Ályktun Framsýnar á Húsavík sýnir stöðuna á vinnumarkaði í hnotskurn

Nú, þegar upp er staðið frá sveitarstjórnarkosningum, beinist athyglin að landsstjórninni á ný.

Þau umskipti, sem urðu í fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í kosningunum, eru mikilvæg fyrir flokkinn, þótt fylgið í höfuðborginni sé auðvitað langt frá því, sem það var fyrr á tíð. Í flestum stærstu sveitarfélögum landsins fór það hins vegar minnkandi.

En það er umhugsunarefni fyrir flokkinn hve mikil áherzla er lögð á að halda honum utan meirihluta í borgarstjórn. Að einhverju leyti er það ímyndarvandi frá því á árum áður en þýðingarmikið að Sjálfstæðisflokkurinn horfist í augu við hann.

Kannski á hinn nýi borgarstjórnarflokkur eftir að láta til sín taka í þeim efnum en augljóst er að þar er komið til sögunnar nýtt afl í innanflokksmálum sjálfstæðismanna.

Vinstri-grænir ganga mjög laskaðir frá þessum kosningum. Fylgistap þeirra er verulegt og þeir munu hafa veika stöðu í hugsanlegum nýjum vinstri meirihluta í borgarstjórninni. Þessar ófarir munu leiða til margvíslegra sviptinga innan dyra hjá VG á næstu mánuðum, sem munu snúast um ríkisstjórnarsamstarfið.

Miðflokkurinn hefur fest sig í sessi og ekki hægt að útiloka að þar sé að verða til flokkur af þeirri gerð, sem í nálægum löndum hefur ýmist höggvið skarð í þá hægriflokka, sem fyrir eru, eða jafnvel ýtt þeim til hliðar, eins og m.a. hefur gerzt í Danmörku. En jafnframt er athyglisvert að flokkar, sem hafa orðið til enn lengra til hægri, hafa engum árangri náð.

Viðreisn hefur sömuleiðis fest sig í sessi með því að fá fulltrúa kjörna í borgarstjórn en það er einhver falskur tónn í þeirri ákvörðun flokksins að ganga til samstarfs við flokka á vinstri kanti, sem misstu meirihluta sinn í kosningunum, þegar horft er til málflutnings frambjóðenda Viðreisnar í kosningabaráttunni. Ágreiningur um aðild að ESB kemur ekki við sögu í borgarstjórn.

Flokkur fólksins hefur líka náð betri fótfestu í pólitíkinni en það er ljóst þegar hér er komið sögu í lífi hans, að flokkurinn þarf að skerpa á og skilgreina betur hlutverk sitt og erindi eins og það horfir við forystu flokksins.

En alveg eins og Inga Sæland sló í gegn í sjónvarpskappræðum fyrir síðustu þingkosningar var það Sanna Magdalena Mörtudóttir, sem sló í gegn í síðustu sjónvarpskappræðum að þessu sinni og kom Sósíalistaflokknum á blað. Hún hefur síðan hnykkt á þeirri frammistöðu með einstæðri grein um húsþræla, sem áhugamenn um stjórnmál ættu ekki að láta fram hjá sér fara.

En hvað nú?

Augljóst er að sú gerjun sem er á ferðinni í verkalýðshreyfingunni og eins konar uppreisnarástand þar svo og staðan á vinnumarkaðnum verða mál málanna á næstu mánuðum með „hvarf síldarinnar“, þ.e. neikvæða þróun í ferðaþjónustu, í bakgrunni.

Í fyrradag er frá því skýrt á mbl.is, netútgáfu Morgunblaðsins, að ríkisstjórnin muni leggja til við Alþingi að kjararáð verði lagt niður og annað fyrirkomulag að norrænum sið tekið upp við ákvarðanir launakjara þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna.

Vonandi er þessi frétt ekki vísbending um að ríkisstjórnin telji að þar með gleymist ákvarðanir kjararáðs síðustu misserin. Haldi hún það er hún heillum horfin.

Staðan á vinnumarkaðnum er einfaldlega sú, að aðrir launþegar kyngja ekki þeirri röksemd, að launahækkanir sem kjararáð hefur ákvarðað fámennum hópum í samfélaginu svo og launahækkanir æðstu stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins, sem nú eru að verulegu leyti í eigu lífeyrissjóða, skipti engu máli fyrir efnahagslífið en að fái aðrir launþegar sambærilegar hækkanir verði efnahagslífið sett á hvolf.

Þessi staða er sett fram með mjög skilmerkilegum hætti í ályktun aðalfundar verkalýðsfélagins Framsýnar á Húsavík, sem birt var fyrir nokkrum dögum í heild á mbl.is. Sú ályktun sýnir vígstöðuna á vinnumarkaðnum í hnotskurn. Þegar hún er lesin verður ljóst að bæði ríkisstjórn og Samtök atvinnulífsins eru í vonlausri stöðu reyni þessir aðilar að notast við þær röksemdir, sem þeir hafa haldið fram síðustu mánuði.

Þær neikvæðu fréttir, sem berast af þróun ferðamannastraums til landsins, eiga eftir að flækja þessa stöðu á vinnumarkaðnum mjög. Ferðaþjónustufyrirtækin munu ekki standa undir miklum kauphækkunum og gífurleg fjárfesting í hótelbyggingum víða um land getur verið í mikilli hættu með öllu sem því fylgir.

En fleira er fram undan.

Það fer lítið fyrir umræðum um orkupakkann, sem Alþingi er ætlað að samþykkja vegna aðildar okkar að EES. Það er þeim mun undarlegra þar sem ekki fer á milli mála að hann opnar fyrir þann möguleika að yfirráð yfir einni af þremur helztu auðlindum okkar, þ.e. orku fallvatnanna, geti færzt til Brussel í ekki fjarlægri framtíð.

Nú mætti ætla að þingmönnum á Alþingi Íslendinga detti ekki í hug að samþykkja þann „pakka“. En afsal yfirráða yfir auðlindum hefur ekki þvælst fyrir þeim, sem vilja aðild Íslands að Evrópusambandinu, og grein eftir nýkjörinn varaformann Sjálfstæðisflokksins hér í Morgunblaðinu fyrir skömmu um þessi mál veldur áhyggjum.

Það er verðugra verkefni fyrir núverandi ríkisstjórn að draga til baka með formlegum hætti aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu, sem enn liggur í skúffu í Brussel, þrátt fyrir tilraunir til að telja fólki trú um annað – en að leika sér að þeim eldi, sem orkupakkinn er.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is