Varnir Gagnflaugar THAAD geta grandað kjarnavopnum í mikilli hæð.
Varnir Gagnflaugar THAAD geta grandað kjarnavopnum í mikilli hæð. — AFP
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Innan Bandaríkjahers er til skoðunar að setja upp öflugt eldflaugavarnarkerfi innan landamæra Þýskalands, en tilgangur þess er að styrkja varnir Evrópu.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Innan Bandaríkjahers er til skoðunar að setja upp öflugt eldflaugavarnarkerfi innan landamæra Þýskalands, en tilgangur þess er að styrkja varnir Evrópu. Hefur fréttastofa Reuters þetta eftir tveimur heimildarmönnum innan Bandaríkjahers. Verði af uppsetningu kerfisins mun það vafalaust valda miklum titringi meðal ráðamanna í Kreml.

Er um að ræða svonefnt THAAD-háloftavarnarkerfi sem grandað getur kjarnaflaugum í mikilli hæð. Hafa Bandaríkjamenn meðal annars sett upp THAAD-kerfi á eyjunni Gvam í Kyrrahafi, Havaí og Suður-Kóreu vegna þeirrar miklu spennu sem ríkt hefur á Kóreuskaga að undanförnu.

Yfirstjórn bandaríska heraflans í Evrópu hefur lengi talað fyrir uppsetningu THAAD-gagnflauga í álfunni. En nú þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur dregið land sitt út úr kjarnorkusamningnum við klerkastjórnina í Íran segja sérfræðingar í öryggis- og varnarmálum þörf á gagnflaugakerfi í Evrópu.

Íranar hafa þróað meðaldrægar eldflaugar, svonefndar Shahab-3 og Sejil, sem draga um 2.000 km og geta borið kjarnaodda. Með flaugunum væri hægt að gera árás á skotmörk í suðurhluta Evrópu. Þá hafa Íranar sagst munu auka drægni flauga sinna, verði þeim ógnað en drægnin er einungis takmörkuð af regluverki – ekki skorti á tæknigetu.

Vaxandi þörf á vörnum

Yfirmaður í þýska hernum segir þörf á bættu radarkerfi í Evrópu svo hægt sé að fylgjast með hugsanlegum ferðum óvinarins og virkja eldflaugavarnir í tíma gerist þess þörf. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, Pentagon, segir engar endanlegar ákvarðanir hafa verið teknar.

„Sem stendur er ekki búið að taka neinar ákvarðanir um uppsetningu THAAD-kerfisins í Þýskalandi. „Við ræðum ekki mögulegar aðgerðir hersins fram í tímann því við viljum ekki auglýsa vilja okkar fyrir hugsanlegum andstæðingum. Þýskaland er í hópi okkar nánustu vina og sterkustu bandamanna,“ hefur Reuters eftir talsmanni ráðuneytisins.

Þörfin fyrir THAAD-kerfi í Evrópu hefur einnig aukist að undanförnu í kjölfar versnandi samskipta vesturvelda við Rússland. Verði kerfið sett upp í Þýskalandi er talið líklegt að það verði á Ramstein-herflugvellinum. „Þetta yrðu skýr pólitísk skilaboð til Evrópubúa um að við erum staðráðnir í að vernda okkar bandamenn,“ hefur Reuters eftir bandaríska hershöfðingjanum Curtis Scaparrotti, yfirmanni Evrópuherstjórnar NATO.