Sigrún Gerða Gísladóttir fæddist 20. nóvember 1943 í Reykjavík. Hún lést 22. maí 2018 á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík.

Foreldrar hennar voru hjónin Gísli Þorleifsson múrarameistari, f. 23. október 1907, d. 23. apríl 1954, og Brynhildur Pálsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 1. janúar 1901, d. 20. apríl 1992. Systkini Sigrúnar eru Páll Leifur múrarameistari, f. 18. september 1936, og Jónína Helga píanóleikari, f. 3. júlí 1941, d. 31. ágúst 2009.

Hinn 7. október 1971 giftist Sigrún Gerða Einari Oddi Kristjánssyni, alþingismanni og framkvæmdastjóra, f. 26. desember 1942, d. 14. júlí 2007. Foreldrar hans voru hjónin Kristján Ebenezersson skipstjóri, f. 18. október 1897, d. 30. mars 1947, og María Jóhannsdóttir, stöðvarstjóri Pósts og síma á Flateyri, f. 25. maí 1907, d. 5. desember 2003.

Sigrún Gerða og Einar Oddur stofnuðu heimili á Sólbakka við Flateyri. Börn þeirra eru: 1) Brynhildur menntaskólakennari, f. 1. janúar 1973, maki Illugi Gunnarsson hagfræðingur, f. 26. ágúst 1967, dóttir þeirra er Guðrún Ína, f. 29. mars 2012. 2) Kristján Torfi útgerðarmaður, f. 21. júní 1977, maki Dagný Arnalds tónlistarkennari, f. 5. maí 1976, börn þeirra eru Einar Arnalds, f. 12. desember 2004, María, f. 7. janúar 2010, og Jóhann Oddur, f. 6. október 2013. 3) Teitur Björn lögfræðingur, f. 1. apríl 1980, maki Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri, f. 19. júlí 1986, sonur þeirra er Gísli Torfi, f. 28. júlí 2017.

Sigrún Gerða ólst upp á Grenimel 5 í Reykjavík. Hún útskrifaðist frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1965. Þá hélt hún til Svíþjóðar og lærði gjörgæsluhjúkrun og þaðan til London og lærði hjartahjúkrun. Hún lauk meistaranámi í heilbrigðisstjórnun frá háskólanum í Leeds árið 1995.

Sigrún Gerða var aðstoðardeildarstjóri á hjartadeild Landspítalans 1968-1971, hjúkrunarfræðingur við heilsugæslustöðina á Flateyri 1972-1980 og var heilbrigðisfulltrúi V-Ísafjarðarsýslu um árabil. Árið 1998 tók Sigrún við stöðu hjúkrunarforstjóra við heilsugæsluna í Bolungarvík og sinnti því starfi í áratug.

Sigrún Gerða var virkur sjálfboðaliði Rauða krossins á Vestfjörðum um ártugaskeið. Hún hélt námskeið í skyndihjálp á Vestfjörðum en einnig var hún fararstjóri í fjölmörgum ferðum á vegum eldri borgara.

Sigrún Gerða tók virkan þátt í félagslífi á Flateyri og sinnti æskulýðsmálum af krafti. Hún var formaður leikfélags Flateyrar 1979-2011 og lék í mörgum leikritum sem leikfélagið setti upp. Sigrún Gerða var í stjórn Íþróttafélags Grettis á Flateyri og formaður Tónlistarskólans á Flateyri um árabil og stóð reglulega fyrir tónleikahaldi á Flateyri.

Útför Sigrúnar verður gerð frá Ísafjarðarkirkju í dag, 2. júní 2018, klukkan 11.

Leiðir okkar Sigrúnar Gerðu Gísladóttur, sem við kveðjum hinstu kveðju í dag, lágu saman í tæplega hálfa öld, eða frá því að þau rugluðu saman reytum sínum, Einar Oddur bróðir minn og hún.

