Sandgerðingurinn Reynir Sveinsson.
Sandgerðingurinn Reynir Sveinsson.
Reynir Sveinsson í Sandgerði á 70 ára afmæli í dag. Reynir er fæddur og uppalinn í Sandgerði og hefur búið þar alla tíð, en foreldrar hans voru Sveinn Aðalsteinn Gíslason rafveitustjóri og Guðbjörg Hulda Guðmundsdóttir.

Reynir Sveinsson í Sandgerði á 70 ára afmæli í dag. Reynir er fæddur og uppalinn í Sandgerði og hefur búið þar alla tíð, en foreldrar hans voru Sveinn Aðalsteinn Gíslason rafveitustjóri og Guðbjörg Hulda Guðmundsdóttir.

Reynir lærði rafvirkjun hjá föður sínum og rak rafmagnsverkstæðið Rafverk ehf. í yfir 30 ár en hætti því fyrir um 20 árum og hóf störf hjá Sandgerðisbæ sem forstöðumaður Fræðaseturs í Sandgerði sem nú heitir Þekkingarsetur Suðurnesja. Þar starfaði Reynir frá stofnun þess þar til fyrir fimm árum, aðallega við móttöku gesta og leiðsögn. „Fyrir um 11 árum fór ég í nám í svæðisleiðsögn um Reykjanesskagann og líkar það vel. Ljósmyndun hefur verið mikið áhugamál frá fermingu og ég á mikið ljósmyndasafn sem stendur til að flokka er fram líða stundir.“

Reynir hefur starfað mikið að félagsmálum á Suðurnesjum, setið í bæjarstjórn Sandgerðis í 20 ár, í hafnarráði í 16 ár og verið formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, formaður sorpeyðingarstöðvar Sorpu og formaður Markaðsstofu Suðurnesja. „Svo var ég einn af stofnendum Hattavinafélags Sandgerðis og höfuðpaur félagsins í 10 ár en þá lognaðist félagið út af.“

Reynir var mjög virkur í björgunarsveitinni Sigurvon ásamt hörðum kjarna sem byggði SVFÍ-húsið í Sandgerði. Þá var Reynir í Slökkviliði Sandgerðis í 40 ár og slökkviliðsstjóri í níu ár. Ferðamál á Suðurnesjum hafa til margra ára verið áhugamál Reynis og hefur hann setið í stjórn Ferðamálasamtakanna til margra ára. „Hvalsneskirkja hefur alla tíð verið mér hjartfólgin og er ég formaður sóknarnefndar og hef á undanförnum árum staðið fyrir miklum framkvæmdum við kirkju, kirkjugarð og Safnaðarheimilið í Sandgerði.

Í tilefni þessara tímamóta ætla ég að halda upp á daginn heima og býð fjölskyldu, vinum og vandamönnum í smá kvöldveislu.“ Reynir á þrjú uppkomin börn og sjö barnabörn.