„Ég er búin að fylgja honum eftir síðan hann byrjaði í fótbolta og finnst oft rosalega erfitt að geta ekki mætt á leikina hans því það hef ég gert alla tíð. Fyrst eftir að Albert flutti út löbbuðum við foreldrar hans oft niður á KR-völl, stóðum og horfðum á vini hans spila í sárabætur og tókum andköf af tilfinningasemi.“
„Ég er búin að fylgja honum eftir síðan hann byrjaði í fótbolta og finnst oft rosalega erfitt að geta ekki mætt á leikina hans því það hef ég gert alla tíð. Fyrst eftir að Albert flutti út löbbuðum við foreldrar hans oft niður á KR-völl, stóðum og horfðum á vini hans spila í sárabætur og tókum andköf af tilfinningasemi.“ — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótboltauppeldi landsliðsmannsins Alberts Guðmundssonar hefur verið í öruggum höndum, meðal annars móður hans, fyrrverandi landsliðskonunnar Kristbjargar Ingadóttur. Júlía Margrét Alexandersdóttir julia@mbl.is

Albert Guðmundsson var enn hvítvoðungur þegar fjölmiðlar tóku að skrifa um hvað drengurinn ætti að heita, hvort það væri ekki augljóst að hann yrði nefndur eftir langafa sínum og fyrsta atvinnumanni Íslendinga í knattspyrnu, Alberti Guðmundssyni, síðar ráðherra og sendiherra.

Pressan var þó lítil frá fjölskyldunni þótt drengurinn endaði á að fá nafn langafa. Tvítugur er Albert að feta kannski ekki ósvipuð spor og langafi hans, hann er í atvinnumennsku í Hollandi með PSV Eindhoven og fékk einstakt tækifæri til að æfa erlendis aðeins 16 ára gamall. Með landsliðinu fer hann svo á heimsmeistaramótið í Rússlandi í júní.

Daníel Ólafsson heiti ég

Hæfileikarnir koma ekki á óvart ef Kári Stefáns er hafður með í för. Albert er samsuða af genum afreksfólks í knattspyrnu sem allt hefur leikið með landsliðunum. Faðir hans er knattspyrnumaðurinn og íþróttalýsandi Íslands, Guðmundur Benediktsson. Móðir Alberts, Kristbjörg Ingadóttir, lék með landsliðinu í knattspyrnu. Faðir Kristbjargar, Ingi Björn Albertsson, var lengi markahæsti leikmaðurinn í íslenskri knattspyrnu og svo er það langafinn Albert, sem lék meðal annars með AC Milan og Arsenal. Albert var farinn að elta bolta um leið og hann gat skriðið.

Að ná árangri í íþrótt gerist þó sjaldnast bara með góðum genum, það þarf líka gott atlæti eins og foreldrar Alberts hafa veitt honum. Móðir Alberts, sem alltaf er kölluð Krissa, býður blaðamanni í snúða og kaffi einn úrvalsrigningardag maímánaðar og kærasta Alberts, Guðlaug Elísa, sest niður með okkur, en Guðlaug býr úti með Alberti og er bæði í vinnu og fjarnámi við Háskóla Íslands í efnaverkfræði. Albert er nýlentur og farinn að æfa með landsliðshópnum. Við ætlum að kynnast Alberti betur, að sjálfsögðu í gegnum hann sjálfan en það skaðar aldrei að komast ofan í kjarnann með hjálp mæðra. Krissa hefur sjálf bæði spilað fótbolta og þjálfað í gegnum tíðina en í dag starfar hún sem umsjónarkennari í Brúarskóla.

Hvernig barn var Albert?

Krissa: „Albert var allt of fljótur að skríða, allt of fljótur að standa upp og allt of fljótur að fara að ganga. Sex mánaða gamall var hann staðinn upp og gekk átta mánaða. Þegar hann var tveggja ára sparkaði hann svo fast og ákveðið í boltann að hann braut ljósakrónu í stofunni. Eins og er með fyrsta barn áttaði maður sig ekkert á vandræðunum og klappaði saman höndunum yfir því hvað hann var duglegur. Svo fattaði maður að það að elta svona orm, með óþroskaða rýmisgreind, yrði vinna. En hann var með afar gott geðslag og það var auðvelt að eiga við hann þótt hann væri fjörkálfur.