Reykjavíkurdaman og hjúkrunarfræðingurinn Sigrún Gerða virtist ekki víla fyrir sér að setjast að í litlu sjávarþorpi vestur á fjörðum. Fyrst leigðu þau Einar Oddur lítið steinhús á Sólbakka. Síðan keyptu þau húsið og stækkuðu, því hvergi vildi Sigrún búa annars staðar. Þar ræktuðu þau stóra garðinn sinn. Einar sá um trén og Sigrún um beð og blóm. Og úr hinum græna lundi í Sólbakka uxu úr grasi ættarlaukarnir, þrjú elskuleg börn. Ræktunarstörfin á Sólbakka voru reyndar af ýmsum toga því mannrækt var þar líka stunduð og nutu þeirra leiðsagnar ungmenni sem dvöldu við leiki og störf sumar eftir sumar og tengdust fjölskyldunni sterkum böndum. Veturinn 1976-1977 var ég erlendis við nám. Á meðan fóstruðu þau hjónin 6 ára dóttur mína og fyrir það á ég þeim Sólbakkahjónum miklar þakkir skildar. Ótal gleðistundir hef ég átt með Sigrúnu og fjölskyldunni á Sólbakka og ætíð verður gott að ylja sér við minningarnar ljúfu frá samveru á jólum og áramótum í áratugi, undurfögrum sumarkvöldum á Sólbakka í góðra vina hópi og ótal mörgu öðru.

Sigrún var virkari en flestir. Hún synti, renndi sér á skíðum, reið út á hestum sínum, gekk um fjöll og firnindi, spilaði brids, sótti tónleika og aðrar menningarsamkomur, skálaði og hélt ræður, tíndi ber í fötu, renndi fyrir silung, stofnaði tónlistarskóla, lék á sviði og í kvikmyndum, rótaðist í moldinni, skipulagði og fór með eldri borgurum í ferðir um landið. Svona var athafnagleði Sigrúnar mikil og er þó aðeins minnst á brot af því sem hún fékkst við fyrir utan hjúkrun og heimilisstörf. Ötulast barðist hún fyrir framfaramálum er varða lýðheilsu í breiðum skilningi orðsins. Íþróttafélagið Grettir á Flateyri naut lengi krafta Sigrúnar og hið sama má segja um Leikfélag Flateyrar. Eftir framhaldsnám starfaði hún sem hjúkrunarfræðingur í Bolungarvík og þá átti verkefnið „Heilsubærinn Bolungarvík“ hug hennar allan.

Sigrún var á ýmsan hátt sérstök kona, einörð og fylgin sér, ósérhlífin þegar verkefni voru henni að skapi, hjálpsöm þegar til hennar var leitað, trúföst, orðheldin og vönduð manneskja. Hún gerði þær kröfur til sín og annarra að ætíð skyldi unnið af kappi að knýjandi framfaramálum og þannig kom hún mörgu góðu til leiðar. Rétt eins og eigin börn voru börn systkina Sigrúnar henni afar kær og áttu þau frænku sinni áreiðanlega margt að þakka.

Við reiðarslagið mikla þegar Einar Oddur féll frá á sumardeginum sólbjarta 2007 missti Sigrún ekki aðeins eiginmann sinn heldur varð fljótlega breyting á heilsu hennar. Löng og ströng baráttan var á köflum afar erfið. Nú hefur Sigrún fengið hvíld frá löngu stríði.

Ég þakka mágkonu minni fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman.

Elsku Brynhildi, Kristjáni Torfa, Teiti Birni og fjölskyldum og öðrum ástvinum Sigrúnar votta ég innilegustu samúð.

Jóhanna G. Kristjánsdóttir.

Systkini af aldamótakynslóðinni ákváðu að yfirgefa heimaslóðir í Heiðardal í Mýrdal og freista gæfunnar í höfuðborginni, meðal þeirra var Brynhildur móðir Sigrúnar Gerðu og Ólafur faðir minn. Systkinin höfðu búið við gott atlæti í Heiðardalnum og voru kostum búin. Þau leituðu sér menntunar, komust vel af í lífinu og flest urðu langlíf.

Systkinin stofnuðu heimili og við frændsystkinin urðum 18. Samheldni var á milli heimilanna og meðal okkar krakkanna myndaðist leiksystkina- og síðar hlýtt vinasamband. Sigrún Gerða var yngst í hópi systkinabarnanna sem áttu heima í Reykjavík. Litla sposka stúlkan með rauðu krullurnar skemmti okkur hinum með frásögnum af skrítnum hlutum með skondnu tungutaki sem við ýttum undir.

