpsstöðvar þurfa að huga að dagskránni sem heild. Þessi fjölbreytileiki gefur pláss fyrir jaðarefni á borð við vísindaskáldskap eins og The Expanse. Með þessu móti sanka streymisveiturnar að sér mörgum misjöfnum hópum sem horfa einungis á sérstakar tegundir þátta.

Hvað næst?

Endurvakningar þessara þátta sýna hvaða möguleika sérstaða streymisþjónustu hefur. Það er að öllum líkindum of seint að blása lífi í þætti sem var aflýst fyrir sögulok eins og t.d. Deadwood og Firefly , en ef áhorfendur láta í sér heyra er aldrei að vita hvaða gömlu vinir af skjánum gætu birst aftur.