Albert lék sér eiginlega ekki með leikföng, hann vildi bara elta bolta, og svo kynnti hann sig fyrir öllum sem Daníel Ólafsson.“

Daníel Ólafsson? Ha?

„Hann hélt upp á bíómyndina Löggulíf og vildi bara vera Daníel.“

Elti Albert til Hollands

Fyrstu minningarnar um fótbolta, Albert?

Albert: „Fyrstu minningarnar snúast um að fara með pabba, þriggja til fjögurra ára, á æfingar á KR-vellinum, horfa á og tína saman bolta. Ég var um tíma lukkudýr KR, litla ljónið, og hljóp þá út um allt í búningnum. Hef verið heillaður af fótbolta frá því ég man eftir mér.“

Krissa: „Það kom einhvern veginn aldrei neitt annað til greina í huga Alberts. Við Gummi vorum bæði á fullu í fótbolta þegar hann fæddist, ég hafði alltaf verið í Val en skipti yfir í KR þar sem það hentaði okkur betur, ég gat þá tekið hann með á æfingar og barnapían kom þangað. Við sáum strax á fyrstu æfingum Alberts að hann hafði alveg sérstakan fókus. Það voru ekki allir tilbúnir að vera á fótboltaæfingunni og fannst spennandi að ganga á eftir bláu og grænu línunum í íþróttasalnum. Albert var hins vegar mættur til að spila fótbolta og ekkert annað og neitaði að fara í vesti yfir búninginn því á honum stóð Zidane og hann var Zidane.“

Albert: „Ég fór í gegnum nokkur svona tímabil og á því tímabili sem ég dýrkaði Beckham keypti ég mér alla búningana sem hann átti og fékk mér eins hárlit.“

Krissa: „Albert fór í körfubolta níu ára með fótboltanum og var frábær í körfu líka og hefði alveg getað tekið það skref. En þeir sem þjálfuðu hann í körfunni sögðu alltaf: Við vitum alveg að hann verður fótboltamaður. – Það var einhvern veginn bara vitað.“

Nú hefur mamma þín lýst þér, Albert, en hvernig er mamma þín?

Albert: „Mamma er ofurmamma. Ég á þrjár yngri systur sem allar spila fótbolta og hún er mætt á öll fótboltamót, þótt þau séu öll á sama tíma. Þá er hún bara einhvern veginn á þremur stöðum í einu. Hún hefur eiginlega bara alltaf gert allt fyrir okkur, og oft ein þar sem pabbi er að vinna lengi, fram á kvöld í tengslum við íþróttalýsingar og slíkt.

Það sem er mikilvægt er að hún er ekki bara til staðar þegar vel gengur heldur líka þegar við eigum slæma daga, þá er hún þarna líka til að klappa okkur á bakið og styrkja.

Ég held að ég átti mig alveg á því að það eru ekki allir svo heppnir að bæði eiga mömmu og það góða mömmu. Kannski kom það best í ljós þegar hún flutti út til mín til Hollands, sem mér þótti reyndar svolítið augljóst skref. Úti hélt hún þessu áfram, sótti mig og keyrði á allar æfingar.“

Krissa : „Ég flutti út í eitt ár, 2015. Albert hafði þá verið úti í tvö ár, að spila með Heerenveen frá 16 ára aldri en hafði þá verið svo heppinn að búa hjá hollenskri fjölskyldu sem hélt vel utan um hann. Þegar hann var keyptur til PSV stóð til að hann myndi búa einn og okkur foreldrunum fannst Albert ekki alveg tilbúinn í það. Ég fór því út með systur hans þrjár og Gummi var heima, en flaug til okkar þegar færi gafst. Það var mjög gaman að fara út og ná að skilja umhverfi Alberts betur þótt það reyndi svolítið á systur hans, sem söknuðu pabba síns. Ég flutti heim þegar kærasta Alberts flutti út en viðurkenni að sakna þess svolítið að vera í kringum hann. Ég er búin að fylgja honum eftir síðan hann byrjaði í fótbolta og finnst oft rosalega erfitt að geta ekki mætt á leikina hans því það hef ég gert alla tíð. Fyrst eftir að Albert flutti út löbbuðum við foreldrar hans oft niður á KR-völl, stóðum og horfðum á vini hans spila í sárabætur og tókum andköf af tilfinningasemi.“

Var ekkert skrýtið þegar mamma fór heim?

