Listafólk Kjartan Óskarsson, skólastjóri Menntaskóla í tónlist, og Lilja Cardew píanóstúdent.
Listafólk Kjartan Óskarsson, skólastjóri Menntaskóla í tónlist, og Lilja Cardew píanóstúdent. — Morgunblaðið/Valli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrsta brautskráning frá Menntaskóla í tónlist var nú í vikunni. Nám við skólann skapar ungu listafólki nýja möguleika til náms og starfa. Tónlist er ekki sjálfsprottin. Henni ber að sinna líkt og viðkvæmum gróðri, segir skólastjórinn.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Tónlistin er heillandi heimur og námið hér við skólann hefur opnað mér alveg nýja möguleika á þessu sviði,“ segir Lilja Cardew, píanóleikari og nýstúdent. Hún er annar tveggja nemenda sem brautskráðust með stúdentspróf síðastliðinn fimmtudag frá Menntaskóla í tónlist, en fyrsta formlega starfsári hans var nú að ljúka. Nemendur í vetur voru tvö hundruð og brautskráðir nemendur nú voru 32; af klassískri og rytmískri námsbraut og sem stúdentar.

Menntaskóli í tónlist (MÍT) varð til síðasta haust með sameiningu framhaldsdeilda Tónlistarskólans í Reykjavík og Tónlistarskóla FÍH í eina stofnun. Frumkvæðið að stofnun skólans kom á sínum tíma frá Illuga Gunnarssyni, þá menntamálaráðherra; að þeir tveir skólar sem svo lengi höfðu verið leiðandi í tónlistarmenntun rynnu saman í einn öflugan skóla á framhaldsskólastigi. Þetta gekk eftir og til varð skóli sem starfar á almennri braut og stúdentsbraut, sem hvor um sig skiptist í klassík og rytmík.

Tónlistin orðin jafnrétthá öðrum greinum

Bóknámsgreinar til stúdentsprófs eru kenndar við Menntaskólann við Hamrahlíð en tónlistargreinarnar við Skipholt og í Rauðagerði. Þetta er fyrsti tónlistarskóli landsins sem fær viðurkenningu sem framhaldsskóli og hann útskrifar líka nemendur með 150 eininga burtfararpróf á framhaldsskólastigi.

Viðkvæmur gróður

Alls starfa um 90 kennarar í 34 stöðugildum við skólann, en starfsemi hans mun þróast mikið á næstu árum. Nýjum námskeiðum verður hugsanlega bætt inn, til dæmis í viðburðastjórnun, starfsemin verður væntanlega sameinuð umdir einu þaki áður en langt um líður. Hvers kyns tónleikahald er líka snar þáttur í starfsemi skólans.

„Stóru tíðindin eru þau að núna er tónlistin orðin jafnrétthá öðrum greinum til stúdentsprófs,“ sagði Kjartan Óskarsson skólameistari í ávarpi við brautskráningarathöfnina. „Við þurfum að hlúa að hinni dýru list, eins og tónlistin hefur líka verið kölluð. Alltof margir virðast líta svo á að hún sé á einhvern hátt sjálfsprottin og það þurfi ekkert að hafa neinar áhyggjur af henni. Þetta er alrangt. Við þurfum að rækta listina af umhyggju og nærgætni og umgangast hana af virðingu,“ sagði Kjartan og ennfremur: „Tónlistarlífið á Íslandi er stór og verðmætur atvinnuvegur. Tónlistin er hins vegar viðkvæmur gróður og auðvelt að vinna á honum þau spjöll sem erfitt gæti reynst að græða.“

Í konservatoríi í París

Píanóstúdentinn Lilja Cardew, nítján ára, hóf nám í tónlistarskóla átta ára gömul. Strax eftir grunnskóla komst hún inn í konservatoríið CRR de Paris og stundaði þar einleikaranám, jafnhliða því að vera í fjarnámi í ýmsum bóklegum greinum við Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Lilja sneri svo heim í fyrra þegar starfsemi MÍT hófst og stúdentsprófið tekur hún með 229 námseiningum.

„Það er ómetanlegt að tónlistarnámið skuli nú loksins vera metið í framhalds- og háskólum. Núna stefni ég á Listaháskóla Íslands og ætti að geta verið komin með BA-gráðu eftir eitt og hálft ár og þar hefur Parísarnámið mikið að segja,“ segir Lilja sem hefur leikið við fjölmörg opinber tilefni. Þar má nefna ótal skólatónleika, einleik í píanókonsert eftir Haydn með Sinfóníuhjómsveit Íslands fyrir nokkrum árum, hún er undirleikari Skólakórs Kársness og svo mætti lengi áfram telja. Tækifærin eru í tónlistinni.