Á einum degi var ég því orðinn sérfræðingur í fiskeldi á Íslandi, byggðaþróun í Bíldudal og orðinn svo gott sem starfandi sigmaður hjá Landhelgisgæslunni.

Síðustu eina og hálfa viku hef ég orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vinna að sjómannadagssérblaðinu sem kom út með Morgunblaðinu í gær. Verkefnið var nokkuð krefjandi þar sem mín mesta tenging við sjóinn hefur hingað til verið rauðspretta í raspi með miklu remúlaði. Það þýddi þó ekki að láta verkefnið sitja á hakanum því á stuttum tíma var ég kominn með nokkrar greinar og viðtöl sem skila átti degi seinna. Á einum degi var ég því orðinn sérfræðingur í fiskeldi á Íslandi, byggðaþróun í Bíldudal og orðinn svo gott sem starfandi sigmaður hjá Landhelgisgæslunni. Að minnsta kosti þótti mér það.

Þannig leið svo vikan. Ég fékk á borðið ný viðfangsefni sem tengdust sjómennskunni á einhvern hátt og á hverjum degi fann ég hvernig sjómanninum innra með mér óx ásmegin. Mér varð hugsað til atriðanna sem sýnd voru í sjónvarpsþættinum Hásetar og fljótlega var ég farinn að lifa og hrærast sem togarasjómaður, ennþá við skrifborðið í Hádegismóum. Á nóttunni dreymdi mig káetuna og útsýnið út um kýraugað.

Eins og áður segir kom blaðið út í gærmorgun og sjómaðurinn á ennþá hug minn og hjarta allt. Nú klæðist ég eingöngu kaðlapeysum og sjóstökkum og á eftir ætla ég að kaupa mér pípu og Fisherman's Friend- hálsbrjóstsykur. Á morgun, þegar sjálfur sjómannadagurinn gengur í garð, mun ég sennilega láta slag standa og fara niður á höfn. Það er aldrei að vita nema ég stígi jafnvel upp í skip og fái einhvern til að kenna mér að slá úr pönnum. Þá lýkur þessu nú samt.

Næst kemur bílablaðið út og þá kaupi ég mér grifflur og reykspóla á Corvettu. Síðan kemur jólablaðið og áður en ég veit af verður forfallni dellukallinn ég farinn að reykja pípu og slægja ýsu aftur, þó bara í huganum.

Teitur Gissurarson teitur@mbl.is