Albert: „Svolítið jú, en þá kom kærastan mín og það var líka ágætt að fá smá persónulegt speis. Fyrst þegar ég flutti út var auðvitað erfitt að vera frá fjölskyldu og vinum en það vandist hægt og rólega og það hjálpaði að auðvelt var að vera í sambandi í gegnum Skype sem ég nýtti mér mikið til að tala við mömmu og pabba og systur mínar. Mömmu fannst voða gott að hringja í mig þegar hún var að elda kvöldmat, sérstaklega þegar ég var einn.“

Krissa : „Þá var ég að leiðbeina honum í eldamennskunni stundum: „Settu aðeins meiri mjólk þarna og hrærðu nú vel,“ og þannig fórum við í gegnum matargerðina saman.“

Tókstu einhvern tímann þá ákvörðun, Krissa, að verða svona mamma?

Krissa: „Ég er alin upp í stórum systkinahópi og er elst svo ég þekki hlutverkið vel. En mér finnst þetta hafa mikið uppeldislegt gildi; að fylgja börnunum sínum eftir, bæði þegar vel gengur og illa. Þau misstíga sig eins og við öll og þá er mikilvægt að vera til staðar. Það er ekkert mál að standa á hliðarlínunni þegar vel gengur en það er mikill skóli fyrir börnin og foreldra að fara í gegnum mistökin. Þau þurfa að læra að vinna, að tapa, vera sanngjörn og heiðarleg.

Við foreldrarnir höfum alveg þurft að draga þau afsíðis og benda þeim á eitthvað eftir leiki, hvort sem það er tapleikur eða sigurleikur. Við hrósum þeim fyrir það sem þau gera vel en bendum þeim líka á það sem miður fór, hvort þau hefðu getað gert öðruvísi einhvers staðar eða sleppt því að tuða þarna, svo dæmi sé tekið. Því finnst mér mikilvægt að vera í augnablikinu með þeim því það er ekki alltaf hægt að spóla til baka eða segja: Var það rétt sem ég heyrði að þú hefðir gert þetta og hitt? Ef við erum þarna og sjáum sjálf hvað er að gerast getum við gripið þetta strax. Þetta hafa verið lítil atvik eins og að á einu móti skoraði Albert og pabbi hans talaði við hann eftir á og sagði honum að þetta hefði verið frábært mark en hann hefði gleymt að fara og þakka stráknum sem lagði markið upp, enda snýst þetta alltaf um heildina.“

Albert: „En af því að ég er búinn að tala um mömmu og svo ég komi að pabba þá hefur hans aðferð verið að tala við mig á rólegum nótum um hvað ég geti bætt í mínum leik. Mamma hefur meira verið í því að ég eigi að setja klærnar út og bíta frá mér. Hún er alveg glerhörð í því. En þetta er mjög gott mix, hvað mamma og pabbi eru ólík í sinni nálgun. Svo koma systur mínar sterkar inn.“

Það er greinilega kært með þeim systkinum. Yngri systur hans setjast í kringum okkur og fylgjast með öllu sem fram fer af áhuga.

Var mikil afastelpa

Í gömlu viðtali talaðir þú um að þú ætlaðir að komast í lið Barcelona, Albert.

