Digraneskirkja Vandi steðjar að kirkjunni vegna fjármála.
Digraneskirkja Vandi steðjar að kirkjunni vegna fjármála. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Á síðastliðnum tíu árum er niðurskurður sóknargjalda til allra safnaða í þjóðkirkjunni orðinn rúmlega 8,8 milljarðar króna.

Á síðastliðnum tíu árum er niðurskurður sóknargjalda til allra safnaða í þjóðkirkjunni orðinn rúmlega 8,8 milljarðar króna. Því er brýnt að viðræður ríkisvaldsins við kirkjuna um fjárhagsleg samskipt verði til lykta leiddar sem fyrst og það á jákvæðan hátt fyrir kirkju og kristni í landinu, segir í nýlegri ályktun héraðsfundar Reykjavíkurprófastsdæmis eystra. Er skorað á ríkisstjórnina að leiðrétta sóknargjöld í þá upphæð sem þau eigi að vera samkvæmt lögum. Einnig að stjórnvöld geri upp skuld sína við þjóðkirkjuna vegna skerðingar sóknargjalda sl. tíu ár.

Breytingar á starfsmannahaldi

Enn hafa engar fréttir borist af því að í vændum sé leiðrétting á þeirri gríðarlegu skerðingu sóknargjalda sem hefur viðgengist frá 2009, segir í ályktun héraðsfundar. Vakin er athygli á því að stjórnvöld hafi skorið sóknargjöld niður eftir efnahagshrunið langt umfram annað. Sóknargjaldið sé nú kr. 931 kr. á mánuði fyrir hvern gjaldanda, en ætti skv. lögum að vera 1.556 kr., eða 625 kr. hærra á mánuði. Haldi ríkisvaldið því eftir 40,2% af innheimtu gjaldi.

„Nú er svo komið að ákveðnir söfnuðir virðast endanlega vera að komast í þrot fjárhagslega,“ segir í greinargerð með ályktun héraðsfundar. Þar kemur fram að sumir söfnuðir hafi ekki getað sinnt brýnasta viðhaldi eigna og séu nú, nærri tíu árum eftir hrunið, að gera breytingar á starfsmannahaldi í sparnaðarskyni, s.s. með uppsögnum eða lægra starfshlutfalli. Hafi sóknargjaldið aðeins hækkað um 59 kr. á mánuði frá árinu 2008 eða um 6,8%. Á þessu tímabili hefur vísitala neysluverðs hins vegar hækkað um 60,2%. Sé trúfélögum í ár ætlað að reka starfsemi sína á um það bil helmingi þeirra rauntekna sem þau höfðu 2008.

Mikil tekjuskerðing

„Má það vera öllum ljóst að slíkt er í raun ekki hægt, enda vandfundinn sá aðili í þjóðfélaginu sem orðið hefur fyrir annarri eins tekjuskerðingu á þessum tíma,“ segir í ályktun héraðsfundar. Bent er jafnframt á að heildarniðurskurður sóknargjaldsins í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá árinu 2008 nemi nú um það bil 2,34 milljörðum króna eða að meðaltali nær 212 milljónum kr. á hverju ári. Talan sé svo enn hærri þegar allt starf þjóðkirkjunnar á landsvísu er í breytunni.