En hún var ekki bara skemmtileg, hún var góðum gáfum gædd og gerðist vel menntaður hjúkrunarfræðingur sem átti eftir að sinna annasömum störfum bæði á Flateyri og í Bolungarvík. Auk þess rak Sigrún stórt og gestkvæmt heimili á Flateyri með framkvæmda- og alþingismanninum Einari Oddi Kristjánssyni.

Sigrún mátti ganga í gegnum mikla lífsreynslu þegar hún missti mann sinn skyndilega og smátt og smátt fór heilsu hennar að hraka. Ólýsanleg var baráttan við verki sem gerðu Sigrúnu erfiðar allar hreyfingar. Fyrir nokkrum árum féll mér í skaut að fylgja frænku minni til Boston þar sem hún leitaði sér læknishjálpar. Þrátt fyrir litla heilsubót nutum við frænkurnar þarna daganna. Við höfðum mikið að spjalla eftir langan landfræðilegan aðskilnað, hún búsett á Vestfjörðum og ég í Reykjavík, og við spiluðum fram á nótt. Eldmóðurinn var til staðar þrátt fyrir að hún gæti sig varla hrært vegna sjúkdóms síns en hún beitti öllum kröftum til að bjarga sér af eigin rammleik.

Frá því hún veiktist var hún staðráðin í því að endurheimta heilsuna og sú ákvörðun stóð fram til þess síðasta. Fyrir nokkrum vikum heimsóttum við Steinunn dóttir mín Sigrúnu á hjúkrunarheimilið í Bolungarvík, þar sem hún bjó síðustu misserin. Þá kom viljastyrkur hennar mér aftur á óvart. Ekki var við annað komandi en að fara í bíltúr og út að borða. Leiðin lá á Flateyri þar sem á vegi hennar urðu gamlir og góðir vinir sem buðu í kaffi. Sigrún var vinmörg eftir hálfrar aldar búsetu á Flateyri og farsælt hjúkrunarstarf á svæðinu. Þrátt fyrir rok og rigningu held ég að Sigrún hafi notið þessa dags rétt eins og við mæðgur, en sannarlega fór hún fremur fram af vilja en mætti. Minningin um þennan dag er dýrmæt.

Síðustu árin voru frænku minni ekki blíð. Þvert á eigin áætlanir þvarr henni sífellt heilsa. Að endingu mátti hún gefa upp hetjulega baráttu og sofnaði hún sátt í faðmi barnanna sinna þriggja að kvöldi 22. maí.

Ég þakka kærri frænku samfylgdina. Blessuð sé minning Sigrúnar Gerðu Gísladóttur.

Helga Ólafsdóttir.

Bognar aldrei, – brotnar í

bylnum stóra seinast.

Þessar ljóðlínur Stephans G. Stephanssonar koma mér í hug við andlát minnar elsku frænku Sigrúnar Gerðu.

Við Sigrún vorum systradætur og var heimili fjölskyldunnar á Grenimel 5 í Reykjavík. Eftir að faðir minn lést var Grenimelurinn mitt annað heimili þar sem mamma þurfti að vinna fulla vinnu við hjúkrun. Hún er greypt í huga minn minningin um fjöruga og glettna litla telpu sem var yngst þriggja systkina. Hún var einstaklega skemmtilegt barn og mikill gleðigjafi.

Sigrún valdi hjúkrun að ævistarfi og kom ekki á óvart, því í fjölskyldunni eru ljósmæður, margir hjúkrunarfræðingar og læknar. Ég veit að hún var vinsæl í starfi. Sjúklingar mátu hana mikils fyrir alúð og glaðlegt viðmót sem og samstarfsfólk.

Þegar Sigrún giftist honum Einari sínum og flutti til Flateyrar varð vík milli vina. Hún lét aldrei hjá líða að koma í heimsókn þegar hún átti erindi til borgarinnar. Mömmu minni og nöfnu Sigrúnar þótti undurvænt um hana sem og systkini hennar. Ég veit að sú væntumþykja var gagnkvæm. Sigrún bar hag stéttar sinnar mikið fyrir brjósti og barðist alltaf fyrir betri kjörum hjúkrunarfræðinga. Hún var mikill tónlistarunnandi og sótti marga tónleika þegar hún kom í bæinn, enda var tónlist í hávegum höfð á hennar æskuheimili. Systir hennar Jónina var afbragðspíanóleikari og var á æskuheimili Sigrúnar mikið sungið og spilað þegar fólk kom saman á Grenimel 5.

