Hjónabönd, nekt í sturtuklefum, börn úti í vögnum og vinnusemi Íslendinga er meðal efnis greinarinnar í Insider.
Hjónabönd, nekt í sturtuklefum, börn úti í vögnum og vinnusemi Íslendinga er meðal efnis greinarinnar í Insider.
Íslensk og bandarísk menning er borin saman í grein sem birtist í ferðahluta bandaríska tímaritsins Insider í vikunni. Íslendingar eru meðal annars sagðir hrúga á sig störfum til að koma í veg fyrir depurð yfir vetrarmánuðina.

„Svo að, já, þú átt að trítla um í búningsherbergi fullu af nöktu fólki til að fara í sturtu áður en þú ferð í laugarnar. Og já, þú átt að láta eins og það sé nákvæmlega ekkert mál.“ Svo kemst greinarhöfundur bandaríska tímaritsins Insider að orði í grein sem fjallar um muninn á bandarískri og íslenskri menningu. Þar ber ýmislegt á góma, meðal annars nekt Íslendinga í sturtuklefum landsins, en alls fer greinarhöfundur yfir 12 atriði sem greina menningu og siði þjóðanna að. Þannig er þess getið að Íslendingar sinni margir tveimur til þremur störfum, og það sé til að þola vetrarmyrkrið. Ef við hefðum ekki nóg að gera yrðum við þunglynd.

„Það er ekki áfall að nekt sé ekkert tiltökumál á Íslandi, enda landið hluti af Evrópu, sem er afslappaðri en Ameríka þegar nekt er annars vegar. En á Íslandi er nektin mjög auðsæ,“ segir í greininni, þar sem farið er yfir að engin skilrúm séu í sturtuklefunum sem fólk notar áður en það fer ofan í sundlaugar og Bláa lónið.