Albert: „Ætlaði? Þú meinar ætlar.“

Krissa: „Ég reyndi nú mjög oft að ræða þetta við hann, þetta gerðist ekki alltaf eins og maður vildi.“

Albert: „Mamma og pabbi minntu mig reglulega á að ef ég vildi láta þessa drauma rætast yrði ég kannski að sleppa einhverju í staðinn, böllum í skólanum og að hanga lengi fram eftir með vinum mínum. Mér fannst það ekkert mál því það var fyrir fótboltann.“

Krissa : „Albert fékk einstakt tækifæri til að fara út og æfa, aðeins 14 ára gamall, með liðum eins og Liverpool og Arsenal. Þá þéttist ramminn auðvitað svolítið kringum hann og hann sá að atvinnumennska var möguleiki. Þegar hann fór út 16 ára lögðum við mjög hart að honum að gera sér grein fyrir að það yrði enginn atvinnumaður 16 ára gamall, þetta væri ekkert komið og úti í þessum stóra heimi er enginn sem hjálpar manni, þú ert þarna upp á eigin spýtur og aðeins manns eigið vinnuframlag kemur manni lengra, í mjög hörðum heimi. En þarna fékk hann einstakt tækifæri til að komast nær markmiði sínu.“

Er annars aldrei deilt um boltann á heimilinu?

Albert: „Það er helst við pabbi sem erum aðeins ósammála. Pabbi er meira fyrir Manchester United en ég held með Arsenal.“

Krissa: „Þetta var allt í lagi í fyrstu, Albert hélt upp á Beckham sem spilaði á þeim tíma með United en svo fór ég að fara með Albert um helgar til fjölskyldu minnar, þegar Gummi var upptekinn við að lýsa leikjum. Fjölskylda mín er gallhart Arsenal-fólk enda spilaði afi með liðinu. Það er alltaf svakaleg stemning um helgar þegar pabbi og bræður mínir hittast og Albert datt inn í þá stemningu. Það hefur farið svolítið í taugarnar á Gumma, sem er alltaf að reyna að ná honum til baka í sitt lið.“

Talandi um föðurafa þinn, Krissa, og langafa þinn, Albert, varstu meðvitaður um þá goðsögn sem hann var í knattspyrnunni hann nafni þinn? Hvað hefðirðu viljað ræða við hann?

Albert : „Hann lést á 71. aldursári, nokkrum árum áður en ég fæddist, svo ég hef bara sögur af honum. Af þeim er ekki hægt að greina neitt annað en hann hafi verið mjög góður knattspyrnumaður og ég er stoltur af því að bera nafnið hans. Ég myndi vilja ræða allt milli himins og jarðar við hann; hans sögu, hvernig hann varð atvinnumaður í knattspyrnu, hvernig hann fór út til Bretlands fyrst og fremst til að fara í nám og svo er einhver sem spottar að hann er allt of góður til að vera bara að spila með einhverju skólaliði. Og hvernig hann náði að vinna sig upp.“

Var Albert mikill afi, Krissa?

Krissa : „Hann var mér mikill afi, með sinn breiða faðm og stóra vindil. Það var ákaflega gaman að spjalla við hann, var mjög beinskeyttur. Ég gisti gjarnan um helgar hjá ömmu og afa á Laufásveginum og fór þá snemma á fætur með afa og við fórum í morgunmat á Borgina þar sem hann hitti „mafíuna“ sína, eins og hann kallaði það. Afi minn var mikill Valsari en við tókum samt alltaf sama hringinn í sunnudagsbíltúrnum eftir morgunmatinn á Borginni og keyrðum alltaf framhjá KR-vellinum, þá var KR-heimilið bara braggi. Afi byrjaði í KR sem smástrákur en færði sig svo yfir í Val og hann bar því alltaf taugar til KR líka. Við enduðum svo alltaf á Valssvæðinu, þar sló hjarta hans.“

Í pressunni nokkurra vikna

Varstu ákveðin í að frumburðurinn yrði nefndur Albert?

