Afmæli Sigfríður segir að stúdentsárin hafi verið yndislegur tími. Hún er sú eina sem enn lifir úr útskriftarhópnum.
Afmæli Sigfríður segir að stúdentsárin hafi verið yndislegur tími. Hún er sú eina sem enn lifir úr útskriftarhópnum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Kvenskörungurinn Sigfríður Nieljohníusdóttir fagnaði 80 ára stúdentsafmæli sínu á útskrift Menntaskólans í Reykjavík í gær.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Kvenskörungurinn Sigfríður Nieljohníusdóttir fagnaði 80 ára stúdentsafmæli sínu á útskrift Menntaskólans í Reykjavík í gær. Sigfríður er fyrsta íslenska konan sem nær þessum áfanga en hún útskrifaðist úr MR árið 1938.

Hún þakkar föður sínum fyrir það að hafa hlotið menntun. „Pabbi var búinn að ákveða það að við systkinin skyldum mennta okkur. Hann sagði að menntun yrði aldrei tekin frá okkur en peningar gætu horfið.“

Engar stúlkur í stærðfræði

Sigfríður varð stúdent úr máladeild. „Við vorum fjörutíu í árganginum, bara strákar í stærðfræðideild en tuttugu stelpur og átta strákar í máladeild. Það var í fyrsta skipti sem það voru svona margar stelpur í menntaskólanum.“

Ástæður þess að engar stúlkur hafi útskrifast af stærðfræðibraut í þá daga segir Sigfríður einfaldar: „Talið var að stúlkur hefðu ekkert að gera í stærðfræðideild. Þeim var sagt að þær gætu ekki lært stærðfræði eða raungreinar yfirleitt. Annað hefur nú aldeilis komið á daginn.“

Menntaskólanámið nýttist Sigfríði vel. „Ég kann enn utanbókar það sem ég lærði og ég vil því meina að það sé ekkert svo vitlaust að læra utanbókar. Ég man ýmislegt úr latínunni og ég tala nú ekki um allar forsetningarnar í þýskunni,“ segir Sigfríður og telur upp þýskar forsetningar eins og ekkert sé.

Það er þó ekki einungis námið sem er Sigfríði minnisstætt úr menntaskólagöngunni. „Þetta var alveg yndislegur tími. Við vorum bara fjörutíu og vorum því eins og ein stór fjölskylda. Við héldum saman alla ævina en ég er reyndar ein eftir, hin eru fallin frá.“

Hópurinn brallaði ýmislegt saman. „Pálmi, Einar Magg og Valdimar voru alltaf að fara eitthvað á honum Grána gamla, bílnum sínum. Þeir voru alltaf tilbúnir í að fara eitthvað með okkur hin, í skíðaferðir, gönguferðir eða hvað sem var. Við þekktum vel heimilin hvert hjá öðru og vorum alltaf velkomin hvert heim til annars. Við fórum á skauta á Tjörninni og þar var oft músík og svo hittumst við gjarnan og spiluðum á kvöldin.“

Stúdentamót á Þingvöllum

Hópurinn fór í hinar ýmsu ferðir saman. „Í fimmta bekk fórum við út í Drangey og Pálmi rektor fór með okkur. Pálmi sagði okkur að vara okkur á grjóthruninu en fótabúnaður hópsins var margbreytilegur, sumir voru í strigaskóm og aðrir í skíðaklossum, það var ekkert verið að spekúlera í því,“ segir Sigfríður og hlær. „Svo fórum við líka til Þingvalla. Það var daginn eftir að við útskrifuðumst og þar var haldið stúdentamót. Við vorum á Þingvöllum yfir helgina og gistum í Valhöll. Á mánudeginum slógum við svo upp veislu á Hótel Borg.“

Vorkunn einskis nýt

Sigfríður segist ekki vorkenna þeim sem nú klára menntaskólann á þremur árum enda gerði hún það sjálf. „Maður verður að muna að vorkenna aldrei sjálfum sér því allir geta miklu meira en þeir halda. Hver einasta manneskja getur meira ef hún bara reynir.“

Sigfríður er dugleg að semja vísur og kveður eina sem hún orti til skólasystkina sinna sem hafa kvatt jarðneska tilveru.

Gakktu hægt um gleðinnar dyr,

gættu þess að engan saki,

vinir hér sem voru fyrr,

veislu halda að tjaldabaki.