Af hverju þarf að flokka nöfn eftir kynjum?
Af hverju þarf að flokka nöfn eftir kynjum? — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigríður bóndi á að sjálfsögðu að andmæla þessum ólögum og fara lengra með málið. Kyn hans á ekki að þurfa að hindra hann í að heita Sigríður.

Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama, stendur í lögum um mannanöfn. Bóndinn Sigurður Hlynur Snæbjörnsson er eflaust fær um að ákveða sjálfur hvort nafn hans er honum til ama, enda er hann fyrir löngu orðinn sjálfráða. Þó er honum ekki treyst fyrir nafninu sem hann vill helst bera. Hann má ekki heita Sigríður.

Reyndar er Sigurði, sem við skulum hér eftir kalla Sigríði, ekki neitað á grundvelli áðurnefndrar lagagreinar, þótt hún sé talin upp í bréfi sem honum var sent og hefur verið birt víða á vefmiðlum, heldur er honum neitað um nafnið vegna þess að „stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn“ eins og stendur á öðrum stað í lögunum.

Sigríður vill heita því nafni í höfuðið á ömmu sinni en fær það ekki því hann er víst ekki stúlka. Og Sigríður er víst kvenmannsnafn og hæfir aðeins stúlkum að mati stjórnvalda.

Þetta mál Sigríðar vekur ótal spurningar og varpar í raun enn nýju ljósi á fáránleika þess að til séu sérstök, og frekar ströng, lög yfir mannanöfn. Hvað með rétt fólks til að skilgreina kyn sitt eftir sinni upplifun? Í tilviki áðurnefndrar Sigríðar þá snýst umsókn hans um nafnabreytingu reyndar alls ekki um kyn nafnberans, þ.e. þótt hann vilji sannarlega heita Sigríður hefur hann engan áhuga á að vera kona. Karlinn Sigríður er sáttur við það kyn sem honum var úthlutað við fæðingu. En nafni sínu vill hann fá að breyta. Íslensk stjórnvöld taka það hins vegar upp á sína arma að úthluta fólki samþykktum nöfnum og vilja flokka þau og skilgreina eftir kyni. Öllum nöfnun er úthlutað sérstöku kyni og svo þarf fólk að gjöra svo vel að passa inn í nafna- og kynjakerfið.

Stjórnarskráin segir að ekki megi mismuna fólki eftir kyni. Hvers vegna sættum við okkur þá við að hægt sé að segja Sigurði að hann fái ekki að taka nafnið Sigríður? Nafnið uppfyllir öll önnur viðmið sem sett eru. Það er gott og gilt nafn, engum til ama og fellur vel að beygingarkerfi.

Sigríður bóndi á að sjálfsögðu að andmæla þessum ólögum og fara lengra með málið. Kyn hans á ekki að hindra hann í að heita Sigríður. Hann á jafnmikinn rétt á þessu nafni og hver annar, burtséð frá kyni. Fyrir þeim augljósu réttindum ættu allir Sigurðar og Sigríðar þessa lands að berjast.