[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur Jóhann Ólafsson er einn af okkar töframönnum. Nýjasta skáldsaga hans Sakramentið segir m.a. af konu sem stendur frammi fyrir þeirri vægðarlausu tilfinningu að líf hennar hafi verið á misskilningi byggt.

Ólafur Jóhann Ólafsson er einn af okkar töframönnum. Nýjasta skáldsaga hans Sakramentið segir m.a. af konu sem stendur frammi fyrir þeirri vægðarlausu tilfinningu að líf hennar hafi verið á misskilningi byggt. Ég skal ekki upplýsa neitt meira um efni bókarinnar, en bið ykkur, góðir lesendur, að staldra við margan snilldarsprettinn í stíl og framsetningu. Aðeins eitt dæmi (bls. 265):

„Sumarnóttin. Birtan virðist hvorki koma úr austri né vestri heldur leggst hún yfir landið eins og voð, hlý en af öðrum toga en sólarljósið, hvorki skær né dauf, næstum áþreifanleg. Fjarlægðir hverfa og allt fær annarlegan blæ, meira að segja hendurnar á mér þar sem ég sit við gluggann í flugrútunni. Það er eins og ég sé að horfa á þær ofan í vatni.“

Og svo langar mig að vísa á bls. 300, um svartþröstinn í náttleysunni og öldur gleymskunnar. Þarna eru töfrandi leiftur sem ég bið ykkur að verða vitni að.

Og í framhaldi af þessu: „Óbrigðul smekkvísi dregur skarpa línu milli þess, sem má segjast, og hins sem á að vera ósagt.“ Eiríkur Jónsson (1920-2009) rétti mér eitt sinn seðil með þessum orðum Einars Benediktssonar sem sá síðarnefndi hafði skrifað í Skírni árið 1922 (bls. 127). Eiríkur Jónsson var stærðfræðikennari við Menntaskólann á Laugarvatni og síðar lektor við Kennaraháskólann. Í frístundum var hann bókmenntamaður, hafði legið yfir bókum og tímaritum allt frá bernskuárunum á Prestbakka og virtist muna allt sem hann hafði lesið. Hann skrifaði stórmerkt rit um Íslandsklukku Halldórs Laxness ( Rætur Íslandsklukkunnar 1981) og sýndi þar hvernig Laxness hafði notfært sér eldri texta og sett í nýtt samhengi. Margir móðguðust fyrir Kiljans hönd en ekki þó hann sjálfur. Það var sárt að Eiríkur skyldi ekki fá verk sitt metið til doktorsgráðu, en það er önnur saga. Eiríkur vann einnig þrekvirki, ásamt þeim Ásgeiri S. Björnssyni lektor og Einari Arnalds sagnfræðingi, með skrá í tveimur bindum yfir mannanöfn, staðanöfn og atriðisorð í Íslenskum annálum ; þetta er lykill að sögu Íslands á tímabilinu 1400 til 1800.

Og nú að málfræði: Halldór Briem var undanfari Björns Guðfinnssonar að því leyti að málfræðikennslubók hans var margútgefin og lesin í öllum skólum. Halldór Briem skipti atviksorðum í níu flokka. Fimmta flokkinn kallaði hann „orsakaratviksorð“ (bls. 76 í 6. útg. 1932). Á efri árum sínum mundi Eiríkur Briem, forstjóri Landsvirkjunar, enn atviksorðarununa í þeim flokki og orti um hana þessa vísu:

Atviks- í flokki orðin sér

einni í runu skemmta mér:

þess vegna, hvers vegna, hví

hrynjandin líklega veldur því.

Svona fylgir málfræðin okkur alla ævi og getur orðið kveikja að indælum skáldskap.

Nú eru atviksorð flokkuð á annan veg. En það skiptir ekki máli, heldur hitt – að málfræðingar reyna að koma böndum á viðfangsefni sitt á hverjum tíma.

Baldur Hafstað bhafstad@hi.is