[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sólmundur Hólm dagskrárgerðarmaður tísti um fyrri störf: „Ég efast ekkert um að ég sé á réttri hillu en ég hugsa samt oft um hvað ég var góður á kassanum í Heiðrúnu 2004. Glaðlegur (samt ekki óþolandi hress) og skannaði búsið hratt.
Sólmundur Hólm dagskrárgerðarmaður tísti um fyrri störf: „Ég efast ekkert um að ég sé á réttri hillu en ég hugsa samt oft um hvað ég var góður á kassanum í Heiðrúnu 2004. Glaðlegur (samt ekki óþolandi hress) og skannaði búsið hratt. Fólk gekk brosandi út úr búðinni og inn í neysluna.“ Sóla, eins og hann er allaf kallaður, var þá bent á að hann væri enn við sama heygarðshornið, enn að skilja fólk eftir brosandi og Sóli bætti þá við: „Reyndar mjög góður punktur. Nema í dag heimtar fólk að ég sé fyndinn. Það var bara bónus í Heiðrúnu.“

Una Sighvatsdóttir fjölmiðlakona tísti um ferðalag sitt í Suður-Ameríku: „Var stoppuð í hliðinu á La Paz-flugvelli í morgun með bæverskan vasahníf í handfarangri. Mín mistök. Svo ég fór á klósettið, vafði hnífinn í pappír og skorðaði hann fastan í glufu undir vaskborðinu. Spennt að sjá hvort hann verður þar enn eftir viku þegar ég sný aftur til La Paz.“

Eiríkur Rögnvaldsson íslenskuprófessor skrifaði á Facebook um strætóferð sína. Eiríkur „fór í strætó í morgun sem ég geri annars sjaldan af því að ég á heima þriggja mínútna gang frá vinnustað. Þá tók ég eftir límmiðunum sem sjást á meðfylgjandi mynd. Þetta er leiðbeiningartexti fyrir fólk í hjólastól – á ensku. Mér finnst þetta óviðunandi og óþolandi – af mörgum ástæðum.

Í fyrsta lagi er þetta óvirðing við farþega og getur jafnvel skapað hættu. Búast má við að í hjólastól sé m.a. eldra fólk sem skilur ensku ekki endilega vel. Þegar um er að ræða öryggisleiðbeiningar eins og í þessu tilviki er auðvitað meginatriði að þær séu skýrar og skiljanlegar.

Í öðru lagi er þetta skýrt brot á íslenskri málstefnu og málstefnu Reykjavíkurborgar þar sem kveðið er á um að allar upplýsingar opinberra aðila (sem Strætó bs hlýtur að teljast) séu á íslensku. Hins vegar er sjálfsagt að textinn sé líka á ensku til að koma til móts við fólk sem ekki skilur íslensku enda er það í samræmi við málstefnu borgarinnar.

Í þriðja lagi er þetta dæmi um það hvað við erum orðin ónæm fyrir enskunni allt í kringum okkur. Þótt ég fari ekki oft með strætó hef ég örugglega séð þessa límmiða oft áður. En enskan er orðin svo alltumlykjandi að við tökum ekki lengur eftir því hvort við erum að lesa texta á íslensku eða ensku. Það er hættulegt – ef við viljum halda í íslenskuna.“

Kristín Dýrfjörð , dósent við Háskólann á Akureyri, deildi bréfi frá skólanum þar sem segir frá að allt stefni í metaðsókn í nám við HA haustið 2018. Um 50% aukning er á heildarfjölda umsókna og nærri tvöföldun í umsóknum um kennaranám. „Gleðilegt að fá bréf frá HA með upplýsingum um mikla fjölgun umsókna um kennaranám.“

Pétur Jónsson tónlistarmaður tísti um lokun veitingastaðarins Borðsins. „Hverju sem um er að kenna þá eru þetta sorgleg endalok. Þetta var góður staður og ég verslaði eins mikið og ég hafði efni á þarna því að það er eina leiðin til að halda í góðar verslanir og þjónustu í hverfunum okkar.“