Undirritun Bjarni Benediktsson og Heimir Fannar Gunnlaugsson.
Undirritun Bjarni Benediktsson og Heimir Fannar Gunnlaugsson. — Ljósmynd/Hörður Sveinsson
„Þetta er fyrsti samningur sinnar tegundar í heiminum,“ segir Heimir Fannar Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi. Íslenska ríkið og Microsoft gerðu í gær með sér heildarsamning um kaup á hugbúnaði.

„Þetta er fyrsti samningur sinnar tegundar í heiminum,“ segir Heimir Fannar Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi.

Íslenska ríkið og Microsoft gerðu í gær með sér heildarsamning um kaup á hugbúnaði. Íslenskunni verður gert hátt undir höfði í kjölfar þessa; hægt verður að þýða texta á íslensku yfir á sextíu önnur tungumál og stefnt er að því að láta hugbúnaðinn skilja íslensku. Microsoft mun auk þess forgangsraða íslenskri talvél framar.

„Með þessum samningi fær ríkið aðgang að samskonar hugbúnaði fyrir allar sínar stofnanir, 164 talsins. Þetta teljum við mikið framfaraskref, til að mynda hvað varðar samvinnu og samskipti milli stofnana,“ segir Heimir Fannar í samtali við Morgunblaðið. Samningurinn felur í sér aðgengi ríkisstofnana að nýjustu útgáfu Office 365 hugbúnaðarpakkans, sem inniheldur meðal annars Word, Excel, hópvinnukerfi og póstkerfi.

Í júní verða liðin 20 ár síðan þáverandi menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, ritaði Microsoft bréf og hóf þá vegferð að fá Microsoft Office og Windows þýtt yfir á íslensku. „Síðan höfum við náð sífellt lengra og lengra við að tryggja íslenskunni sess í hinum stafræna heimi. Það skiptir okkur miklu máli að geta boðið upp á Windows 10 stýrikerfið og allan lykilhugbúnað okkar á íslensku,“ segir Heimir Fannar.

Nýjasta viðbótin, að hægt sé að þýða texta á íslensku yfir á 60 tungumál í Word, felur í sér gríðarlega hagræðingu og tækifæri að mati Heimis. „Þarna geturðu tekið heilt skjal, til dæmis samninga, og þýtt yfir á fjölda tungumála. Þessi þjónusta mun svo alltaf batna eftir því sem við notum hana meira, enda er gervigreind að baki.“

Samningurinn er til þriggja ára og hleypur á hundruðum milljóna króna. „Þetta skapar ríkinu hagræðingu upp á að minnsta kosti 200 milljónir króna á ári. Þarna er gerður samningur um allar stofnanir í stað 164 mögulegra samninga og í ljósi stærðarinnar fær ríkið mjög hagstæðan samning. Hann er á pari við þá sem miklu stærri ríki eru að gera.“

hdm@mbl.is