Víða um heim, meðal annars í helstu samkeppnislöndum Íslands, er sjávarútvegur niðurgreiddur.

Víða um heim, meðal annars í helstu samkeppnislöndum Íslands, er sjávarútvegur niðurgreiddur. Hér á landi er þessu öfugt farið, sjávarútvegur greiðir ekki aðeins sömu skatta og aðrar greinar, heldur bætist við sérstakur skattur sem kallaður er veiðigjald.

Íslenskur sjávarútvegur keppir við þann erlenda á alþjóðamörkuðum og þess vegna skiptir máli að búa honum viðunandi rekstrarskilyrði sem gera honum kleift að keppa. Ekki væri ástæða til að fara út í niðurgreiðslur hér á landi til að jafna stöðuna, en að auka á muninn með sértækum sköttum veikir íslensku fyrirtækin í samkeppninni.

En það er ekki aðeins veiðigjaldið sem skapar íslenskri útgerð verri stöðu í alþjóðlegri samkeppni, hið sama á við um kolefnisgjaldið. Um síðustu áramót var kolefnisgjaldið hækkað um 50%, sem leiddi til 4% hækkunar á eldsneytiskostnaði greinarinnar. Þegar horft er til þess að eldsneyti er, á eftir launum, annar helsti kostnaðarliður útgerðarinnar má sjá að þetta er verulega íþyngjandi.

Þegar tillit er tekið til þess að auki, að fiskiskip í flestum ESB-ríkjum njóta undanþágu frá eldsneytissköttum og að í Noregi fá útgerðir kolefnisgjaldið endurgreitt, þá sést hve skökk samkeppnin er fyrir íslenskar útgerðir.

Hvernig væri að þeir sem sífellt krefjast hærri sértækra skatta á íslenskan sjávarútveg færu að átta sig á að hann starfar á alþjóðlegum samkeppnismarkaði?