Merkingarþrungnir „Textar Loga eru einlægir, einfaldir og aðgengilegir en þeir eru jafnframt merkingarþrungnir og það er einmitt þar sem hann tekur skrefið út fyrir þægindarammann – sinn eigin og jafnvel hlustandans,“ segir pistilritari m.a. um nýútkomna plötu Loga Pedros Stefánssonar.
Merkingarþrungnir „Textar Loga eru einlægir, einfaldir og aðgengilegir en þeir eru jafnframt merkingarþrungnir og það er einmitt þar sem hann tekur skrefið út fyrir þægindarammann – sinn eigin og jafnvel hlustandans,“ segir pistilritari m.a. um nýútkomna plötu Loga Pedros Stefánssonar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Logi Pedro Stefánsson gaf á dögunum út fyrstu sólóplötu sína, Litlir svartir strákar. Logi steig fyrst fram á sjónarsvið íslenskrar tónlistar sem meðlimur hinnar sálugu Retro Stefson, þá varla skriðinn á táningsaldur.

Logi Pedro Stefánsson gaf á dögunum út fyrstu sólóplötu sína, Litlir svartir strákar. Logi steig fyrst fram á sjónarsvið íslenskrar tónlistar sem meðlimur hinnar sálugu Retro Stefson, þá varla skriðinn á táningsaldur. Síðan þá hefur hann getið sér gott orð sem einn virtasti pródúsent sinnar kynslóðar og fyrir leik með hljómsveitum á borð við Sturla Atlas og Young Karin.

Af tónlist

Anna Marsibil Clausen

annamarsy@mbl.is

Þau eru merkileg, hugrenningatengslin sem titill fyrstu einfaraskífu Loga Pedro kalla fram. Íslensk menningararfleifð á eftir allt ekki margt annað efni að sækja í þegar kemur að „litlum svörtum strákum“ en vísnabókina 10 litlir negrastrákar sem skartar rasískum skopstælingum af þeldökkum drengjum sem deyja einn af öðrum. Samanburðinum lýkur þar; þótt dauðinn komi vissulega fyrir á Litlum svörtum strákum er yrkisefni Loga fyrst og fremst lífið. Og þó.

Platan er vissulega sólóverkefni en þar koma samt ýmsir aðrir við sögu, bæði í eigin persónu og á bak við tjöldin. Má þar nefna eins ólíka listamenn og Króla, GDRN og Skítamóral, auk þess sem lagið „Fjara út“ virðist nánast alfarið úr smiðju Arnars Inga Ingasonar, eins af samverkamönnum Loga úr Sturlu Atlas. Merking hugtaksins „sóló“ er þannig teygjanleg, eins og raunar er nánast gefið í þeim R&B/popp-stíl sem Logi vinnur með, en slík samvinna hefur hlotið aukið vægi og virðingu á síðustu árum. Þá hefur Logi einnig gefið út að í raun eigi sjö mánaða sonur hans, Bjartur Esteban Pedro, jafnmikið í plötunni og hann sjálfur sökum þeirra andlegu tímamóta sem fæðing hans knúði fram.

Vaknað á dansgólfinu

Svo aftur sé snögglega vikið að fyrrnefndri vísnabók, þá rokseldist sú við endurútgáfu árið 2007, umheiminum til svo mikillar furðu að þess er víða getið í umfjöllunum um upprunalega lagið, „10 Little Indians“, sem rekur rætur sínar til Bandaríkjanna. Íslendingar eru nefnilega ekki alltaf jafn „vakandi“ þjóð og við viljum vera láta.

Þegar „n-orðið“ svonefnda – eins konar Voldemort enskrar tungu – hljómar úr hátölurunum á B5 syngur pappírshvítur skarinn almennt með hástöfum og án umhugsunar. Eins mun hann taka undir „Litlir svartir strákar gráta af innlifun“ og kannski er það allt í lagi. Á þessu tvennu er stór stigsmunur en meðvitundarlaus söngurinn mun kannski segja eitthvað. Eitthvað sem við nennum samt ekki að heyra. Það er ekki þægilegt að þurfa alltaf að hugsa allt.

Litlir svartir strákar er aftur á móti nokkuð þægileg. Söngrödd Loga er þýð og oft næstum brosmild, sem er áhugavert í ljósi þess hve alvarlegur ungur maður hann annars virðist. Melódíurnar eru kunnuglegar og auðvelt er að grípa flest viðlögin. Lagasmíðarnar eru í grunninn lausar við tilgerð en jafnframt er lítið um tilraunastarfsemi svo útkoman verður nokkuð örugg og útvarpsvæn – draumkennt dægurflugudjamm. Pródúseringin er hins vegar full metnaðar og vinnusemi og þar skína hæfileikar Loga skærast, í gegnum nostur með ris og fall, óvænt hljóð og effekta sem meðalhlustandinn, þar á meðal undirrituð, meðtekur aðallega ómeðvitað þar til fagmaður réttir fram vísifingur.

