[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mörg okkar dreymir stóra drauma en hikum svo við að stíga fyrsta skrefið í átt að honum. Það krefst hugrekkis að þora af stað, mikilvægt er að finna hjá sjálfum sér traustið til að feta nýja slóð.

Mörg okkar dreymir stóra drauma en hikum svo við að stíga fyrsta skrefið í átt að honum. Það krefst hugrekkis að þora af stað, mikilvægt er að finna hjá sjálfum sér traustið til að feta nýja slóð. Stundum er hikið algjörlega heimatilbúið og stundum er erfitt að treysta umhverfinu fyrir draumnum.

Sjáðu fyrir þér að þú gangir inn í útlenskan skóg þar sem birtan er græn því sólin skín í gegnum þétt laufskrúðið í háum trjánum. Þegar betur er að gáð sést að á milli trjánna eru þrautabrautir gerðar úr járnvírum og netum og fótstig úr köðlum og timbri. Brautirnar eru mishátt frá jörðu, í allt að sjö metra hæð. Það sem meira er; fólk gengur á þessum vírum, klifrar upp og niður netadræsurnar og sveiflar sér í köðlum á milli trjápalla í svimandi hæð yfir höfði manns. Svona klifurgarðar, adrenalíngarðar, eru víðsvegar um heiminn þar sem ungir sem aldnir leika magnaðar kúnstir í trjánum. Að því er virðist – óhræddir!

Í fyrrasumar fór fjölskyldan í svona klifurgarð. Við byrjuðum á að klæða okkur í klifurbelti og læra á „karabínur“ sem tryggja öryggi við línur. Því næst byrjuðum við fyrstu þrautina hálfum metra frá jörðinni, fikruðum okkur á milli trjáa og samhliða jókst hæðin. Fyrr en varði var lofthrædda konan farin að ganga á línu sem væri hún sirkusmær í fimm metra hæð yfir jörðu. Full af trausti til klifurbeltisins og öryggislykkjanna tveggja vissi ég að búnaðurinn myndi grípa mig þótt ég missti fótanna. Samtímis laust niður í huga mér sterkri uppgötvun: Magnaðir hlutir eru mögulegir ef þú veist að þú getur ekki klikkað!

Draumar eru dýrmæt leið til að hugsa út fyrir rammann. Máta sig við ýmsan veruleika og hlutverk. Velta fyrir sér hvernig lífið væri ef þetta eða hitt myndi gerast í raunheimum. Sem slíkir eru draumar okkur mikilvægir. Það er þegar þeir skjóta upp kollinum í tíma og ótíma eins og uppáþrengjandi frænka að við ættum að staldra við og spá í hvort við ættum ekki að bjóða henni inn fyrir og kannski fylgja henni inn í óvissuna.

Rétt eins og í klifurgarðinum tökum við áskoruninni. Leggjum af stað – fyrst óviss og mögulega óörugg en smám saman treystum við umhverfinu og við sjálf ráðum við verkið. Þá eflist kjarkurinn og jafnvel þótt við misstígum okkur höldum við áfram og fyrr en varir erum við komin á leiðarenda. Það tókst!

Klifurgarðar hversdagsins eru margs konar. Spurningin er: Hvernig getum við skapað þessar aðstæður þar sem við getum ekki klikkað? Með karabínu og traustri línu verða draumarnir að veruleika.