Þetta er ekki einhver ákvörðun sem er tekin í veipfylltum bakherbergjum. Þetta eru ósjálfráð viðbrögð í íslenskum stjórnmálum (og mögulega úti um allan heim). Þau eru tilkomin vegna þess að enginn vill viðurkenna að hafa tapað.

Það er svo skemmtilegt að heimurinn samanstendur af reglum sem er ekki hægt að breyta. Massi alls er alltaf sá sami, við munum öll deyja, tveir plús tveir eru fjórir og það er ekki hægt að sleikja á sér olnbogann.

Við getum treyst þessu. Sumir treysta meira að segja öðrum reglum eins og að hádegisverðurinn sé aldrei ókeypis eða enska landsliðið verði aldrei heimsmeistari í fótbolta. Það er kannski ekki alveg jafn öruggt.

En reglan er sú að við höfum reglur. Framboð og eftirspurn og sigur og tap. Nema í pólitík. Þá á síðari reglan ekki við. Og jafnvel stundum ekki sú fyrri heldur.

Um síðustu helgi kusum við og flokkunum gekk misjafnlega eins og gengur. En eins merkilegt og það hljómar þá sigruðu flestir flokkar en enginn tapaði. Í Silfrinu sat fluggáfað fólk sem lét eins og langt komnir fjárhættuspilarar sem muna bara eftir því þegar þeir græddu en geta ómögulega munað eftir því að hafa nokkurn tímann tapað.

Samt segir það sig sjálft. Tveir stórir flokkar sem eiga sæti á Alþingi buðu fram í fyrsta sinn í sveitarstjórnum, auk nokkurra smærri. Þeir fengu slatta af atkvæðum sem segir að einhver hlýtur að hafa haft þau áður. Í stað þess að viðurkenna það þá fara menn með langar ræður um að flokknum þeirra hafi nú gengið vel í Árborg eða Borgarnesi eða Blönduósi.

Sex framboð í Reykjavík náðu ekki einu prósenti og þrjú þeirra náðu ekki einu sinni lágmarksfjölda meðmælenda, sem er 160 manns. Töpuðu þau? Ekki að ræða það!

Þetta er ekki einhver ákvörðun sem er tekin í veipfylltum bakherbergjum. Þetta eru ósjálfráð viðbrögð í íslenskum stjórnmálum (og mögulega úti um allan heim). Þau eru tilkomin vegna þess að enginn vill viðurkenna að hafa tapað.

Það vill enginn vera sá sem lendir í fyrirsögn sem andlit þess sem tapaði. Alveg sama hvað við tölum mikið um að vera heiðarleg og viðurkenna mistök. Því er aldrei tekið þannig. Aldrei búast við því að einhver segi: „Það er drengilegt að viðurkenna þetta.“ Það eina sem gerist er að andstæðingar þínir munu nudda þér upp úr því og þú verður fyrirsögnin. Sá sem viðurkennir og horfist í augu við tap, sem er reyndar yfirleitt bara tímabundin lægð frá venjulegu kjarnafylgi, verður andlit taparans.

Vandinn liggur í því að þegar stjórnmálamenn viðurkenna mistök þá er þeim yfirleitt velt upp úr þeim. Sem gerir það svo að verkum að slíkt gerist nánast aldrei. Jafnvel þótt ein reglan í viðbót væri að stjórnmálamenn séu líka mannlegir og geti gert mistök.

Þetta er til dæmis ástæðan fyrir því að okkur tókst að halda kalda stríðinu lifandi löngu eftir að múrinn féll. Það vildi enginn játa það að hafa mögulega haft rangt fyrir sér til að forðast að vera nuddað upp úr því um aldur og ævi af sigurvegurunum.

Afi minn sagði mér þegar ég var lítill strákur að það skipti miklu máli að kunna að tapa en það skipti jafnvel meira máli að kunna að vinna. Þegar við lærum það má kannski búast við því að einhver fáist til að viðurkenna ósigur í kosningum.

Höf.: Logi Bergmann Eiðsson