Þegar sjúkdómar tóku að herja á bar hún sig alltaf vel. Aldrei kvartaði hún og lét ekki sjúkdóminn aftra sér frá að sækja ýmsa menningarviðburði þegar hún kom til borgarinnar. Að lokum höfðu veikindin betur. Ég mun sakna hennar mikið en varðveita minninguna um hana. Góð og mikilhæf kona er gengin. Að lokum sendi ég börnum hennar, ömmubörnum og öllum ættingjum samúðarkveðju. Minningin um góða og mikilhæfa konu lifir.

Vertu sæl, elsku frænka, og takk fyrir allt. Við hittumst í Sumarlandinu.

Sigurlaug Straumland.

Ég var á námskeiði á Núpi. Voru þar sögumenn alls staðar að úr heiminum að nema snilld þess að segja sögu. Ekki vorum við lengi búin að spreyta okkur á þessu skemmtilega námskeiði þegar hún Sigrún frænka mín birtist þar til að spyrja mig hvort ég kæmi ekki við á Flateyri að námskeiði loknu. Auðvitað hafði það ekki hvarflað að mér að yfirgefa Vestfirði án þess að koma við á Sólbakka hjá Sigrúnu. Ég dvaldi hjá henni í 3 daga í það skipti og eins og í öll skiptin áður var það ekki leiðinlegt. Húsmóðirin á Sólbakka var þá önnum kafin við að undirbúa stórveislu. Því að tveim vikum seinna ætlaði hún að halda upp á að 40 ár voru liðin frá því að hún og Einar Oddur höfðu flutt nýgift til Flateyrar. Einar Oddur hafði dáið þrem árum áður en hún ætlaði ekki að láta það hindra sig í að bjóða sínum bestu vinum og ættingjum til veislu til að minnast stærstu hamingjudaga lífs síns. Fyrsta morguninn sem ég fékk að njóta þess í hornstofunni að drekka morgunkaffi með húsfreyjunni, sagði hún mér að von væri á vinkonu sinni úr þorpinu til að kenna henni að elda plokkfisk. „Hún er matreiðslusnillingur þessi vinkona mín og býr til þann besta plokkfisk sem völ er á á öllum Vestfjarðakjálkanum, ég ætla að hafa hennar plokkfisk sem aðalrétt í veislunni.“ Og vinkonan kom og var fjör í eldhúsinu á Sólbakka, því vinkonan var ekki bara snillingur í plokkfiskeldun heldur reyndist hún líka óhemju skemmtileg. Um kvöldið þegar við Sigrún sátum saman í hornstofunni með kaffibolla sýndi hún mér hornið á stofunni sem hafði sópast burtu í snjóflóðinu mikla mörgum árum fyrr. Hún sýndi mér heimildarmynd sem Flateyringar höfðu látið gera rétt eftir snjóflóðið. Sú mynd snart mig djúpt. Hún sýndi meðal annars fólkið sem var saman komið í kirkjunni við útför hinna mörgu sem farist höfðu í snjóflóðinu. Andlitin voru næstum eins og steinrunnin í sorginni. Í myndinni hélt fyrrverandi forseti Íslands Vigdís Finnbogadóttir ræðu. Hún var þarna eins og móðir sem huggar börn sín. Hún sagði meðal annars: „Munið það, Flateyringar, þið eruð ekki ein – öll íslenska þjóðin stendur með ykkur, og mun standa með ykkur.“ Við litum hvor á aðra frænkurnar, vorum báðar farnar að hágráta yfir upprifjun þessa sorgartíma. „Og hefur íslenska þjóðin staðið með ykkur?“ spurði ég. „Ég veit það ekki,“ sagði húsmóðirin á Sólbakka. „Okkur Flateyringum fannst við ekki finna mikla samúð hjá íslensku þjóðinni. Þegar einn höfðingi innfæddur í plássinu seldi kvótann frá okkur og eftir var autt fiskverkunarhús og atvinna tekin frá fólkinu. Við tókum það öll mjög nærri okkur.“ Svo brosti hún frænka mín í gegnum tárin og sagði: „En nú höldum við veislu með plokkfisk í aðalrétt og þér er boðið, Gunna mín.“ Og hvílík veisla var það sem haldin var skömmu seinna. Ég vona að veislugleði þín verði ennþá á fullu hjá ykkur Einari þegar ég hitti ykkur á himnum.