„Nei, það var ekki neglt niður. Ég eignaðist Albert 15. júní, þegar Gummi var á fullu að spila, og sumarið leið. Ég var einhvern tímann búin að segja við sjálfa mig að ef við eignuðumst strák myndi ég leyfa Gumma að velja nafnið. En vissi líka að ef ég væri ekki sátt myndi ég alltaf segja nei! En svo var smá pressa líka því við hefðum getað gefið pabba Gumma, Benedikt Guðmundssyni, alnafna líka. Pressan var ekki frá fjölskyldunni, það voru meira fjölmiðlar. Það var skrifað í blöðin að nú gæti orðið til alnafni afa en fyrir norðan, þaðan sem fjölskylda Gumma er, að þetta gæti orðið lítill alnafni föðurafans.

Um haustið þegar við setjumst niður að ræða þetta segir Gummi við mig að sig langi til að láta skíra hann Albert. Mér fannst það auðvitað alveg dásamlegt en benti honum á að við gætum gefið pabba hans nafn. Gummi svarar: Benedikt kemur næst. Síðan þá hafa þrjár stelpur fæðst. Tilviljun réð því svo skemmtilega að skírnardaginn bar upp á fæðingardag afa.“

Af hverju hefurðu lært mest í fótboltanum, Albert, og hvernig stúderarðu hann?

Albert : „Fyrir utan pabba og mömmu hef ég tekið sitthvað inn frá mjög mörgum. Ef ég sé eitthvað gott sem gæti gagnast mér, hvort sem það er hjá öðrum leikmönnum eða þjálfurum, reyni ég að læra af því og tileinka mér. Úti eru allir leikir klipptir fyrir mann, við fáum myndskeið af eigin frammistöðu þar sem okkur er bent á hvað við gerðum vel og hvar við megum bæta okkur, sem er mjög gagnlegt.

Þegar ég var yngri var ég í tölvuleikjum eins og Fifa, þar sem maður lék sér að því að stilla liðum upp. Þetta var auðvitað bara leikur þá en þegar ég hugsa til baka sé ég að þessir leikir hjálpa mér á lúmskan hátt í dag.“

Það hefur verið mikill skóli að vera úti og öðruvísi fókus sem maður nær. Við æfum á morgnana og eftir hádegismat og eftir æfingar vill maður bara fara heim, borða og svo hvíla sig. Hér heima væri ég að fara á æfingar þreyttur eftir vinnu eða skóla. Ég er ekki að segja að það sé ekkert sem trufli þarna úti, en það er bara auðveldara að halda einbeitingunni, freistingarnar eru fleiri á Íslandi.“

Hvernig kanntu við Hollendinga?

Albert : „Hollendingar eru mjög opnir og tilbúnir að diskútera allt. Hingað til hef ég góða reynslu af þeim, þeir eru mjög skemmtilegir og hressir, stundum eiginlega of hressir. Þetta er prinsippfólk, karakterinn einhvers staðar milli Þjóðverja og Dana.“

Krissa: „Þeir eru mjög hjálpfúsir.“

Guðlaug : „Afar kurteisir, það segja allir alltaf góðan daginn þótt þeir standi marga kílómetra í burtu – þá bara öskra þeir yfir götuna: Góðan daginn!“

Bjóstu við að verða valinn í liðið fyrir HM?

Albert: „Ég var tilbúinn ef kallið myndi koma. Ég hugsa þetta yfirleitt þannig að það er betra að vera klár ef kallið kemur en að búast ekki við að kallið komi og vera þá ekki klár. En ég held ég sé ekki ennþá búinn að átta mig á því að ég sé að fara út. Æfingar eru núna frekar stífar, mikið af hlaupum og verið að koma mönnum aftur í form.“

Nú er mikið talað um að ástríðulýsandinn pabbi þinn geti lent í því að þurfa að lýsa þér, hvernig heldurðu að það gæti farið?

Albert: „Ég veit ekki alveg hvort það er eitthvað kreisí við það. – Ég held að þetta geti hvort sem er ekkert orðið svakalegra en lýsingarnar á EM.“ Við springum úr hlátri.

En þér, Krissa – hvernig líst þér á það?

