Agnes M. Sigurðardóttir
Agnes M. Sigurðardóttir
Eftir Agnesi M. Sigurðardóttur: "Nálægðin við sjóinn hefur mótað mannlífið kynslóð eftir kynslóð. Vitundin um hafið sem gjöfulan vin og ægilegan ógnvald í senn leiðir af sér áræði samfara lotningu."

„Ef Guð er til þá ætti hann að hjálpa manni, nú þarf maður á því að halda,“ var haft eftir sjómanninum Guðlaugi Friðþórssyni í Morgunblaðinu í mars 1984. Hann hafði á ótrúlegan hátt komist lífs af þegar Hellisey VE fórst undan Heimaey, synt í land og gengið berfættur til byggða yfir hraun og mela, eftir sex tíma volk í köldum sjónum. Í Morgunblaðsviðtalinu sagðist Guðlaugur áður hafa efast um tilvist Guðs og því hafi verið undarlegt að biðja um hans hjálp, sitjandi með skipsfélögum sínum á kili báts sem maraði í kafi og fara svo með Faðir vorið á sundinu áleiðis í land.

Þótt björgunarafrek Guðlaugs sé einstætt er hann langt í frá eini sjómaðurinn sem hefur sótt styrk í æðri mátt á ögurstundu. Sjómennska og trú hafa fléttast saman frá örófi alda, fjölskyldur sjófarenda hafa beðið fyrir þeim og sjómenn stundum lagt örlög sín í hendur almættisins. Bænir á raunastundu hafa auðveldað fólki að takast á við hættulegar aðstæður og ástvinum að takast á við missi.

Sjómannadagurinn er hátíðisdagur allra sjómanna. Árið 1938 var hann haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn á tveimur stöðum á landinu, á Ísafirði og í Reykjavík. Markmiðið var að vekja þjóðina til meðvitundar um starfssvið sjómannastéttarinnar, lífskjör og gildi í þjóðfélaginu. Tilgangurinn var einnig að sameina sjómenn, heiðra minningu þeirra sem Ægir hafði hrifsað til sín og vekja athygli á erfiðum starfsskilyrðum á sjó. Barátta sjómanna fyrir auknu öryggi á sjó hefur skilað gríðarlegum árangri og viðhorf til öryggismála hafa gjörbreyst. Enginn sættir sig lengur við mannskaða á sjó, sem áður þótti óumflýjanlegur hluti lífsbaráttunnar.

Sjómannadagurinn er ennþá einn stærsti dagur ársins í mörgum byggðarlögum. Nálægðin við sjóinn hefur mótað mannlífið kynslóð eftir kynslóð. Vitundin um hafið sem gjöfulan vin og ægilegan ógnvald í senn leiðir af sér áræði samfara lotningu.

Í ljóði eftir Jónas Guðmundsson stýrimann segir að Guð hafi haft mikið að gera á skútuöldinni, þegar margir fiskimenn áttu ekki afturkvæmt úr róðri. Síðar hafi Guð að mestu hætt til sjós og byrjað að vinna í landi. En Guðs er enn þörf á sjó og í hjarta ástvina sem bíða heima eftir að sjómaður komi í land, því þrátt fyrir miklar framfarir býr hafið enn yfir hundrað hættum. Í bænum sjómanna og aðstandenda þeirra koma saman trú, von og kærleikur – þrjár megindyggðir kristninnar – sem alltaf eiga erindi og munu óma í sjómannamessum helgarinnar víða um land.

Ég óska íslenskum sjómönnum, ástvinum þeirra og landsmönnum öllum til hamingju með sjómannadaginn.

Höfundur er biskup Íslands.

Höf.: Agnesi M. Sigurðardóttur