Kranar Hagstofan spáir hagvexti á bilinu 2,5-2,7% til ársins 2023.
Kranar Hagstofan spáir hagvexti á bilinu 2,5-2,7% til ársins 2023. — Morgunblaðið/Ómar
Hagstofa Íslands spáir 2,9% hagvexti í ár og 2,7% á næsta ári í nýrri þjóðhagsspá sem gefin var út í gær.

Hagstofa Íslands spáir 2,9% hagvexti í ár og 2,7% á næsta ári í nýrri þjóðhagsspá sem gefin var út í gær. Þetta er nokkru minni hagvöxtur en spáð var í peningamálaskýrslu Seðlabankans sem út kom fyrir hálfum mánuði, þar sem gert var ráð fyrir 3,3% hagvexti í ár og 3,0% á næsta ári. Landsbankinn birti í fyrradag spá um 4,1% hagvöxt í ár en hins vegar spáði Íslandsbanki 2,6% hagvexti í nýlegri þjóðhagsspá.

Hagstofan gerir ráð fyrir að einkaneysla aukist um 5,3% í ár, samneysla um 2,5% og fjárfesting um 3,2%. Telur Hagstofan að aukning einkaneyslu verði kröftug næstu tvö árin en það dragi svo úr henni þegar hægi á umsvifum í hagkerfinu. Horfur séu á töluverðum vexti í íbúðafjárfestingum og opinberum fjárfestingum á næstunni en á móti muni vega samdráttur fjárfestingar tengdur stóriðju.

Í þjóðhagsspánni eru horfur á að utanríkisviðskipti dragi úr hagvexti næstu þrjú ár líkt og þau hafa gert á síðustu árum. Gert er ráð fyrir minni útflutningi í ár en í síðustu spá Hagstofunnar sem rekja má til meiri óvissu um horfur í ferðaþjónustu. Á móti minni vexti í ferðaþjónustu á næstu árum vegur meiri aukning útfluttra sjávarafurða en áður var gert ráð fyrir.

Á árunum 2020 til 2023 spáir Hagstofan hagvexti á bilinu 2,5-2,7%. Spáin byggist á því að aukning einkaneyslu verði á bilinu 2,5-3,1%, vöxtur samneyslu verði rúmlega 1,8% og aukning fjárfestingar verði að meðaltali um 2,8% á tímabilinu.

Gert er ráð fyrir að verðbólga verði um 2,7% að meðaltali í ár en 2,9% á næsta ári. Eftir því sem spenna minnkar í hagkerfinu gerir Hagstofan ráð fyrir að verðbólga hjaðni og verði í kringum 2,5% undir lok spátímans.