Sýningarstjórarnir Kathy Clark og Annabelle von Grisewald í Dragsúgi, færanlega galleríinu sem var í gær fyrir framan Wind and Weather Gallery á Hverfisgötu 37 þar sem einn hluti göngusýningarinnar er settur upp.
Sýningarstjórarnir Kathy Clark og Annabelle von Grisewald í Dragsúgi, færanlega galleríinu sem var í gær fyrir framan Wind and Weather Gallery á Hverfisgötu 37 þar sem einn hluti göngusýningarinnar er settur upp. — Morgunblaðið/Hari
Í hátt í tuttugu gluggum í miðborginni, í fyrirtækjum og heimahúsum, verður opnuð á morgun, sunnudag, göngusýningin Leiðin heim .

Í hátt í tuttugu gluggum í miðborginni, í fyrirtækjum og heimahúsum, verður opnuð á morgun, sunnudag, göngusýningin Leiðin heim . Liststofnunin Wind and Weather Gallery, sem starfrækir sýningarglugga á Hverfisgötu 37, stendur að sýningunni og verkin eru eftir valinkunna íslenska listamenn og erlenda sem búsettir eru hér á landi. Þar á meðal eru Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Helgi Þorgils Friðjónsson, Claudia Hausfeld, Hekla Dögg Jónsdóttir, Hrafnkell Sigurðsson, Theresa Himmer og Rebecca Erin Moran. Á korti sem útbúið hefur verið má sjá staðsetningu sýningarglugganna og býður framkvæmdin upp á forvitnilega gönguferð um miðbæinn.

Hluti af sýningunni er færanlegt gallerí, Dragsúgur, sem mun vera staðsett á nokkrum stöðum í borginni næstu vikur en til að byrja með á Austurvelli þar sem gestir geta fengið sér ódýran espressó-kaffibolla í innsetningu Egils Sæbjörnssonar og Ívars Glóa.

Kathy Clark rekur Wind and Weather Gallery og er sýningarstjóri ásamt Annabelle von Grisewald. „Listamennirnir takast allir á við, og hver á sinn hátt, hugmyndina um „ferðina heim“ sem vísað er til í heiti sýningarinnar,“ segir Kathy. Og hún segir verkin unnin í hina ýmsu miðla og vera einstaklega fjölbreytileg. „Meðan á Listahátíð stendur munum við sjö sinnum bjóða upp á leiðsögn, gönguferð á milli allra hluta sýningarinnar,“ segir hún en lagt verður af stað frá Klúbbi Listahátíðar í Hafnarhúsinu. Fyrsta leiðsögnin verður eftir opnunina þar á morgun klukkan 16.

„Ég skapaði Dragsúg, færanlegt gallerí sem er nákvæm eftirmynd gluggagallerísins míns á Hverfisgötu 37, og hefur það nánast öðlast sjálfstætt líf. Allar sýningarnar eru skoðaðar utan frá, af götunni, nema það er hægt að fara inn í Dragsúg. Við opnuðum innsetningargjörning Egils og Ívars, espressóbarinn, í honum við Hverfisgötu um síðustu helgi. Barinn er opinn frá 10 til 18 alla daga og ferðast núna niður í bæ, verður kominn á Austurvöll á sunnudag og mun vonandi verða vel sóttur þar. Eftir 9. júní taka aðrir listamenn Dragsúg yfir, Styrmir Örn Guðmundsson og Agata Mickiewicz, verða við Hallgrímskirkju og færa í verki sínu næturmyrkur yfir Ísland í júní,“ segir Kathy.

Nokkrir gjörningar verða í tengslum við Dragsúg á næstunni en hann snýr heim á Hverfisgötu 21. júní, undir lok Listahátíðar, og verður fagnað með götuveislu. efi@mbl.is