Birgir Ármannsson
Birgir Ármannsson
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Ég myndi gera ráð fyrir því að það verði mælt fyrir því í þinginu á þriðjudag,“ segir Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, þegar hann er spurður um stöðu tillögu meirihluta atvinnuveganefndar um breytingu á veiðigjöldum.

Deilt hefur verið um málið á Alþingi í vikunni og ekki náðist samstaða um að veita því flýtimeðferð. Því gildir hin almenna fimm daga regla, að þar sem málið var lagt fram á miðvikudegi á að vera hægt að setja það á dagskrá eftir helgi. Þar sem ráðgert er að eldhúsdagsumræður fari fram á mánudag býst Birgir við því að það verði rætt á þriðjudag.

Það er semsagt útlit fyrir að það teygist á þingstörfum? „Já, það liggur í loftinu að það verði einhverjir dagar. Það er ekki þannig að þingforseti sé búinn að taka ákvörðun um breytingu á starfsáætlun en það leiðir af eðli máls, þegar töf verður með þessum hætti, að það geti bæst einhverjir dagar við. Það gerist oft að starfsáætlun tekur breytingum á síðustu dögunum. Ég reikna með að Steingrímur [J. Sigfússon, forseti Alþingis] taki þetta upp í forsætisnefnd á mánudag.“ Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, sagði í samtali við mbl.is að tillaga meirihluta nefndarinnar um veiðigjöld hefði ekki verið rædd á fundi nefndarinnar í gær.

Eins og Morgunblaðið hefur greint frá er stefnt að því að leggja fram frumvarp að nýjum lögum um veiðigjöld við upphaf þings í haust, en áðurnefndu frumvarpi sem lagt var fram á þingi í vikunni er ætlað að brúa bilið til áramóta. Að óbreyttu er ekki heimild í gildandi lögum um veiðigjald til álagningar veiðigjalds á landaðan afla í botnfiskstofnum eftir upphaf næsta fiskveiðiárs, 1. september, en lögin falla úr gildi um næstu áramót.