Agnes Bragadóttir agnes@mbl.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

„Þetta eru frábærar fréttir fyrir Hafnarfjörð, að Coripharma skuli hafa keypt lyfjaverksmiðju Actavis og ætli að hefja lyfjaframleiðslu í verksmiðjunni,“ sagði Rósa Guðbjartsdóttir, nýr bæjarstjóri Hafnarfjarðar og oddviti Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Við Hafnfirðingar hljótum öll að gleðjast yfir þessum tíðindum. Þessi áform Coripharma skipta okkur vitanlega miklu máli og það er afskaplega ánægjulegt að þessi vinnustaður, lyfjaverksmiðjan, skuli á næstunni öðlast nýtt líf í höndum nýrra stjórnenda og eigenda,“ sagði Rósa.

Rósa segir að Hafnarfjarðarbær muni að sjálfsögðu taka vel á móti Coripharma. „Við fögnum því alltaf þegar ný fyrirtæki koma í bæinn og tökum vel á móti öllum,“ sagði Rósa, sem kveðst ekki síst glöð yfir því að svo fjölmennur vinnustaður taki til starfa í bæjarfélaginu.

Starfsmenn verði 300 talsins

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær komust Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn og óháðir í Hafnarfirði að samkomulagi um myndun nýs meirihluta í bænum í fyrradag. Rósa tekur við starfi bæjarstjóra en á síðasta kjörtímabili var hún formaður bæjarráðs og Haraldur L. Haraldsson gegndi starfi bæjarstjóra.

Fram kom í Morgunblaðinu í gær, þegar rætt var við Bjarna K. Þorvarðarson, forstjóra Coripharma, að þegar lyfjaverksmiðjan verður komin í fullan rekstur stefni fyrirtækið að því að starfsmenn hennar og í stoðstörfum verði um 300 talsins, eða svipaður fjöldi og starfaði hjá Actavis þegar lyfjaverksmiðjan var í fullum rekstri. Bjarni sagði að fyrirtækið stefndi að því að þetta yrði innan tveggja ára.