[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Þeim sem reykja daglega fækkaði um 5.500 manns milli áranna 2015 og 2018. Þeim sem taka tóbak í nefið fækkaði um 900 manns en þeim sem taka tóbak í vör fjölgaði um 3.100 manns milli 2015 og 2018.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Þeim sem reykja daglega fækkaði um 5.500 manns milli áranna 2015 og 2018. Þeim sem taka tóbak í nefið fækkaði um 900 manns en þeim sem taka tóbak í vör fjölgaði um 3.100 manns milli 2015 og 2018. Aftur á móti hefur þeim fjölgað stórlega sem nota rafrettur daglega eða um 9.200 á síðustu þremur árum.

Þetta eru fyrstu niðurstöður ítarlegrar könnunar sem unnin hefur verið á vegum Embættis landlæknis meðal Íslendinga 18 ára og eldri en þær voru birtar á vefsíðu embættisins í fyrradag í tilefni af tóbakslausa deginum 31. maí. Niðurstöður þessarar könnunar verða svo birtar síðar í heild með ítarlegri túlkun, að sögn Viðars Jenssonar, verkefnisstjóra hjá Embætti landlæknis.

Gerðar voru ítarlegar kannanir á notkun tóbaks meðal Íslendinga á árunum 2012 og 2015 og nú hefur samskonar könnun verið gerð á yfirstandandi ári. Augljóst er af fyrstu niðurstöðum hennar að verulegar breytingar eru að eiga sér stað á tóbaksnotkun landsmanna.

„Árangur af tóbaksvarnastarfi undanfarinna áratuga er mikill og er tíðni reykinga hér hvað lægst í Evrópu. Frá árunum 2015 til 2018 hafa daglegar reykingar Íslendinga 18 ára og eldri lækkað úr 11% í 9%,“ segir í umfjöllun sem Viðar og Sveinbjörn Kristjánsson verkefnisstjóri hjá landlækni, skrifa á vefsíðu embættisins.

Konum fjölgar sem taka í vör

Þar kemur ýmislegt á óvart, ekki síst að nú kemur á daginn að konur eru í auknum mæli að taka tóbak í vör. ,,Það hafa verið vísbendingar um að notkun á tóbaki í vör á meðal kvenna sé að aukast og hún mælist nú 3% daglega í aldurshópnum 18 til 24 ára og rúmlega 2% meðal 25 til 34 ára,“ segir Viðar í samtali við Morgunblaðið.

Dagleg notkun tóbaks í vör hefur dregist saman hjá yngsta aldurshópi karla (18-24 ára) eða úr 23% árið 2015 í 14% árið 2018. Á hinn bóginn jókst dagleg notkun í aldurshópnum 25-34 ára karla úr 7% 2015 í 22% árið 2018.

Sérstaka athygli vekur þó stórfjölgun þeirra sem nota rafrettur. ,,Dagleg notkun á rafrettum hjá báðum kynjum 18 ára og eldri hefur aukist úr 1% árið 2015 í 5% árið 2018. Notkunin er algengari hjá yngri aldurshópum og er lítill munur á milli karla og kvenna. Rúmlega 8% karla og kvenna á aldrinum 18 til 34 ára nota rafrettu daglega og er notkun þeirra því orðin algengari en daglegar reykingar í þessum aldurshópi sem eru um 6%,“ segir um niðurstöðurnar.

Viðar bendir á að hafa verði í huga að í sumum tilvikum getur verið um tvítalningu að ræða, þ.e.a.s. sami einstaklingurinn getur fallið í þann hópi að nota bæði rafrettu og reykja tóbak, þar sem ekki er greint sérstaklega þar á milli í þessum fyrstu niðurstöðum. Þetta verður þó greint betur í niðurstöðunum sem birtar verða síðar í sumar.

Ljóst er þó að þeim sem reykja fækkar áfram jöfnum skrefum ár frá ári og ef fram heldur sem horfir munu daglegar reykingar hér á landi verða komnar niður í 5% árið 2023, sem er viðmið margra þjóða um endatafl tóbaksreykinga að því er fram kemur í umfjöllun Viðars og Sveinbjörns.

Í ljós kemur í nýju rannsókninni að á meðal kvenna er hlutfall daglegra reykingar hæst í aldurshópnum 55 til 64 ára eða um 13% en lægst í aldurshópnum 18-24 ára eða 6%. Á meðal karla er hlutfall daglegra reykinga hæst í aldurshópnum 35-45 ára eða 12% en lægst í meðal 18-24 ára eða 5%.

Víða erlendis og í tilskipun Evrópusambandsins hefur verið við það miðað að styrkleiki nikótínvökvans í rafsígarettum megi ekki vera meiri en 20 milligrömm af nikótíni í millilítra (mg/ml). Hér á landi eru algengir styrkleikar á vökva sem notaður er í rafrettur 6 milligrömm af nikótíni í millilítra, 12 mg/ml og 18 mg/ml. Rannsókn Embættis landlæknis leiðir óvæntar niðurstöður í ljós hvað þetta varðar. Flestir eða um 70% þeirra sem nota nikótínvökva í rafrettur nota minnsta styrkleikann eða vökva sem inniheldur 6 mg/ml. 20% nota 12 mg/ml og eingöngu 6% nota 18 mg/ml styrkleika nikótíns.

Viðar segir koma ánægjulega á ávart hversu fáir nota hærri styrkleika nikótínvökvans. Algengast er að þeir sem nota rafrettur noti bragðbættan vökva eða um 90%.

Einnig má sjá í rannsókninni að tíðni daglegrar neyslu tóbaks í nef er um 3% meðal karla 18 ára og eldri og hefur hún lítið breyst frá fyrri könnun. Er hún mest í aldurshópnum 45 til 54 ára eða tæp 7%.