Krissa : „Ég get ekki einu sinni ímyndað mér hvernig það verður ef Albert fær einhverjar mínútur – ég veit það eru margir að bíða eftir því hvort Gummi missir sig í tilfinningunum. En Gummi er nú frekar faglegur þannig að ég hugsa að hann muni halda sínu striki því hann er, þótt sumum þyki ótrúlegt, pollrólegur að eðlisfari. Við sem þekkjum hann vel rákum upp stór augu yfir leiklýsingunni á EM. Ég man að þegar ég sá þetta fyrst var ég bara eins og hálfhneyksluð: Gummi! Og hann á meira að segja mjög erfitt með að horfa á þetta sjálfur. En ég hugsa að allir Íslendingar hafi sýnt nákvæmlega þessi viðbrögð og Gummi endurspeglaði þær tilfinningar. Það fóru allir út úr líkamanum, fólk vissi ekki hvort það ætti að hlæja eða gráta.

Gummi segir sjálfur að hann muni stundum ekkert hvað hann er að segja, ástríðan er bara þannig og af því hann var leikmaður sjálfur á hann svo auðvelt með að staðsetja sig og vera í þessum sporum með liðinu.“

Eruð þið öll að fara út?

Krissa: „Nei, bara við foreldrarnir og Guðlaug. Ég fer á fyrsta leikinn og flýg svo til baka til að fara á fótboltamót með stelpurnar.“

Albert : „Eins og ég sagði: ofurmamma.“

Krissa: „Ég kem heim eftir fyrsta leikinn í Rússlandi, bruna norður á fótboltamót þar og flýg svo aftur út. Þannig að ég sleppi einum leik hjá Alberti.“

Albert hristir höfuðið af ímyndaðri hneykslan: „Alveg ótrúlegt.“

Albert, hvað er mest spennandi við HM?

„Að fá að vera hluti af hópnum og skrifa söguna með íslenska landsliðinu. Á EM í fyrra mætti liðið Ronaldo í fyrsta leik, nú er það Messi á fyrsta leik á HM, það er ekki hægt að skrifa söguna betur. Nú er fókus liðsins á að gera betur en á EM.“

Í hverju liggja styrkleikar þínir, Albert?

Albert: „Útsjónarsemi, hraða og tækni. Svo hef ég líka markanef, sem gagnast vel.“

Krissa: „Albert hefur ofurtrú á sjálfum sér og það hefur komið honum ótrúlega langt. Hann hefur alltaf vitað hvert hann stefnir en kann líka að vera gagnrýninn á sjálfan sig. Þegar hann var yngri og var eitt sinn valinn sóknarmaður N1-mótsins rétti hann mér bikarinn og sagðist ekki viss um að eiga hann skilið, aðrir strákar hefðu verið betri! Það er ekta hann, þótt ég hafi vissulega getað sagt honum að hann ætti þetta skilið þótt aðrir hefðu líka staðið sig vel.“

Hvað er það sem fótboltinn gefur lífinu og hvað gerið þið þegar það er ekki fótbolti?

Krissa: „Þegar það er ekki fótbolti?! Jú, við hljótum að geta fundið eitthvað. Við spilum, förum á skíði en Gummi er með aum hné svo hann á svolítið erfitt með að elta okkur stelpurnar. Best finnst okkur held ég að vera heima og taka því rólega.“

Guðlaug : „Ég verð að skjóta því inn að það sem þau kalla rólegt; þá eru þau samt að spila fótbolta í stofunni!“

Albert: „Þó að ýmislegt breytist þegar fótbolti hættir að vera leikur, og maður fer að fá borgað fyrir hann, finn ég alltaf hvað mér þykir hann skemmtilegur þegar ég fer út að spila með vinunum. Það er ekki verra að nú spilar maður á svona stóru sviði þar sem þú veist að öll fjölskyldan og allir vinir þínir eru að horfa á þig, gefur auka kraft og gleði.“

Krissa: „Í hópíþróttum lærir maður ákveðin gildi sem er gott að taka með sér út í lífið; samvinnu, að gagnrýna og að hrósa. Allt þarf að virka í samskiptum inni á vellinum, alveg eins og í lífinu, þú kannski fílar ekkert alla í kringum þig en þið verðið samt að læra að vinna saman. Ég sé íþróttir sem gulls ígildi.“