Guðrún Ásmundsdóttir.

Þá er fallin frá síðust þriggja stoða barnæsku minnar. Sigrún var mér mikið meira en móðursystir. Hún var stoð og stytta alla mína tíð, allt frá því ég var lítil stelpa sem lék sér á Sólbakka. Hún huggaði mig ef ég saknaði mömmu og hjúkraði mér þegar ég meiddi mig, bað með mér bænirnar, leyfði mér að koma upp í til sín á morgnana og sofnaði svo í miðri sögu. Ég var eins og heima hjá mér í stóra húsinu innan um stóru fjöllin og stóru frændurna sem stríddu mér með margföldunartöflunni. Það var okkar sameiginlega sorg þegar bróðir minn, Gísli Rúnar, féll skyndilega frá árið 2003, en þá var sem hún hefði misst einn sona sinna og einn sinn besta trúnaðarvin. Þær systurnar áttu nefnilega börnin sín saman. Þá tók hún á móti mér, beinustu leið upp í bát sem hélt með okkur yfir á Hornstrandir og við gengum stórum skrefum saman og komumst í gegnum sorgina.

Síðar varð hún okkur pabba stoð og stytta í umönnun mömmu og stökk oftsinnis til með krafti og bjargaði hlutunum. Sigrún var ónísk á orku sína, ástúð og kærleika. Hún elskaði og tengdi vel við börn og leik þeirra. Hún var einstaklega natin þegar kom að því að verja stundum með barnabörnum sínum – mín börn fengu líka að vera hennar barnabörn – jafnvel þótt hreyfingarnar væru orðnar erfiðar.

Sigrún gerði sitt besta fyrir samfélagið. Hún var ófeimin og talaði við fólk af einlægni, sem hún þekkti ekki mínútunni áður, og kenndi mér þannig að vera óhrædd að vera ég sjálf og leyfa rödd minni að heyrast. Enda gat hún öskrað af hliðarlínunni þegar tekið var þátt í spretthlaupum á Flateyri, svo það var eins og glymdi í íþróttaleikvanginum. Hún var líka mjög upptekin af því að vinna mann í alls konar spilum og fagnaði innilega þegar henni tókst það. Hún var óhrædd við að láta aðra púla á heimilinu sínu á Sólbakka, í garðinum, við að skúra gólfin eða við uppvaskið og var lunkin við að finna starfskrafta á öllum aldri til þess konar verka.

Vinkonur Sigrúnar voru henni hjartfólgnar rétt eins og þær væru hennar eigin systur og hún hélt tryggð við þær alla ævi. Svala Jónsdóttir, Sigrún Magnúsdóttir og Hulda Karlsdóttir og fleiri; allt sterkar konur og miklar manneskjur sem ég veit að voru henni mjög svo kærar.

Sigrún var margbrotinn og stór persónuleiki. Síðustu ár voru Sigrúnu þrautarganga og hún kunni hvorki við sig í hlutverki sjúklings né fór það hlutverk henni vel. Ég fagna því innilega að hún hafi nú fengið hvíldina en græt um leið að hún skuli ekki hafa fengið að upplifa efri árin sem gönguhetja, öskrandi hvatningarorð á hliðarlínunni yfir barnabörnum sínum að spreyta sig. Hún var stolt og ætlaði sér alltaf að eiga betri dag á morgun en í gær. Það er því dapurlegt til þess að hugsa að dagarnir urðu ekki fleiri og með betri heilsu.

Guðrún Inga Torfadóttir.

Enn er höggvið stórt skarð í samhenta hópinn ,,hollið okkar“ sem hóf nám í Hjúkrunarskóla Íslands 1962. Rauðhærða lífsglaða baráttukonan, sannkallaður kvenskörungur Sigrún Gerða Gísladóttir hefur kvatt.

Sigrún var einstök kona og öllum ógleymanleg sem kynntust henni. Hún hreif fólk með sér, jafnt börn sem fullorðna bæði í leik og starfi. Sigrún giftist athafnamanninum og síðar alþingismanninum Einari Oddi Kristjánssyni og áttu þau heimili á Sólbakka í Önundarfirði. Vestfirðir tóku Sigrúnu opnum örmum og það var gagnkvæmt. Hvergi undi hún sér betur og starfskraftar hennar fóru til heimabyggðar. Fallega gestrisna heimilið á Sólbakka var á köflum eins og félagsheimili. Þar var Sigrún í essinu sínu.

