Inúítinn kominn út á hálan ís á leið á barinn.
Inúítinn kominn út á hálan ís á leið á barinn. — Morgunblaðið/RAX
Fyrir sléttum tuttugu árum, 3. júní 1998, sagði Morgunblaðið frá því að ísbar hefði verið komið fyrir á Jökulsárlóni.

Fyrir sléttum tuttugu árum, 3. júní 1998, sagði Morgunblaðið frá því að ísbar hefði verið komið fyrir á Jökulsárlóni.

Vegfarendur við lónið hafa sjálfsagt rekið upp stór augu en barinn var þó hvorki opinn almenningi né kominn til að vera heldur var hann settur upp tímabundið fyrir auglýsingu á drykknum „asna“ sem fyrirtækið Smirnoff framleiddi. Auglýsinguna átti að frumsýna á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem hófst í júní 1998.

Kvikmyndasmiðjan sá um framkvæmdina hér á landi en auglýsingin var framleidd af grísku fyrirtæki.

Í fréttinni kemur fram að hugmyndin hafi verið að taka upp á svæði sem líktist heimskautasvæði og Jökulsárlónið hafi hentað mjög vel til þess.

Í auglýsingunni var inúíti á veiðum þegar hann heyrði skyndilega hljóð og sá barstóla rísa upp úr sjónum. Þá dreif að mörgæsir sem breyttust síðan í flöskur með fyrrnefndum drykk. Inúítinn stóðst ekki mátið og kallaði til konu sinnar, sem slóst í hópinn.