Brúðkaupsmynd Sigurborg og Hanna María árið 1997.
Brúðkaupsmynd Sigurborg og Hanna María árið 1997.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurborg Daðadóttir fæddist á Ísafirði 2.6. 1958 en ólst upp í Kópavogi og átti síðan heima í Mosfellsbæ. Hún var í Digranesskóla og Þinghólsskóla en í sveit á sumrin, á Stóra-Ármóti í Hraungerðishreppi, frá sjö ára aldri í alls tíu sumur.

Sigurborg Daðadóttir fæddist á Ísafirði 2.6. 1958 en ólst upp í Kópavogi og átti síðan heima í Mosfellsbæ. Hún var í Digranesskóla og Þinghólsskóla en í sveit á sumrin, á Stóra-Ármóti í Hraungerðishreppi, frá sjö ára aldri í alls tíu sumur.

Sigurborg gekk í Verslunarskóla Íslands og lauk þaðan stúdentsprófi 1979. Hún vann við þjálfun sjúklinga á hestum á Reykjalundi í tvö sumur, stundaði síðan nam við Dýralæknaháskólann í Hannover í Þýskalandi og lauk embættisprófi í dýralækningum 1985.

Sigurborg var búsett á Akureyri á árunum 1985-92. Hún var framkvæmdastjóri Einangrunarstöðvar ríkisins í Hrísey, flutti þá til Reykjavíkur, vann hjá Hollustuvernd ríkisins, var heilbrigðisfulltrúi í Kópavogi og síðar einnig í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi. Auk þess var hún framkvæmdastjóri Nautastöðvar Búnaðarfélags Íslands á Hvanneyri í tvö ár. Hún var gæðastjóri kjúklingafyrirtækisins Móa, síðar Matfugls, 2000-2007, starfaði síðan hjá Matvælastofnun, fyrst sem sérgreinadýralæknir alifuglasjúkdóma og síðar gæðastjóri og hefur verið yfirdýralæknir frá árinu 2013.

Sigurborg æfði og keppti í handbolta í nær tvo áratugi frá 12 ára aldri, lengst af með Breiðabliki og síðar Þór á Akureyri. Í Þýskalandi lék hún með félagsliðum í Hannover og átti nokkra landsleiki með unglingalandsliðinu og A-liðinu áður en hún fór til náms.

„Ég hef stundað hestamennsku frá barnæsku og tekið virkan þátt í félagsstarfi hestamannafélaga, var m.a. formaður Léttis á Akureyri, auk stjórnarsetu í Dýralæknafélagi Íslands.

Ég hef alla tíð laðast að dýrum og hef haldið hesta, hunda og ketti í mörg ár. Góð umgengni við dýr er öllum holl og börnum mjög mikilvæg. Dýrin eru oft okkar traustustu vinir og væntumþykja þeirra er skilyrðislaus.“

Fjölskylda

Maki Sigurborgar er Hanna María Karlsdóttir, f. 19.11. 1948, leikkona. Foreldrar hennar voru hjónin Dagrún Friðfinnsdóttir, f. 21.3. 1912, d. 19.3. 1998, saumakona frá Kjaranstöðum í Dýrafirði, og Karl Guðjónsson, f. 14.10. 1895, d. 5.9. 1986, rafvirkjameistari frá Vogum á Vatnsleysuströnd. Þau bjuggu í Keflavík.

Fyrri maki Sigurborgar er Valgerður Þorbjörg Elín Guðjónsdóttir, f. 18.4. 1958, framhaldsskólakennari.

Systkini Sigurborgar eru Kristján Ingi Daðason, f. 6.11. 1945, málarameistari í Noregi; Sturlaugur Gunnar Daðason, f. 10.11. 1946, efnaverkfræðingur í Garðabæ; Arnar Daðason, f. 7.2. 1948, húsasmíðameistari á Selfossi; Daðey Steinunn Daðadóttir, f. 3.7. 1950, húsfreyja í Reykjavík; Valgeir Daðason, f. 30.8. 1951, d. 28.2. 2012, bifvélavirki í Reykjavík; Rúnar Daðason, f. 7.11. 1953, húsasmiður í Kópavogi; Guðlaug Daðadóttir, f. 28.2. 1957, hótelrekstrarstjóri í Mosfellsbæ, og Þórunn Daðadóttir, f. 6.9. 1959, verkstjóri í Reykjavík. Hálfbróðir Sigurborgar, samfeðra, er Sumarliði Einar Daðason, f. 7.4. 1973, búsettur á Akureyri

Foreldrar Sigurborgar voru Gerður Sturlaugsdóttir, f. 13.1. 1928, d. 12.7. 2014, umboðsmaður Morgunblaðsins í Kópavogi 1959-1974, síðar bílstjóri á Reykjalundi og í HÍ, og Daði Steinn Kristjánsson, f. 23.6. 1920, d. 25.1. 1982, lengst af stýrimaður hjá Hafskipum.