Tólfta heimsmeistaramót karla í knattspyrnu fór fram á Spáni árið 1982 og þar léku í fyrsta skipti 24 lið í lokakeppni HM.

Tólfta heimsmeistaramót karla í knattspyrnu fór fram á Spáni árið 1982 og þar léku í fyrsta skipti 24 lið í lokakeppni HM.

Fyrir vikið fengu fleiri þjóðir utan Evrópu og Suður-Ameríku keppnisrétt og lið Alsírs, Kamerún, Kúveit, Nýja-Sjálands og Hondúras voru með í fyrsta skipti.

Leikið var í sex fjögurra liða riðlum og tólf lið sem komust áfram léku í fjórum þriggja liða milliriðlum þar sem sigurvegararnir fóru í undanúrslit.

• Ítalir, sem rétt komust áfram úr riðlakeppninni með þrjú jafntefli, urðu heimsmeistarar í þriðja sinn eftir 3:1-sigur á Vestur-Þjóðverjum að viðstöddum 90 þúsund áhorfendum á Santiago Bernabéu í Madríd. Paolo Rossi, Marco Tardelli og Alessandro Altobelli komu Ítölum í 3:0 áður en Paul Breitner minnkaði muninn.

• Pólverjar fengu bronsverðlaunin eftir sigur á Frökkum, 3:2, í Alicante.

Paolo Rossi frá Ítalíu varð markakóngur HM með sex mörk en hann gerði þau öll í þremur síðustu leikjunum. Þrennu í óvæntum 3:2-sigri á Brasilíu, bæði mörkin í 2:0-sigri á Pólverjum í undanúrslitum og svo eitt í úrslitaleiknum. Rossi var kjörinn besti leikmaður HM en hann var 25 ára leikmaður Juventus og kom beint á HM úr tveggja ára keppnisbanni.