Donald Trump
Donald Trump — AFP
Teitur Gissurarson teitur@mbl.is Verndartollar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á stál og ál frá Evrópusambandinu (ESB) eru komnir í gildi en álagning þeirra hefur legið í loftinu í nokkra mánuði.

Teitur Gissurarson

teitur@mbl.is

Verndartollar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á stál og ál frá Evrópusambandinu (ESB) eru komnir í gildi en álagning þeirra hefur legið í loftinu í nokkra mánuði. Tollarnir eru hluti af kosningaloforði sem Trump gaf bandarískum stáliðnaðarmönnum og ætlað er að vernda innlendan iðnað. Þrátt fyrir það eru tollarnir bæði umdeildir þar vestanhafs sem og innan ESB, en Bretar, Þjóðverjar og Frakkar hafa lýst yfir mikilli óánægju og áhyggjum vegna þeirra.

Gareth Stace, forstjóri stálfyrirtækisins UK Steel, sagði þetta vera verstu mögulegu stöðuna fyrir breskan stáliðnað og bendir á að andvirði 360 milljóna punda af stáli sé flutt frá Bretlandi til Bandaríkjanna á hverju ári. „Skaðinn verður ekki einungis í Bretlandi heldur mun þetta líka valda tjóni í Bandaríkjunum,“ sagði Gareth.

Viðbrögð Evrópusambandsins

Á vef Reuters kemur fram að Evrópusambandið standi nú frammi fyrir tveimur spurningum: Af hversu mikilli hörku eigi að svara þessum aðgerðum og hvort ESB eigi að taka þátt í samningaumleitunum við bandarísk stjórnvöld. Þá er því lýst hvernig Þjóðverjar séu hræddari en aðrir við viðskiptastríð á milli ESB og Bandaríkjanna, en Þýskaland er langstærsti útflutningsaðili ESB til Bandaríkjanna. Aftur á móti eru Frakkar staðráðnir í að láta ekki undan „yfirgangi Bandaríkjamanna“.

Óánægja einnig innanlands

Tollarnir hafa einnig valdið áföllum innan Bandaríkjanna og benda margir framleiðendur þar ytra á að álagning tollanna muni hafa gríðarlega slæm áhrif á þá sem hafa keypt evrópskt stál fyrir framleiðslu sína.

Þá hafa margir félagar Donalds Trumps úr Repúblikanaflokknum lýst yfir óánægju með aðgerðir forsetans.