Sýningarhátíðin EuroGym verður haldin á Íslandi árið 2020.

Sýningarhátíðin EuroGym verður haldin á Íslandi árið 2020. „Við settum okkur þetta markmið að styðja í auknum mæli við fimleika fyrir alla og sóttum um að halda EuroGym á Íslandi 2020 og fengum hana,“ segir Sólveig en hátíðin er einhver sú stærsta sem haldin er fyrir ungt fólk í fimleikum. Sólveig segir að þarna gefist tækifæri til að vekja athygli á málefninu. „Vonandi fara allir í gang núna og þarna getum við uppskorið á fimm þúsund manna sýningarhátíð sem verður úti um alla Reykjavík,“ segir hún, en hátíðin er fyrir börn og unglinga á aldrinum 12-18 ára.

„Í fimleikunum erum við mest að þjónusta ungt fólk og því er frábært að geta boðið upp á þessa sýningu á okkar heimavelli. Foreldrar og aðstandendur geta allir tekið þátt og séð hvað þetta er stórkostlegt. Þarna geta allir komið og blómstrað á sínum eigin forsendum.“

Á EuroGym er engin keppni heldur snýst hátíðin um sýningar og vinnubúðir. „Við bjóðum upp á 40-50 vinnubúðir þessa viku. Það verða sirkusvinnubúðir, ratleikir, hipphopp, parkour, þrek og ýmislegt fleira.“

EuroGym er haldin á tveggja ára fresti en í sumar fara 160 manns frá Íslandi á hátíðina í Liège í Belgíu.