Ung fór hún til Noregs og sérhæfði sig í heilsuverndarhjúkrun. Mörgum árum síðar vílaði Sigrún ekki fyrir sér að fara í háskólanám til Bretlands í lýðheilsufræði. Þar varð samnemanda Sigrúnar frá Suður-Afríku að orði: Hvernig getur svona kát og lífsglöð kona komið frá svona köldu landi? Allt sem viðkom lýðheilsufræði var Sigrúnu hjartans mál og var hún ein af brautryðjendum á því sviði hér á landi.

Það gat hent Sigrúnu í hita leiks og ákafra umræðna að leifturhraði hugans varð þess valdandi að henni varð fótaskortur á tungunni. Þá urðu til hin skemmtilegustu orðatiltæki sem heldur betur kitluðu hláturtaugarnar. Fyrir okkur sem til þekktu urðu þetta hinar dýrmætustu perlur. Þung áföll í lífi Sigrúnar og fjölskyldu tóku sinn toll. Snjóflóðið á Flateyri, ótímabær missir eiginmanns og nákominna ættingja. Líkamlegt þrek lét á sjá en andlegur styrkur og sterkur lífsvilji var ætíð til staðar. Síðasta árið dvaldi Sigrún á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungavík í góðri umönnun sem hún var sátt og þakklát fyrir.

Nú er komið að leiðarlokum. Við ,,hollsysturnar“ sendum nánustu fjölskyldu einlægar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Sigrúnar.

Arndís Finnsson.

Vinkona okkar Sigrún Gerða Gísladóttir hjúkrunarfræðingur kvaddi þennan heim 22. maí síðastliðinn, eftir löng og erfið veikindi á hjúkrunarheimilinu Bergi á Bolungarvík, en þar starfaði hún til fjölda ára.

Á Grenimel 5 í Reykjavík ólst Sigrún upp ásamt systkinum sínum Páli múrarameistara og Jónínu píanóleikara sem nú er látin. Húsmóðirin, frú Brynhildur hjúkrunarkona, sem þá var ekkja eftir Gísla Þorleifsson múrarameistara, stjórnaði heimilinu af reisn og ljúfmennsku. Þangað var gott að koma,vel tekið á móti öllum og í minningunni er Grenimelurinn ævintýra- og fjölskylduhús. Hlustað var á tónlist, lesin ljóð og heimsmálin rædd. Þetta var sannkallað menningarheimili. Við áttum margar ánægjulegar samverustundir þarna vinkonurnar. Þarna urðu draumar okkar um framtíðina til.

Dag einn var mikil spenna í stofunni á Grenimelnum; von var á ungum pilti frá Flateyri og eftir langa bið eftir vélinni frá Ísafirði birtist brosmildur og bjartur ungur maður og þar með voru örlög Sigrúnar og Einars Odds ráðin.

Á Flateyri við Önundarfjörð, á Sólbakka, hófu ungu hjónin búskap. Þau eignuðust þrjú mannvænleg börn, Brynhildi, Kristján Torfa og Teit Björn, og eru barnabörnin nú orðin fimm. Sigrún Gerða gerðist þátttakandi og stjórnandi í flestu er laut að umönnun og listum á Flateyri og varð Sólbakki fljótt að miklu menningarheimili. Þangað komu listamenn bæði innlendir og erlendir er nutu gestrisni þeirra hjóna. Sigrún Gerða var dugleg og drífandi, lét ekkert stöðva sig ef svo bar undir. Hún bætti við menntun sína og fór í framhaldsnám til Svíþjóðar, Noregs og Englands.

Fyrir þremur árum, þá orðin mjög veik, vissi hvað tíminn var dýrmætur, bað hún Nínu að koma með sér til Noregs í heimsókn til vina sinna og nutu þær ferðarinnar. Einnig fór hún sárlasin á alla viðburði sem hún komst á. Eitt það síðasta sem við gerðum saman vinkonurnar var að fara saman í Hörpu og sjá Don Giovanni, það var yndisleg kvöldstund. Eftir að Einar Oddur lést breyttist margt hjá vinkonu okkar. Heilsunni hrakaði ört og var mjög sárt að horfa upp á þessa bjartsýnu dugnaðarkonu missa smátt og smátt tökin. Nú hafa þau hjón Sigrún Gerða og Einar Oddur sameinast á ný og við vinkonurnar biðjum þeim Guðs blessunar og vottum fjölskyldunni allri samúð.

