Ný bryggja Akurey lagðist fyrst að bakkanum.
Ný bryggja Akurey lagðist fyrst að bakkanum. — Ljósmynd/Faxaflóahafnir
Nýr hafnarbakki við Norðurgarð í Gömlu höfninni var tekinn í notkun á þriðjudaginn þegar togarinn Akurey AK 10 lagðist að bryggju. Hinn nýi bakki er fyrir framan frystihús HB Granda og með tilkomu hans batnar öll aðstaða til löndunar á fiski verulega.

Nýr hafnarbakki við Norðurgarð í Gömlu höfninni var tekinn í notkun á þriðjudaginn þegar togarinn Akurey AK 10 lagðist að bryggju. Hinn nýi bakki er fyrir framan frystihús HB Granda og með tilkomu hans batnar öll aðstaða til löndunar á fiski verulega.

Bakkinn er 120 metra langur stálbakki með steyptri þekju og dýpið við hann er 7,2 metrar. Í steyptu þekjunni er snjóbræðslulögn sem nýtir affallsvatn frá fiskvinnslu HB Granda. Fyrir utan hefðbundnar lagnir eins og fyrir rafmagn og kalt vatn er einnig lögn fyrir heitt vatn til að kynda skipin í landlegum. Eftir er að endurnýja lýsingu á hafnarbakkanum og er gert ráð fyrir að því verki ljúki fyrir haustið.

Heildarkostnaður vegna bakka og bakkasvæðis var nálægt 560 milljónum króna. Aðalverktaki var Ístak hf. Danska verktakafyrirtækið Per Aarslef a/s var undirverktaki við niðurrekstur stálþils.

Nýi hafnarbakkinn kemur í stað trébryggju, sem var orðin lúin. Hún var byggð árið 1966 en hafði verið endurnýjuð að einhverju leyti. Trébryggjan var rifin í fyrra. sisi@mbl.is