[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Haraldur Franklín Magnús atvinnukylfingur hafnaði í 16. sæti á Jyske-Bank-meistaramótinu sem lauk í Silkeborg í gær en það er hluti af Nordic Golf-mótaröðinni. Haraldur lék lokahringinn á einu höggi yfir pari og var samtals á fimm höggum undir pari.

* Haraldur Franklín Magnús atvinnukylfingur hafnaði í 16. sæti á Jyske-Bank-meistaramótinu sem lauk í Silkeborg í gær en það er hluti af Nordic Golf-mótaröðinni. Haraldur lék lokahringinn á einu höggi yfir pari og var samtals á fimm höggum undir pari. Ólafur Björn Loftsson lék á tveimur höggum yfir pari í gær og endaði í 34. sæti á einu höggi undir pari.

*Handknattleiksmarkvörðurinn Katrín Ósk Magnúsdóttir hefur samið við Selfyssinga til eins árs. Katrín lék með Selfossliðinu frá 2013 til 2017 en tók sér frí á síðasta tímabili þar sem hún stundaði nám í Danmörku.

*Enska félagið Leeds United rak enn einn knattspyrnustjórann í gær en Paul Heckingbottom var þá sagt upp eftir fjóra mánuði í starfi. Þar með er Leeds að leita að sínum þrettánda stjóra á aðeins sex árum. Leeds hafnaði í þrettánda sæti B-deildarinnar ensku í vetur.

* Mathew Leckie , leikmaður Herthu Berlín í Þýskalandi, skoraði tvö mörk fyrir ástralska landsliðið í knattspyrnu þegar það vann stórsigur á Tékkum, 4:0, í vináttulandsleik í St. Pölten í Austurríki í gær. Ástralar búa sig undir HM í Rússlandi og mæta Ungverjum áður en þeir halda til Rússlands þar sem þeir leika gegn Frökkum í fyrsta leik sínum á HM 16. júní.

*Franski handknattleiksmaðurinn Daniel Narcisse lék síðasta leikinn á ferlinum í fyrrakvöld þegar París SG tryggði sér franska meistaratitilinn í lokaumferð 1. deildarinnar þar í landi. Narcisse, sem er 38 ára, er einn sigursælasti leikmaður handboltasögunnar, fjórfaldur heimsmeistari, þrefaldur Evrópumeistari og tvöfaldur ólympíumeistari með franska landsliðinu. Þá vann hann fjölda titla með París SG, Kiel, Chambéry og Gummersbach á tuttugu ára ferli í félagsliðum. Narcisse skoraði 943 mörk í 311 landsleikjum með Frökkum.