Auk „Dúfan mín“ (ft. Birnir), sem nú þegar hefur sankað að sér hundruðum þúsunda spilana á Spotify, og titillagsins má gera ráð fyrir að þorri plötunnar muni rata á dansgólf borgarinnar í einhverju formi. Þar má kannski sérstaklega nefna „Leit'að“ (ft. Króli) sem er sérlega grípandi og lokalagið „Tíma“ (ft. Floni, Birnir) þar sem reggaeton-takturinn leitar beint í mjaðmirnar.

Þegar gleðin víkur fyrir textum

En þótt lögin séu mörg hver dansvæn og einkar vel til þess fallin að syngja með í hugsunarleysi í því sem maður skellir í sig einum mangó-tangó í von um sleik og meððí má einnig staldra við og hlusta á orðin sem prýða þau. Þau sóma sér nefnilega alveg jafnvel á klístruðum skemmtistað eða í miðbæjarpartíi og í botni í grátbíltúr, með rúðurnar niðri og barnshjartað í lúkunum.

Textar Loga eru einlægir, einfaldir og aðgengilegir en þeir eru jafnframt merkingarþrungnir og það er einmitt þar sem hann tekur skrefið út fyrir þægindarammann – sinn eigin og jafnvel hlustandans.

„Leyfðu mér að leysast upp – lofa mér að hverfa“ syngur hann á Litlum svörtum strákum og slær tóninn fyrir umræðu sem tekur jafnt til hjartasorgar sem djúpstæðs þunglyndis. Þannig ráfar „Betra líf“ frá skammvinnri en þýðingarmikilli sumarást yfir í frjálst fall:

„Út í nóttina, út í bláinn.

Kveikið á kerti, ég verð dáinn

og svo kemur betra líf.“

Sömuleiðis er auðvelt að hlusta aðeins eftir ljúfum tónum „Dúfunnar minnar“ – velja rómantíska hugarangrið fram yfir það ógnvænlega. Þegar Logi syngur um „þúsund litlar fiðlur til að grenja við“ vísar hann sjálfur í þá eitruðu karlmennsku sem bannar tilfinningar með því að gera lítið úr eigin sársauka eitt augnablik. Augnablikið er skammlíft.

„Ég hugsa ég gæti drepið mig,

mér líður best hér þegar sólin sest ekki/ Mun þessi vetur loks

krossfesta mig/ Gera mig að

legendi.“

Hversu margir listamenn hafa ekki orðið ódauðlegir einmitt við það að deyja?

Persónulegt samfélagsmein

Logi hefur tjáð sig á samfélagsmiðlum um þær sjálfsvígshugleiðingar sem ásóttu hann uns hann fékk viðeigandi aðstoð. Þær eru um margt rauður þráður í gegnum Litla svarta stráka , sem fjallar, þegar upp er staðið, mest um það að vera „lítill“.

Þunglyndi og innri átök eru ekki nýtt yrkisefni, hvorki á Íslandi né úti í hinum stóra poppheimi. Titill nýlegs stórsmells rapparans Logic er t.d. símanúmer hjálparlínu gegn sjálfsvígum (sambærilegt númer fyrir Ísland er 1717). Hér heima hafa svo ýmsir rapparar, og þá einna helst Gísli Pálmi, tekið fyrir fíknivanda og andleg áhrif hans.

Eins mikilvæg og sú umræða er þá nær hún aðeins til afmarkaðs hóps. Skammdegisþunglyndi er aftur á móti einmanalegasta samíslenska náttúruaflið, nokkuð sem við þekkjum öll í mismiklum mæli. Váin virðist þó sérlega slæm þegar kemur að jafningjum Loga, en sjálfsvíg voru algengasta dánarorsök ungra karlmanna á síðasta ári. Þeir textar sem snúa að þeim tilfinningum eru þannig persónulegir, en segja samt breiðari sögu, sögu sem getur kannski skipt sköpum í eyru sem finna til einsemdar.

Litlir svartir strákar verður rifin niður af þeim sem hatast við rjómakenndan poppmeginstrauminn og upphafin af þeim sem þrá meiri grípandi, dansvæna íslenska tónlist. Eins verða einhverjir sem velta fyrir sér hversu sannur Logi er í tjáningu sinni, enda oft grunnt á náunga-skeptíkinni í fámennu samfélagi. En allir þeir sem vonast eftir að fleiri ungir menn læri að tala um tilfinningar sínar ættu að fagna, á dansgólfum, í hipsterapartíum og í bíltúrum.