Sterkur Ólafur Bjarki Ragnarsson lék stórt hlutverk í liði West Wien í vetur og var drjúgur við markaskorun.
Sterkur Ólafur Bjarki Ragnarsson lék stórt hlutverk í liði West Wien í vetur og var drjúgur við markaskorun. — Ljósmynd/handball-westwien.at
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Handknattleiksmaðurinn Ólafur Bjarki Ragnarsson sagði í samtali við Morgunblaðið fyrir rúmu ári þegar hann samdi við austurríska liðið West Wien að hann hefði tvö meginmarkmið þegar hann söðlaði um og yfirgæfi þýska liðið Eisenach til þess að flytjast til Vínarborgar. Annað væri að ná heilsu á ný eftir langt meiðslatímabil. Hitt væri að vinna sér sæti í íslenska landsliðinu á nýja leik eftir langa fjarveru.

Ári síðar má segja að markmiðin hafi að flestu leyti náðst. Ólafur Bjarki hefur náð góðri heilsu eftir nokkurra ára þrálát meiðsl í baki og nú æfir hann með íslenska landsliðinu sem býr sig undir leiki við landslið Litháen í undankeppni heimsmeistaramótsins. Ólafur Bjarki var að vonum glaður í bragði þegar Morgunblaðið hitti hann að máli fyrir æfingu landsliðsins í fyrradag.

„Síðasta ár hefur verið mjög gott. Ég byrjaði á núllpunkti þegar ég kom til West Wien á síðasta sumri. Eftir veruna í Þýskalandi þá var bakið á mér nánast farið, vöðvarnir voru nánast ekki fyrir hendi. Ég hafði verið sprautaður svo oft til þess að halda verkjum niðri í þeim tilgangi að ég gæti æft og leikið með liðinu. Vöðvarnir voru orðnir mjög rýrir. Endurhæfing hófst af fullum krafti undir stjórn sjúkraþjálfara og þjálfarateymis West Wien þar sem Hannes Jón Jónsson er þjálfari. Niðurstaðan af þeirri vinnu er sú að bakið hrjáði mig ekkert í vetur og ég tók þátt í öllum leikjum liðsins á keppnistímabilinu sem er mjög stór sigur fyrir mig,“ sagði Ólafur Bjarki sem hefur varla náð heilu keppnistímabili heill heilsu síðan hann lék með HK keppnistímabilið 2011/2012 þegar liðið varð Íslandsmeistari með Ólaf Bjarka í aðalhlutverki.

Upphafið má rekja til brjóskloss

Upphafið að erfiðleikum Ólafs Bjarka má rekja til brjóskloss fyrir fimm árum. Eftir að hafa gengist undir aðgerð var hann góður um skeið en síðan sótti í sama farið á ný. „Þá tók við nær endalaus sprautumeðferð sem hreif ekki nema í skamman tíma í einu. Þá má segja að ég hafi verið kominn í ákveðinn vítahring sem ég losnaði ekki út úr fyrr en á síðasta sumri þegar markvisst var farið í að byggja upp bakið á nýjan leik með æfingum samhliða breyttu mataræði.

Það var allt tekið í gegn. Líkaminn var þjálfaður frá grunni auk þess sem farið var yfir alla næringu. Ég hætti að borða kolvetnaríkan mat og strikaði út sykur og fleira og sneri mér í meiri mæli að glútenlausum mat,“ sagði Ólafur Bjarki sem venti kvæði sínu í kross um skeið en viðurkennir að hafa nú aðeins slakað á klónni. „Ég gæti mín á að missa mig ekki í eitthvert bull.“

Var lentur í vítahring

Ólafur Bjarki segir að nýliðið keppnistímabil hafi fyrir vikið verið stórskemmtilegt. Hann hafi hinsvegar verið orðinn svo leiður á stöðunni fyrir rúmu ári að hann hafi verið nærri því að hætta í handbolta. „Ég var lentur í vítahring með endalausum meiðslum og sprautum. Það virtist ekkert ljós vera fyrir enda ganganna. Leiðin út úr þessu var að fara til Hannesar og hans manna hjá West Wien og byrja frá grunni. Þar hef ég gengið í endurnýjung lífdaga, ef svo má að orði komast. Ég á Hannesi og sjúkrateymi hans mikið að þakka. Ég tók hárrétt skref. Auk þess þá er gott að búa í Austurríki með góðum samherjum hjá West Wien,“ sagði Ólafur Bjarki, sem er 29 ára gamall.

Ólafur Bjarki lék stórt hlutverk í liði West Wien sem féll út á naumasta mun í undanúrslitum um austurríska meistaratitilinn fyrir skömmu auk þess sem liðið lék til úrslita í bikarkeppninni en varð að bíta í það súra epli að tapa þeim leik með eins marks mun. Auk Hannesar Jóns þjálfara leikur Seltirningurinn Viggó Kristjánsson með West Wien.

Verðum sterkari á næstu leiktíð

„Við settum okkur háleit markmið fyrir keppnistímabilið. Þau náðust ekki en við vorum nærri þeim. Nú setjum við allt á fullt fyrir næsta tímabil. Liðið er styrkjast um þessar mundir, meðal annars með komu Guðmundar Hólmars Helgasonar frá Frakklandi. Ég sé fram á að næsta tímabil verði skemmtilegt og árangursríkt,“

Ólafur Bjarki hefur tekið þátt í einu stórmóti með íslenska landsliðinu en hann lék alla sex leikina á EM í Serbíu fyrir sex árum og skoraði þrjú mörk.

Ólafur Bjarki var valinn í landsliðið fyrir æfingamótið í Noregi í byrjun apríl en varð að draga sig úr liðinu á síðustu stundu þar sem hann varð faðir í fyrsta sinn um líkt leyti. Nú er hann hinsvegar mættur galvaskur á æfingar með landsliðinu sem býr sigur undir leikina við Litháen í undankeppni HM 8. og 13. júní. Endanlegur keppnishópur fyrir leikina hefur ekki verið valinn en það er þó altént stór sigur fyrir Ólaf Bjarka að vera í æfingahópnum.

„Ég er bara afar sáttur við að vera í hópnum. Ég mun leggja mig allan fram um að vinna mér rétt í hópnum sem leikur við Litháen,“ sagði Ólafur Bjarki Ragnarsson, handknattleiksmaður.