„Þetta er afar persónulegt verkefni og í raun harmsaga,“ segir Nanna Bisp Büchert um ljósmyndaverkin.
„Þetta er afar persónulegt verkefni og í raun harmsaga,“ segir Nanna Bisp Büchert um ljósmyndaverkin. — Morgunblaðið/Einar Falur
Ljósmyndaverk Nönnu Bisp Büchert sem sýnd eru í Þjóðminjasafninu byggjast á bréfaskiptum móður hennar í Danmörku og ömmu á Íslandi. Hún segir þetta afar persónulegt verkefni. Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is
Annarskonar fjölskyldumyndir er heiti sýningar dansk-íslenska ljósmyndarans Nönnu Bisp Büchert sem verður opnuð á Veggnum í Þjóðminjasafninu í dag klukkan 14. Í verkunum sem Nanna gerði snemma á níunda áratugnum og eru í eigu Brandts-listasafnsins í Óðinsvéum fjallar hún um sendibréf sem móðir Nönnu ritaði móður sinni á Íslandi á fjórða og fimmta áratug liðinnar aldar. Í kyrralífsverkum, eins og Nanna hefur getið sér gott orð fyrir á löngum og gifturíkum ferli, er blandað saman bréfunum, fjölskyldumyndum og hlutum sem listakonunni þótti tengjast þeim. Undirliggjandi er harmræn fjölskyldusaga.

„Já, þetta er afar persónulegt verkefni og í raun harmsaga,“ segir Nanna þar sem við skoðum verkin saman í Þjóðminjasafninu. „Móðir mín flutti til Danmerkur árið 1932 og giftist þar. Foreldrar mínir dóu svo með stuttu millibili í stríðslok, fyrst faðir minn og svo móðir mín einu og hálfu ári seinna.

Hún hafði alltaf skrifað móður sinni á Íslandi, nema á stríðsárunum þegar engin bréf fóru á milli landanna, og amma mín hafði geymt bréfin. Þegar hún dó árið 1962 voru mér send bréfin en mér þóttu þau svo persónuleg að ég las þau ekki í tuttugu ár, ég gat það ekki. Svo las ég þau loksins um 1980 og var um svipað leyti boðið að taka þátt í sýningu sem hét fjölskyldumyndir. Ég sagðist vera til í það, ef ég mætti gera fjölskyldumyndir aftur í tímann. Þannig urðu þessi verk hér til.“

Nanna fór þá að vinna með bréfin og segir það hafa tekið sig langan tíma. „Ég vildi ekki fara beint í innihald bréfanna en notaði þau sem myndefni. Ég safnaði mörgu að mér, hlutum, ljósmyndum og öðru, áður en það fór að koma mynd á þetta. Ég kann ekki að gera skissur – þannig yrði þetta líka steindautt – en myndirnar mótast meðan ég vinn. Ekki síst í verkum sem þessum þar sem ég stilli hlutum upp. Það var ótrúlegt vesen að gera þessar myndir en þegar ég horfi á þær núna þá finnst mér að þær endist vel.“

Nanna segist enn vera að gera ljósmyndaverk. „Yfirleitt vinn ég í seríum og þá með eitthvert efni sem leitar á mig. Til dæmis gerði ég seríu á hóteli á eynni Mön sem hafði varla verið hreyft við í hundrað ár. Svo geri ég mikið af uppstillingum.“ Og hún vinnur alveg stafrænt og er mjög ánægð með það.

Nanna lauk á sínum tíma stúdentsprófi frá MR og kemur síðan reglulega til Íslands að hitta vini og ættingja. En myndar hún hér?

„Ég hef gert ýmislegt hér en ég tek ekki myndir af landslaginu. Íslensku ljósmyndararnir eru ofboðslega færir og sjá um það. Ég tek frekar myndir af bættu bárujárni eða einhverju svoleiðis!“