Vinafundur við veitingastaðinn Sirkus í miðbæ Þórshafnar á mannmargri Voxbotn-tónlistarhátíðinni.
Vinafundur við veitingastaðinn Sirkus í miðbæ Þórshafnar á mannmargri Voxbotn-tónlistarhátíðinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eyjarnar átján sem mynda Færeyjar eru einhver besti viðkomustaður sem hugsast getur. Heimamenn eru góðir gestgjafar, þægilegt er að ferðast um, akandi eða siglandi, og alls staðar er margt að skoða og njóta. Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is

Það er gott að koma til Færeyja. Þær eru engu líkar og gestrisni og hjálpsemi heimamanna er óviðjafnanleg. Ég hef löngum sagt að eyjarnar átján séu, ef tala má um þær sem eitt „land“, annað af mínum eftirlætislöndum að sækja heim. Við að koma í fyrsta skipti sjóleiðina til Færeyja styrktist sú skoðun einfaldlega því fagrar eru þær séðar af hafi; ekki síst litrík þorpin sem sitja innst í vogum, undir grónum hlíðum sem á sumrin virðast vera í öllum græna litaskalanum.

Í fyrrasumar átti ég ánægjulegt erindi til Færeyja, var fenginn til að ljósmynda fyrir væntanlega danska útgáfu Færeyinga sögu. Ég gat því sett saman tökuhandrit sem leiddi mig á nokkrum dögum um helming eyjanna átján, oftast á bílnum mínum. Ég sigldi nú í fyrsta skipti milli landanna með Norrænu og það var svo ánægjuleg og notaleg reynsla að ég hlakka til að endurtaka þann leik. Einn kosturinn við að vera á eigin bíl er að geta haft allan ljósmyndabúnaðinn og annað viðlegudót með sér og góðar bækur að lesa í. Auk Færeyinga sögu voru með í för nokkur lykilverk Williams Heinesen, hins mikla sagnameistara eyjanna, og hin snilldarlega ferðadagbók Hannesar Péturssonar, Eyjarnar átján – Dagbók úr Færeyjaferð 1965.

Það er ekki bara gott að koma til Færeyja, það er líka sérlega gott að ferðast um eyjarnar og milli þeirra. Vegir eru góðir, ferjur ganga nokkuð ört milli þeirra flestra og þyrlur til þeirra afskekktustu. Það reyndi ég nú í fyrsta sinn og mæli með.

Sumir ferðamenn setja upp miðstöð í Þórshöfn og flakka þaðan um eyjarnar sem getur verið gott enda bærinn líflegur og mannlífið fjölbreytilegt. Til að mynda var það hin besta skemmtan að fylgjast með Voxbotn-tónlistarhátíðinni sem haldin er árlega við höfnina, 30. júní nú í ár. Götum kringum höfnina er lokað og selt er inn á hátíðina þar sem fólk á öllum aldri fjölmennir þótt ungmenni séu áberandi og drykkjan hressileg – og tónlistin fjölbreytileg og fín.

Óhætt er að mæla með hægu flakki milli eyjanna, með tilheyrandi samræðum við heimamenn og skoðunarferðum og ekki einungis um þær fjölmennari, eins og Straumey, Austurey og Suðurey – þótt á þeim öllum séu fagrir staðir og áhugaverð þorp að skoða. Mikilvægt er að taka líka litlu ferjubátana út í fámenn byggðarlög eins og Skúfey, Svíney og Fugley. Það er eins og að stíga inn í annan tíma, hægan og góðan. Á öllum þessum stöðum búa góðir grannar okkar sem taka Íslendingum svo vel að strax hlakkar maður til næstu Færeyjaferðar.