Sofðu, mín Sigrún,

og sofðu nú rótt

Guð faðir gefi

góða þér nótt.

Blessuð sé minning elskulegrar vinkonu.

Jónína Herborg Jónsdóttir

(Nína) og Matthildur Þórarinsdóttir (Mattý).

Ég mun aldrei gleyma því þegar ég hitti Sigrúnu í fyrsta skiptið. Það var árið 1993, ég var sjö ára gömul og stödd í sumarfríi með foreldrum mínum og bróður í Önundarfirði. Ég hafði verið að leika mér og varð fyrir því óhappi að slasa mig. Ég þurfti einhverja aðhlynningu og foreldrar mínir fóru með mig á heilsugæsluna á Flateyri, þar sem við biðum í gráu herbergi eftir hjúkrunarfræðingnum á vakt. Eftir nokkra stund opnuðust dyrnar og inn þeyttist Sigrún og lýsti samstundis upp herbergið með rauða hárinu og sinni glöðu nærveru. Eins og svo oft í lífinu varð þetta óhapp óvænt að mikilli blessun í lífi mínu.

Hún bauð okkur í mat heim á Sólbakka næsta kvöld og líkt og svo margir sem urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að koma inn á heimili þeirra Einars Odds var ég yfir mig hrifin af lífinu á Sólbakka. Af þeirri einlægni, sem einungis sjö ára börn búa yfir, spurði ég hvort ég mætti ekki koma aftur næsta sumar í vist á Sólbakka. Sigrún hafði gaman af þessari framfærni og það var samþykkt og ég réði mig sem kaupakonu á Sólbakka. Ég gegndi því starfi í nokkrar vikur á hverju ári þangað til ég var þrettán ára gömul.

Sumrin á Sólbakka eru björt í minningunni og ævintýrin voru á hverju strái. Ég aðstoðaði við húsverk, þó að símavarsla á heimili stjórnmálamannsins hafi líklega verið umfangsmesta verkefnið. Hvert svo sem verkefnið var, þá var mikið hlegið og leikið því Sigrún hafði einstakan hæfileika til að ná til barna og það var gott að vera barn í kringum hana.

Þegar ég hugsa til Sigrúnar sem fullorðin kona, þá átta ég mig á því að ásamt því að kenna mér til húsverka var hún líka að kenna mér mikilvægan lærdóm. Þegar ég fékk fréttirnar af fráfalli hennar kom upp í huga mér predikun biskupsins Michaels Currys í konunglega brúðkaupinu á Englandi helgina áður. Inntak predikunarinnar var hve ástin er kraftmikil. Sé hún beisluð á réttan hátt hefur hún máttinn til að breyta lífi fólks.

Ég veit að ég er ein af mörgum sem geta sagt að Sigrún hafi breytt lífi sínu til hins betra, með þeirri gæsku, væntumþykju og hlýju sem hún sýndi í minn garð. Hún kenndi mér mikilvægi þess að vera nærgætin, örlát, gestrisin, njóta og skemmta sér og ég mun svo sannarlega reyna að lifa lífinu eftir þeirri námskrá.

Seinasta sumar fór ég til Ísafjarðar til að hitta Sigrúnu. Það voru miklir fagnaðarfundir og hún vildi endilega bjóða mér í hádegismat í Einarshúsi. Á leiðinni þangað sagði hún við mig: „Sigga, nú skulum við sko njóta lífsins.“

Og það gerðum við svo sannarlega. Skáluðum í hvítvíni og ræddum um lífið og ástina. Að lokinni þessari samverustund okkar kvöddumst við og sögðum hvor annarri hve vænt okkur þætti hvorri um aðra.

Og nú er það okkar, að lifa lífinu í hennar anda og lýsa upp tilveruna á sama hátt fyrir aðra og hún gerði fyrir okkur.

Takk fyrir allt.

Þín kaupakona,

Sigríður Torfadóttir Tulinius.