Fjölbreytt starf KFUM og K fór fram í Frón, Vesturgötu 35. Hér eru um 70 sunnudagaskólabörn með séra Friðriki. Fullorðna fólkið á myndinni frá vinstri: Geirlaugur Árnason söngstjóri, Ingvi Guðmundsson leiðbeinandi, Sverrir Sverrisson kennari, séra Friðrik, Kristrún Ólafsdóttir í Frón og Jóna Bjarnadóttir á Ólafsvöllum. Myndin er tekin árið 1947
Fjölbreytt starf KFUM og K fór fram í Frón, Vesturgötu 35. Hér eru um 70 sunnudagaskólabörn með séra Friðriki. Fullorðna fólkið á myndinni frá vinstri: Geirlaugur Árnason söngstjóri, Ingvi Guðmundsson leiðbeinandi, Sverrir Sverrisson kennari, séra Friðrik, Kristrún Ólafsdóttir í Frón og Jóna Bjarnadóttir á Ólafsvöllum. Myndin er tekin árið 1947 — Myndin/Bjarni Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ásmund Ólafsson: "Séra Friðrik leit jafnan á Akranes sem sinn heimabæ, enda dvaldi hann hér löngum stundum við að byggja upp sitt áhrifamikla starf."

Akurnesingar, eins og aðrir landsmenn, minnast séra Friðriks Friðrikssonar sem eins mikilvægasta æskulýðsleiðtoga þjóðarinnar, bæði fyrr og síðar.

Séra Friðrik leit jafnan á Akranes sem sinn heimabæ, enda dvaldi hann hér löngum stundum við að byggja upp sitt áhrifamikla starf; einnig við að efla hin góðu tengsl sem hann hafði myndað við æskufólkið, og reyndar heimamenn alla. Minnast eldri Akurnesingar hans með þökkum og hlýhug.

Einnig kom það sér vel að Vatnaskógur, hans veigamikla hugsjónasetur, var skammt undan í Svínadal í Hvalfjarðarsveit en þangað leitaði hann reglulega og þar dvaldi hann meira og minna á sumrin meðal skógarmanna KFUM, hugsjónasamtaka sem hann hafði komið á fót hér á landi eftir veru sína og þroskaferil á erlendri grundu.

Séra Friðrik lagði á það ríka áherslu að unga fólkið ástundaði heiðarleika og réttlæti bæði í leik og starfi, og tók siðaboðskapur hans mið af kristilegu hugarfari, sem hann vildi efla meðal ungmenna þessa lands.

Upphaf fótboltans á Akranesi

Guðmundur Sveinbjörnsson, einn af stofnendum Kára, fyrsta knattspyrnufélagsins á Akranesi, var um áratugaskeið í forystu íþróttamála á Akranesi. Hann sat í stjórn KSÍ frá stofnun árið 1947 í 20 ár. Guðmundur skrifar árið 1947 í 25 ára afmælisblað félagsins:

„Það má segja, að sérhvað hafi sína forsögu og að atburðaröðin sé til orðin vegna einhvers, sem á undan er gengið. Árið 1922 komu tíu ungir piltar saman til þess að stofna knattspyrnufélagið Kára. Er hægt að segja, að forsaga þessarar félagsstofnunar sé til orðin vegna hversdagslegs atviks. Séra Friðrik Friðriksson, einn besti félagi unga fólksins hélt barnasamkomu í kirkjunni hér á Akranesi og talaði um knattspyrnufélagið Val, starf þess og tilgang. Ég sem stofnandi Kára held því hiklaust fram að þessi samkoma séra Friðriks og sá eldmóður og skilningur á barnssálinni sem fram kom hjá honum eins og alltaf hefur verið hans einkenni, sé forsagan að stofnun Kára.“

Heiðursborgarakjör

Hinn 1. mars árið 1947 voru tveir af bestu sonum Akraness, þeir Ólafur Finsen, fyrrverandi héraðslæknir, og séra Friðrik Friðriksson æskulýðsleiðtogi, kjörnir heiðursborgarar bæjarins. Hafði aðeins einum manni hlotnast sá heiður, en það var árið 1939 að hinn kunni sjósóknari Einar Ingjaldsson á Bakka var kjörinn heiðursborgari. Forseti bæjarstjórnar, Ólafur B. Björnsson ritstjóri, hafði orð fyrir bæjarstjórn Akraness, og eftir að hafa ávarpað Ólaf Finsen beindi hann orðum sínum til séra Friðriks og sagði m.a.: „Í tilefni af 35 ára starfsafmæli KFUM á Akranesi, fyrir bein og óbein áhrif þín og handleiðslu æskunnar hér á þessu tímabili, vill bæjarstjórnin sýna þér vott virðingar og þakklætis, með því að sæma þig þeim mesta heiðri sem hún á yfir að ráða, og kýs þig hér með sem heiðursborgara bæjarins. Af sama tilefni hefur bæjarstjórnin og ákveðið að skíra barnaleikvöll í miðbænum „Séra Friðriks völl“.

Um leið og ég þakka þér fyrir hönd bæjarstjórnarinnar og bæjarfélagsins, þitt mikilvæga starf á þessum liðnu 35 árum, óska ég þér innilega til hamingju með þann heiður og sæmd sem þér hefur hlotnast í þessu kjöri.“

Séra Friðrik markaði djúp og varanleg spor í sálarlíf unga fólksins á Akranesi. Þá hafði hann einnig mikil áhrif á þróun íþrótta í bænum, og þá sérstaklega fótboltans, eins og áður hefur komið fram. Á þessum árum komu fram drengir séra Friðriks, sem áttu eftir að gera garðinn frægan, og skal fyrstan telja Ríkharð Jónsson, frægasta knattspyrnumann þjóðarinnar, en hann ólst upp í næsta húsi við Frón, þar sem höfuðstöðvar KFUM voru. Séra Friðrik gerði sér fljótt grein fyrir fjölbreyttum hæfileikum Ríkharðs og taldi líklegt að hann yrði prestur, en hann orti:

Ríkharður á Reynistað

reynist drengja bestur.

Undra mig eigi þyrfti það

þótt'ann yrði prestur.

Höfundur er fv. framkvæmdastjóri Dvalarheimilisins Höfða á Akranesi og Skógarmaður KFUM.