Antoine Griezmann í ósvikinni landsliðstreyju.
Antoine Griezmann í ósvikinni landsliðstreyju. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skonsarinn starði á mig, opinmynntur. „Bíddu aðeins,“ sagði hann svo, hvergi af baki dottinn, og stakk sér á bólakaf í treyjuhafið.

Það væri ofmælt að segja að ég væri vandlátur á föt. Leynist svokallaðar „merkjavörur“ í skápnum hjá mér hafa aðrir fært mér þær að gjöf. Ein undantekning er þó á þessu; ég kæri mig ekki um eftirlíkingar af treyjum knattspyrnuliða. Tuttugu ár eru síðan ég festi síðast kaup á eftirlíkingu; hollensku landsliðstreyjunni merktri einum af mínum uppáhaldsleikmönnum fyrr og síðar, Dennis Bergkamp, á götumarkaði í París.

Satt best að segja bjóst ég ekki við að eignast fleiri sviknar treyjur um dagana en það breyttist óvænt þegar ég var á ferðalagi á Krít á dögunum. Þar sem ég gekk í hægðum mínum um götur bæjarins Rethymno kom ég að skonsu sem bjó yfir gríðarlegu magni af treyjum knattspyrnuliða sem augljóslega voru óekta. Af ástæðum, sem mér eru ókunnar, rak ég nefið inn í þessa skonsu. Hvort það er vegna þess að ég er óvenju nefstór eða fyrir aðrar sakir þá var verslunarmaðurinn, skonsarinn, andartaki síðar búinn að breiða úr að minnsta kosti þrjátíu treyjum fyrir framan mig. „What do you like?“ Slíkri snerpu hef ég varla orðið vitni að.

Af einhverjum ástæðum veðjaði kappinn á að ég hefði mætur á Antoine Griezmann. Flaggaði treyju Atlético Madrid í ofboði framan í mig; liðsins sem kramdi hjörtu okkar Arsenalmanna fyrir skemmstu. „Er hann ekki á förum þaðan í sumar?“ spurði ég af minni íslensku ókurteisi. Skonsarinn starði á mig, opinmynntur. „Bíddu aðeins,“ sagði hann svo, hvergi af baki dottinn, og stakk sér á bólakaf í treyjuhafið. Kom upp með bláa treyju franska landsliðsins og nafn Griezmanns á bakinu. „Hann er ekki að fara úr þessu liði!“

Sölumaður dauðans, hafi hann einhvern tíma verið til!

Áður en ég hafði náð að depla auga var skonsarinn kominn með nýja treyju. „Hvað um þessa?“ Liverpool, nei takk! „Hvað þá, Arsenal?“ Engan bilbug var á okkar manni að finna. Já, nú erum við að tala saman.

Við það hentist kappinn í loftköstum út úr skonsunni og sneri jafnharðan aftur með treyju barónanna frá Lundúnum. Sigri hrósandi. En hvað var a'tarna? Alexis. Það gengur ekki. Hann gerðist liðhlaupi fyrr á þessu ári. Burt með helvítið! Nú kom í fyrsta skipti hik á kappann sem náði þó vopnum sínum fljótt á ný. Rauk aftur út og sótti aðra Arsenal-treyju; með nafninu Fàbregas á bakinu. Hetjuleg viðleitni í ljósi þess að téður leikmaður yfirgaf Arsenal sumarið 2011.

Áttu nokkuð Ísland? spurði ég til að drepa málinu á dreif. „Nei, en ég á Noreg. Viltu hana?“ Nei, ómögulega takk!

Skonsarinn fann að salan var að renna út í sandinn, þannig að hann lék út trompinu. „Hvað segir þú um þennan? Lionel Messi. Frábær leikmaður! Einn sá albesti í sögunni!“

Nú var mér öllum lokið en fann að ég gat ómögulega yfirgefið þessa skonsu án þess að skipta við manninn. Sópaði því stoltinu út af borðinu og gekk út með tvær helsviknar knattspyrnutreyjur: Frönsku landsliðstreyjuna merkta Griezmann og treyju Barcelona með nafninu Messi á bakinu.

Algjör grís, mann! Í messi.