Strokkvartett Siggi og Jón Marinó.
Strokkvartett Siggi og Jón Marinó.
Íslensk tónlist verður leikin á íslensk hljóðfæri á tónleikum Strokkvartettsins Sigga í Fríkirkjunni í Reykjavík annað kvöld kl. 20.

Íslensk tónlist verður leikin á íslensk hljóðfæri á tónleikum Strokkvartettsins Sigga í Fríkirkjunni í Reykjavík annað kvöld kl. 20. Tónleikarnir eru á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík og á þeim mun kvartettinn leika á hljóðfæri sem smíðuð voru af fiðlusmiðnum Jóni Marinó Jónssyni. „Sellóið var smíðað fyrst en fyrirmynd þess er Stradivariselló frá árinu 1710. Fiðlurnar og víólan, sem fylgdu í kjölfarið, eru eftir eigin teikningum Jóns Marinós,“ segir á Facebook-síðu viðburðarins.

Á efnisskránni verða fjögur íslensk verk, samin sérstaklega fyrir Sigga en einnig verður fluttur fyrsti strokkvartett Jóns Leifs, Mors et Vita, ópus 21 frá árinu 1939. Þá verður frumfluttur kvartett Mamiko Dísar Ragnarsdóttur, Blómin fríð, „Án titils (Norðurland og Tröllaskagi)“ frá árinu 2011 og Seremónía Hauks Tómassonar frá 2013 í nýjum búningi; verk Halldórs Smárasonar, draw+play (2017) og tilraunaverk Unu Sveinbjarnardóttur, Þykkt (2014), sem er í fjórum köflum og hver þeirra hverfist um eitt hljóðfæri kvartettsins.